Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 15:45:21 (3204)

1997-02-06 15:45:21# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, JónK
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:45]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Skýrsla Íslandsdeildar Norður-Atlants\-hafsþingsins fyrir árið 1996 liggur fyrir á þskj. og ég vil í fjarveru formanns deildarinnar gera grein fyrir þessari skýrslu í nokkrum orðum. Hún liggur fyrir á þskj. 543.

Starfsemi Norður-Atlantshafsþingsins á árinu 1996 endurspeglar þau erfiðu verkefni sem Atlantshafsbandalagið stendur frammi fyrir að kalda stríðinu loknu. Fjöldi fyrrum aðildarríkja Varsjárbandalagsins sækist nú eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu og ber það áframhaldandi mikilvægi bandalagsins vitni. Gagnvart stofnunum evrópskra öryggismála leggja þessi ríki höfuðáherslu á aðild að Atlantshafsbandalaginu sem verið hefur að aðlaga sitt innra skipulag að breyttum verkefnum í breyttri heimsmynd. Bandalagið hefur styrk sem aðrar stofnanir skortir og búast má við að það taki enn frekar þátt í aðgerðum til að koma á friði í löndum utan bandalagsins þar sem óróleiki kemur upp, samanber mikilvægt hlutverk þess í Bosníu en fjölþjóðaliðið sem þar starfar nú undir samræmdri stjórn Atlantshafsbandalagsins við að koma á friði er umfangsmesta hernaðaraðgerð í sögu bandalagsins. Tengslin yfir Atlantshafið eru öryggi Evrópu jafnmikilvæg og áður líkt og sannaðist með undirritun Dayton-samkomulagsins um lausn Bosníudeilunnar. Mikilvægi þessara tengsla var í brennidepli umræðunnar á árinu, ekki síst í tengslum við hugmyndir um eflingu sjálfstæðs varnarmáttar Evrópuþjóða bandalagsins og vangaveltur voru um hlutverk og stöðu Vestur-Evrópusambandsins.

Efst á dagskrá Norður-Atlantshafsþingsins á árinu 1996 voru umræður um stækkun bandalagsins til austurs, hlutverk þess í Bosníu og efling Evrópustoðarinnar. Á ársþingi Norður-Atlantshafsþingsins í nóvember sl. var samþykkt ályktun þar sem m.a. er hvatt til aukins sjálfstæðis Evrópuríkja í öryggismálum. Jafnframt er hins vegar lögð áhersla á að slíkt samstarf Evrópuríkjanna verði áfram undir formerkjum Atlantshafsbandalagsins. Íslandsdeildin hefur í málflutningi sínum lagt megináherslu á mikilvægi Norður-Atlantshafstengslanna í evrópskum öryggismálum. Hún hefur ítrekað minnt á hvernig trúverðugleiki Atlantshafsbandalagsins hvílir á samstarfi Evrópu og Norður-Ameríku og að ekki megi missa sjónar á því á þessum umbreytingatímum. Íslandsdeildin hefur lýst yfir stuðningi við eflingu Evrópustoðar bandalagsins., t.d. í formi eflingar Vestur-Evrópusambandsins, en lagt áherslu á að áfram verði um Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins að ræða en ekki einungis varnarmálaarm Evrópusambandsins.

Jafnframt er í ályktun þingsins skorað á ríkisstjórnir aðildarríkjanna að hefja hið fyrsta viðræður við þau ríki sem sækjast eftir aðild að bandalaginu og teljast uppfylla skilyrði aðildar. Íslandsdeildin hefur raunar ekki viljað ganga jafnlangt og stór hluti þingsins í að þrýsta á ríkisstjórnina um að flýta fyrir inngöngu Mið- og Austur-Evrópuríkja í bandalagið. Hér er um flókið og viðkvæmt mál að ræða sem taka verður á með yfirvegun, en tvíhliða viðræður hafa farið fram við umrædd ríki og stefnt er að því að leiðtogafundur bandalagsins sem haldinn verður í sumar muni taka ákvörðun um hvaða ríkjum verður boðið til aðildarviðræðnanna. Ganga verður úr skugga um að viðkomandi ríki geri sér ljósar þær skyldur jafnt sem þau réttindi sem því fylgir að gerast aðilar að bandalaginu.

Ljóst er að innganga ríkja Mið- og Austur-Evrópu í Atlantshafsbandalagið fæli í sér skýr skilaboð um stuðning Vesturlanda við þær pólitísku og efnahagslegu umbætur sem átt hafa sér stað í þessum ríkjum undanfarin ár og sem fyrir dyrum standa. Norður-Atlantshafsþingið hefur lagt áherslu á náin samskipti við þessi ríki og nú hafa 15 ríki Mið- og Austur-Evrópu fengið aukaaðild að þinginu og taka þau mjög virkan þátt í störfum þess án atkvæðisréttar. En þingið leggur sitt af mörkum til að efla samskipti og gagnkvæmt traust milli þessara ríkja annars vegar og aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hins vegar. Hér er þó ekki einungis um að ræða ríki sem hafa sóst eftir aðild að bandalaginu. Þannig er Rússland á meðal aukaaðila á þinginu og hefur þar kjörið tækifæri t.d. til að fylgjast með umræðunni um stækkun bandalagsins og kynnast þannig ástæðunum að baki fyrirhugaðri stækkun sem ekki er beint gegn Rússum eða neinum öðrum heldur miðar að því að tryggja öryggi og stöðugleika í Evrópu. Í ályktun þingsins var enn fremur lögð á það áhersla að bandalagið mun áfram verða opið fyrir nýjum aðildarríkjum eftir að fyrstu ríkin hafa fengið aðild og komið verði á sérstöku samstarfi og samráðsfyrirkomulagi við Rússland og Úkraínu.

Bosníudeilan var sem áður segir í brennidepli umræðunnar á árinu en með undirritun Dayton-samkomulagsins um lausn Bosníudeilunnar fyrir rúmu ári síðan sannaðist enn og aftur að tengslin yfir Atlantshafið eru grundvallarstoð evrópskra öryggismála sem halda ber við að kalda stríðinu loknu líkt og Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins hefur lagt megináherslu á í málflutningi sínum á þinginu.

Ég vil að lokum þakka meðnefndarmönnum mínum í Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins fyrir gott samstarf og samstöðu í þeim málum sem þar hafa verið til umræðu. Ég vil jafnframt þakka Gústafi Adolf Skúlasyni ritara nefndarinnar fyrir mjög vel unnin störf fyrir hana. Ég tel að það sé afar mikilvægt fyrir Íslendinga og íslenska þjóðþingið og þingmenn á þessum umbrotatímum í sögu Atlantshafsbandalagsins að fylgjast með og leggja sitt lóð á vogarskálina. Ég vil nefna að ég hef sjálfur átt sæti í undirhóp, undirnefnd sem er að fjalla um öryggismál á norðurslóðum. Þar er komið m.a. inn málefni Eystrasaltsríkjanna sem við höfum alltaf látið okkur miklu varða og einnig höfum við lagt á það mikla áherslu að inn í þá öryggismálaumræðu verði tekin umræða og rannsókn á mengunarmálum á Kólaskaga og á Múrmansksvæðinu, en sá vopnabúnaður sem þar er geymdur og búið er að leggja til hliðar að miklu leyti eða stórum hluta felur í sér mikla hættu.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð að þessu sinni um þetta mikla málefni.