Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:00:23 (3207)

1997-02-06 16:00:23# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að brigsla hv. þingmönnum sem sæti eiga í þessari sendinefnd um að þeir töluðu ekki nægilega sterklega máli Eystrasaltsþjóðanna, síður en svo. Ég varpaði einungis nokkrum spurningum til hæstv. utanrrh. Hins verð ég auðvitað að segja að mér kom ýmislegt á óvart í því andsvari sem hv. þm. veitti áðan. Hann talaði um að vissulega þyrfti að styðja einhvern veginn við óskir Eystrasaltsþjóðanna en það mætti ekki gera á þann hátt að það yki viðsjár. Stækkun NATO yrði að leiða til þess að öryggi mundi eflast. Síðan kom hann sjálfur með forskriftina að því hvernig við ættum að fara að því að stækka NATO. Það eigum við að gera með tvennum hætti: Í fyrsta lagi með auknum viðræðum og í öðru lagi auknu samstarfi. Við hverja, herra forseti? Við Rússa. Það liggur alveg ljóst fyrir, herra forseti, að Rússar hafa slengt niður sínum stóra hrammi og sagt: ,,Við erum á móti því að Eystrasaltsþjóðirnar gangi í NATO. Við erum alfarið á móti því.`` Og þeir hafa einmitt notað nákvæmlega sömu hugtök og hv. þm., þ.e. að með því væri verið að draga nýjar víglínur.

Herra forseti. Ég get ekki annað en mótmælt þessum málflutningi sterklega. Ég spyr hv. þm. og félaga minn Jón Kristjánsson: Þýðir þetta að hann sé þeirrar skoðunar að við eigum ekki að ljá máls á því að Eystrasaltsþjóðirnar komist inn í NATO vegna þess að Rússar hafi sagt nei? Er hann að ýja að því að Rússar eigi með einhverjum hætti, beinum eða óbeinum, að hafa neitunarvald í þessum efnum? Ef svo er þá verð ég að segja að það er ekki boðlegur málflutningur fyrir hönd íslenska þingsins.