Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:17:59 (3212)

1997-02-06 16:17:59# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:17]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit satt að segja ekki hvað ég á að segja við hv. þm. Hann segir að það sé mikill blæbrigðamunur. Hann sagði ekki eitt orð um það hvort hann væri ánægður eða óánægður með það sem ég sagði á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna í gær, ekki eitt einasta orð. (SvG: Átti hann að gera það?) Nei, hann átti ekkert endilega að gera það. En hvað er hann þá að tala um blæbrigðamun og tala um þetta út og suður og fram og til baka og maður botnar ekkert í því hvað hann er að fara? Vildi hann að ég hefði talað öðruvísi á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í gær? Ég tel mig hafa verið að tala í þeim tón sem ég hef upplifað hér almennt á Alþingi sem ég vona að bærileg samstaða sé um og við séum að halda þar á málefnum Eystrasaltsríkjanna af heilum hug. Ef hann kann eitthvert ráð við því, þá væri gaman að heyra það. Mér heyrist að hann vilji helst fara í stríð við Rússa og hlusta ekkert á þá og láta sem þeir séu ekki til. Ef hann telur að það sé rétt stefna þá óska ég eftir að heyra einhver rök fyrir henni en það er ekki nóg að koma hér upp og segja að menn eigi bara að ganga í þetta blindandi.