Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:06:04 (3210)

1997-02-06 16:06:04# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla þingmannanefndar Atlantshafsbandalagsins sem ber þess vott hversu mikilvægt þingmannasamstarfið er á þessum vettvangi.

Ég vildi aðeins koma að einu máli sem er stækkun Atlantshafsbandalagsins. Ég tel að það sé alveg ljóst að Atlantshafsbandalagið verður stækkað, sú ákvörðun liggi fyrir og fyrstu skrefin verði ákveðin á leiðtogafundinum í Madrid 9. og 10. júlí. Ég er ekki í nokkrum vafa um að sú stækkun og sú ákvörðun verður mikilvæg fyrir framþróun lýðræðis og mannréttinda í allri Evrópu. Áhrifa þessarar fyrirhuguðu stækkunar er þegar farið að gæta vegna þess að ýmis ríki í Austur-Evrópu og Mið-Evrópu og Eystrasaltsríkin eru nú þegar farin að taka ákvarðanir í sínum málum til þess að uppfylla þau skilyrði sem þau vita að verða sett fyrir aðildinni. Þau eru farin að semja um sín landamæramál, sín deilumál. Þau eru að vinna ákveðið að því að bæta lýðræði í löndunum og réttindi hins almenna borgara þannig að þetta stækkunarferli hefur þegar haft gífurleg áhrif til hins betra í Evrópu.

Fram hjá því verður ekki gengið hvort sem mönnum líkar það betur eða verr að Rússland er mjög mikilvægur þáttur í öryggismálum Evrópu og við hljótum að vinna þannig að málum að ekki verði reistir nýir múrar í stað þeirra múra sem hafa fallið. Eftir því sem við náum betra samkomulagi við Rússa um þessi mál, þeim mun líklegra er að stækkun Atlantshafsbandalagsins geti náð fram hið fyrsta. Það er ekkert flóknara en það. Þess vegna er það lykilatriði hjá þeim sem vilja veg Eystrasaltsríkjanna sem mestan að vinna af heilum hug að því er varðar samskiptin við Rússa því það liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að eftir því sem andstaðan gegn stækkun NATO er meiri í Rússlandi, þeim mun meiri viðbúnað þarf að hafa í þeim löndum sem ganga inn í Atlantshafsbandalagið. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og aðrir geta ekki gengið fram hjá því að sá viðbúnaður mun kosta mikla fjármuni og margir þurfa að leggja þar mikið fé af mörkum. Ég bendi á að Ísland er eina landið í Atlantshafsbandalaginu sem hefur engan her og leggur ekkert af mörkum í því sambandi til samstarfsins. Við hljótum því stundum að þurfa að meta okkar mál í samræmi við það.

Það kemur hins vegar ekkert í veg fyrir að við í ríkisstjórninni reynum að vinna allt sem við getum til gagns fyrir Eystrasaltsríkin. Ég veit ekki af hverju hv. þm. Össur Skarphéðinsson er alltaf að lýsa einhverjum skoðanaágreiningi á milli ríkisstjórnarflokkanna og er með einhvern skáldskap í því sambandi. Ég held að honum væri nær að athuga skoðanaágreining milli aðila sem eru í þessu sameiningarferli hér innan lands þó hann sé ekki í einhverjum skáldskap um skoðanaágreining innan ríkisstjórnarinnar og alla tíð í hverju einasta máli að túlka skoðanir Framsfl. Ég vil lýsa því yfir að þetta eru mjög vafasamar heimildir um skoðanir Framsfl. og bið alþingismenn að taka heldur lítið mark á túlkunum hv. þm. um það hverjar skoðanir Framsfl. séu í hinum ýmsu málum. En hann virðist hafa lagt sig mjög fram í þeim efnum og er raunar mun áhugasamari um það en að túlka skoðanir eigin flokks. (ÖS: Áhugasamari heldur en þið eruð um það.) (SJS: Hann er svo velviljaður ykkur.) Já, hann er svo velviljaður. Já, já. Við skulum reyna að trúa því og það er ekkert nema gott um það að segja og ef það er niðurstaðan þá er það sjálfsagt öllum fyrir bestu. En ekki vil ég a.m.k. skrifa upp á allar þær túlkanir, hvaða hugur sem liggur þar að baki.

Í þessu sambandi vil ég upplýsa það hvað ég sagði um þetta mál á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna í gær þar sem ég túlkaði skoðun íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu stækkunarferli að því er varðar Eystrasaltslöndin. Það sem hefur verið okkar ætlan á Norðurlöndunum er að samræma skoðanir okkar í þessum efnum til þess að það gæti orðið til sem mests gagns fyrir Eystrasaltsríkin. Ég sagði þar, hv. þm., að ég hafi verið talsmaður fyrir því að það yrði rannsakað gaumgæfilega hvort ekki væri mögulegt að bjóða samtímis öllum þeim umsóknarlöndum sem hafa raunverulegan áhuga til viðræðna og síðan réðist það í þeim viðræðum hverjir yrðu meðlimir fyrst og hverjir kæmu síðar. Ég sagði í framhaldi af því:

Þetta mun auka möguleika Eystrasaltsríkjanna til að verða meðlimir í fyrstu lotu en fyrst og fremst tryggja að við höldum fast við þá reglu að dyrnar standa opnar. Án tillits til þess hvort NATO-löndin verða sammála um þessa hugmynd eða ekki þá er ég þeirrar skoðunar að mögulegt sé að norrænu löndin standi saman til þess að varðaveita sem best eða taka til greina á sem bestan hátt öryggishagsmuni Eystrasaltsríkjanna og undirstrika alls staðar þar sem við komum fram sjálfsákvörðunarrétt þeirra í þeim málum er varða öryggismál. Við verðum að tryggja að þeir sem komast inn í fyrstu umferð verði ekki þeir síðustu og við munum ekki samþykkja að nýjum múrum, nýjum línum og áhrifasvæðum verði komið upp í Evrópu.

Þetta sagði ég á fundinum í gær og þetta er mín skoðun og ég tel mig með þessu vera að bera þau skilaboð sem mér hefur almennt fundist vera einhugur um hér innan lands. Ég tel að enginn ágreiningur sé um þetta. En við verðum samt að taka á málinu af fullu raunsæi og það væri ábyrgðarleysi af okkar hálfu að líta ekki til mikilvægis þess sem er að ná samningum við Rússa í þessum efnum og við eins og aðrir munum vinna að því hörðum höndum.