Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:19:24 (3213)

1997-02-06 16:19:24# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ber hlýjan hug til Framsfl. og ég skil vel að forustumönnum hans sé heitt í hamsi þessa daga. Ég verð samt sem áður að gefa honum eitt ráð. Menn eiga ekki að láta skoðanakannanir taka sig á taugum. Ég hef verið og er í stjórnmálaflokki sem hefur séð tímana tvenna varðandi kannanir og það kemur alltaf að því að landið rísi og síðan verða menn að reyna að haga málum svo að það rísi á réttum tíma fyrir kosningar.

En vegna þess að hæstv. utanrrh. sýnir mér þann sóma að óska sérstaklega eftir umsögn minni um ræðu sem hann flutti í gær á Norðurlöndunum, þá verð ég að segja að mér finnst hann gerast fullfrekur til hins pólitíska fjörs. Ef hann vill að ég hafi skoðanir á því opinberlega hvað hann eigi að segja, þá vildi ég helst að hann sýndi mér ræðurnar áður en hann flytti þær. En ef honum verður eitthvað rórra í sinni við það að ég lýsi skoðun minni, þá get ég sagt honum að ég er sannfærður um að hann heldur þannig á málum eins og honum þykist best horfa fyrir hagsmuni Íslendinga og NATO. Ég er ekkert mjög og jafnvel ekkert ósammála því sem hann sagði á Norðurlöndunum í gær. Hitt er það að bæði hann og aðrir framsóknarmenn sem hafa talað hafa aldrei tekið jafnafdráttarlausa afstöðu og Sjálfstfl. hefur gert. Og ef það er ég sem vil fara í stríð við Rússa þá hlýtur hann að koma hér upp og segja að það sé alveg ljóst að ég hafi góða liðsmenn þar sem er gervallur Sjálfstfl., sér í lagi formaður utanrmn. og hæstv. forsrh. vegna þess að ég hef aldrei lýst annarri skoðun en þessir tveir heiðursmenn sem ég veit að honum þykir vænt um a.m.k. á hinu pólitíska sviði þessa dagana.