Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:25:06 (3215)

1997-02-06 16:25:06# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Umræðan hefur nú snúist upp í að nokkru leyti almenna umræðu um öryggismál í Evrópu og þá sérstaklega með vísan til áformaðrar stækkunar NATO. Það er í sjálfu sér ekkert lakara að ræða það undir þessum dagskrárlið en öðrum sem hér hafa verið á dagskrá í dag og allir gætu með réttu fallið undir þetta viðfangsefni, þ.e. öryggismál Evrópu í almennu samhengi.

Ég er þeirrar skoðunar að sjálf grundvallarhugsunin á bak við stækkun NATO sé röng og menn hafi lagt af stað út í ófæru strax frá byrjun þegar áform hófust um að stækka NATO. Meðal annars vegna þess að NATO eru ekki í grunninn þannig samtök að ég hafi trú á því að til frambúðar og framtíðar muni menn una því að það framtíðaröryggiskerfi grundvallist á uppbyggingu hernaðarbandalags.

Miklu verra er þó það að aðferðafræðin, sem til grundvallar liggur við stækkun NATO, er nánast dæmd til þess að valda spennu og skiptingu Evrópu á nýjan leik. Hún byggir á þeirri gömlu hugsun að þrátt fyrir allt verði dregin lína, bara á nýjum stað, í Evrópu svo lengi sem allir eru ekki með. Aðalgallinn við hugmyndafræðina er að mínu mati sá að hún byggir ekki á alevrópskri hugsun, að hafa þurfi alla landfræðilega Evrópu undir þegar verið er að bygga upp framtíðaröryggiskerfi. Út af fyrir sig hef ég ekki útilokað að einhverju, sem ætti rætur í NATO, hefði mátt hugsa sér að breyta þannig að það gæti orðið að alevrópsku verkfæri í þeim efnum en það er ekki ætlunin. Fyrir utan það að í grunninn hefur NATO ekki breyst, eingöngu tekið upp ný verkefni utan á sig, en sjálfur grundvallarstrúktúr NATO hefur ekki breyst og þar á meðal ekki afstaða NATO til beitingar kjarnorkuvopna.

Ég held hins vegar að rétt sé að horfast í augu við það að ásókn Austur-Evrópuríkja og þar með talið Eystrasaltsríkjanna í að komast inn í Evrópusambandið og að komast inn í NATO er ofureðlileg. Það er auðvelt að setja sig í þeirra spor og skilja hvers vegna þeir leggja á það mikla áherslu að það gerist og sem fyrst. Það er einfaldlega í ljósi sögulegrar reynslu þessara ríkja sem flest hafa búið við það í gegnum tíðina að stórveldin að austan og vestan í Evrópu hafa vaðið yfir þau og fótumtroðið sjálfstæði þeirra árhundruðum saman. Það á við um öll þau ríki sem hér eru til umræðu. Það á við um Mið-Evrópuríkin, Austur-Evrópuríkin og Eystrasaltsríkin þannig að ekki þarf mikla söguþekkingu til að skilja hvers vegna þessi ríki leggja á þetta áherslu fyrst og fremst til að tryggja öryggishagsmuni sína, en þau gera það í raun og veru á grundvelli gömlu hugmyndafræðinnar um skiptingu Evrópu. Keppikefli þessara ríkja er fyrst og fremst að lenda réttu megin við hina nýju skiptilínu. Það er það dapurlega við umræðuna þegar betur er að gáð. Þetta finnst mér einkenna andrúmsloftið t.d. í Eystrasaltsríkjunum þegar þessi mál eru þar á dagskrá. Ég var bæði í Litáen og Eistlandi á sl. ári og tók þátt í umræðum um öryggismál. Mér fannst áberandi hversu menn voru bundnir af hinum gamla hugsunarhætti um skiptingu Evrópu þrátt fyrir allt, sem gekk aftur eins og draugur í öllum umræðum manna um nauðsyn þess að komast vestur fyrir hina nýju línu.

Þá er komið að því sem hér hefur sérstaklega orðið að umræðuefni milli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hæstv. utanrrh., þ.e. spurningunni um hvort Eystrasaltsríkin verði með eða ekki í fyrsta inngangi. Ég held að það sýni betur en flest annað í hvaða ógöngur menn eru komnir með þetta mál, að ætlunin er hjá ráðandi aðilum innan Atlantshafsbandalagsins að Eystrasaltsríkin verði ekki með í fyrstu umferð. Það skapar tortryggni og hræðslu í sjálfu sér úr því að verið er að hreyfa við landamærum NATO á annað borð, umfram það sem fylgdi þá sjálfkrafa sameiningu Þýskalands, sem var gert með samþykki Rússa. Auðvitað er alveg ljóst að þetta dregur fram í hnotskurn þær ógöngur sem menn eru þarna í.

[16:30]

Ef menn hafa Eystrasaltsríkin ekki með þá veldur það tortryggni á því svæði, skapar úlfúð, en ef menn hafa þau með þá er aðgerðin enn þá meira ögrandi í garð Rússa. Þessu hafa Bandaríkjamenn að sjálfsögðu áttað sig á og gerast nú æ minna áhugasamir um stækkun NATO. Það væri fróðlegt að vita hvað hæstv. utanrrh. hefði að segja okkur um umræður í Bandaríkjunum nú á síðustu vikum og mánuðum þar sem gagnrýni fer mjög vaxandi á áformin um stækkun NATO. Margir áhrifamiklir menn í bandarískum stjórnmálum sem sérstaklega leggja sig eftir utanríkismálum eru farnir að vara sterklega við því að haldið verði áfram óbreyttri siglingu í þessum efnum.

Og af hverju er það sem hugsandi menn hafa áhyggjur af þessu? Það er fyrst og fremst vegna þess að þetta er stórhættulegt mál vegna ástandsins í Rússlandi. Öryggismálin í Evrópu í dag snúast fyrst og fremst um ástandið í Rússlandi. Þau snúast um stöðuna í austan- og sunnanverðri álfunni. Þar eru erfiðleikarnir. Þar eru púðurtunnurnar. Þar eru alls konar svæðisbundin vandamál sem valda óstöðugleika og átökum og menn eru væntanlega ekki svo illa upplýstir um gang mála og fréttir undanfarinna mánaða og missira að þeir viti ekki hvernig ástandið er og á ég þá við fleira heldur en Tsjetsjeníu. Það mætti nefna stöðuna í Georgíu, Armeníu og Aserbaídsjan, á Krímskaga og á fleiri svæðum, t.d. þar sem rússneskumælandi minnihlutahópar eru í bland við þjóðir og þjóðabrot sem núna sækja eftir auknu sjálfstæði innan landamæra fyrrum Sovétríkja.

Það er alveg augljóst mál að staðan í Sovétríkjunum fyrrverandi, og þá á ég við allt svæðið, og í Rússlandi er afar óstöðugt og þar má lítið út af bera. Öll heimsbyggðin væri ekki í angist út af heilsu eins einasta manns ef lýðræðið stæði föstum fótum í Rússlandi. Það er til marks um hversu brothætt þetta er að menn fylgjast tæpast jafngrannt með heilsufari og líðan nokkurs einasta núlifandi jarðarbúa og Jeltsíns Rússlandsforseta. Og menn óttast mjög að ógætileg framganga í þessu máli gæti einmitt orðið vatn á myllu þeirra afla, harðlínuafla og öfgafullra þjóðernissinna og fleiri slíkra aðila, sem síst skyldi að efldust til áhrifa með þau sjónarmið sem þeir hafa fram að bera. Lýðræði sem stendur afar veikum fótum gæti farið fyrir lítið ef Vesturlönd klúðra þessu máli.

Ég held þess vegna, herra forseti, að mönnum hefði verið hyggilegast að fara hér fram með meiri gát. Ég held að það sé heldur ekki í sjálfu sér mjög málefnalegt innlegg í þetta, ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir hv. 15. þm. Reykv., að vera með einhverjar óskaplegar neglingar í sambandi við það að þetta snúist um hvort Eystrasaltsríkin séu með eða ekki með í fyrstu umferð. Það er einungis angi af miklu stærra vandamáli sem þessu er samfara úr því að menn fóru af stað á annað borð. Og langhyggilegast hefði verið að hrófla ekki við mörkum NATO þangað til að það yrði lagt niður og nýtt alevrópskt öryggiskerfi byggt upp í staðinn, sem hefði haft Rússland með frá byrjun, þannig að menn hefðu aldrei látið sér detta það í hug að reyna að byggja upp nýja skipan öryggismála í Evrópu í andstöðu við austurhluta álfunnar. Það er heimskulegt. Það er fyrst og fremst heimskulegt vegna þess að ófriðarhættan er mest þar. Þess vegna skiptir öllu máli fyrir stöðugleika og frið í Evrópu að standa þannig að málum að reynt sé að styðja við lýðræðis- og friðarþróun í austanverðri álfunni þar sem ástandið er langbrothættast. Það er ekki hugsunin á bak við stækkun NATO heldur þvert á móti. Þannig að þetta hefur verið rekið nánast eins og eitthvert trúboð og það hefur verið afar erfitt að fá upp um þetta einhverja málefnalega umræðu.

Það er auðvitað dálítið dapurlegt, herra forseti, að það er veruleg hætta á ferðum á að hinu að mörgu leyti stórkostlega sögulega tækifæri sem skapaðist í Evrópu í lok níunda áratugarins verði klúðrað, og niðurstaðan verði sú að spenna fari vaxandi í álfunni á nýjan leik. Ég hvet menn til að lesa t.d. grein eftir Gorbatsjov fyrrum Sovétleiðtoga sem birtist í blaðinu International Herald Tribune 18.--19. janúar sl. þar sem Gorbatsjov varar mjög eindregið við því að halda óbreyttri siglingu í sambandi við stækkun NATO. Og ætli það sé ekki þannig að það væri ágætt fyrir ýmsa stjórnmálamenn á Vesturlöndum að leggja sig eftir því sem Rússar sjálfir segja um þessi mál, ætli þeir þekki ekki best til hvernig ástandið er og megi gerst um það vita að þarna er hyggilegt að fara með gát. Ég hefði haldið að það hefði verið farsælla að reyna að draga Rússa og Austur-Evrópuþjóðirnar inn í þéttara samstarf undir merkjum ÖSE og annars staðar þar sem öll Evrópa situr við borðið og leggja þeim lið í að byggja upp efnahagsstarfsemi í landinu sem lofað var en lítið hefur orðið á efndum á og reyna að standa á bak við Austur-Evrópuþjóðirnar í því að reyna að bæta lífskjör og þróa lýðræði en ekki byggja málin á þessari útfærslu, í raun og veru gömlu kaldastríðshugmyndafræðinni, því miður, sem felst í því að færa landamæri NATO austur á bóginn.

Þetta er nú, herra forseti, það sem ég vil sérstaklega leggja áherslu á í þessum efnum. En vissulega er það svo að þegar út í ógöngurnar er komið þá er ekki alltaf auðvelt að finna leið til baka, það er ekki alltaf auðvelt að snúa við. Það er auðvitað ljóst að það er orðið sæmdarmál fyrir mörgum að þetta geti með einhverjum hætti gengið eftir. Sumir nota þá einföldu aðferðafræði að segja bara að málið liggi þannig að ekki sé hægt að segja nei. Þessar þjóðir vilji vera með og þá sé ekki hægt að segja nei. En það er ekki hægt að líta þannig einangrað á öryggismál í heilli heimsálfu. Það skilar engum árangri. Það er gamla aðferðin --- að búa til nýjar línur á kortinu. Ég hélt að reynslan af slíkri aðferðafræði, bæði frá Afríku, Miðausturlöndum og víðar, væri ekki svo góð í sambandi við sambúð þjóða og þjóðabrota að menn ættu ekki að hafa lært eitthvað af henni. En það er nú því miður þannig stundum að menn virðast þurfa að endurtaka sömu mistökin á hálfrar til einnar aldar fresti. Búa sér til ný landamæri, nýjar spennulínur og baksa svo við afleiðingarnar af því í kjölfarið. En ég held í öllu falli að ástæða sé til að mæla varnaðarorð og hvetja menn til þess að fara hér fram með gát. Náist um þessi mál slíkt samkomulag að menn hafi trú á því að einhverjar breytingar í þessa veruna geti gerst í fullkomnum friði og sátt við alla, þá er það að sjálfsögðu jákvætt, en menn mega heldur ekki gleyma því að hér þarf að líta til lengri framtíðar.

Menn þurfa líka að hafa í huga hver áhrifin af slíku geta orðið á stjórnmálaþróun og aðstæður í viðkomandi löndum og viðkomandi heimshluta til lengri tíma litið. Sú hætta hlýtur að vaka í málinu, ef stórþjóð eins og Rússum sem hafa mikinn metnað fyrir sinni sögu finnst að þeir hafi á hnjánum verið látnir kokgleypa breytingar í öryggismálum í álfunni sem eru þeim andstæðar, að það verði, þótt síðar verði, vatn á myllu afla sem ég hélt að ekki væri ætlunin að styrkja til valda og áhrifa í því landi, jafnvel þó svo að núverandi valdhafar í Rússlandi, veikir sem þeir eru í margföldum skilningi, kynnu að skrifa upp á þetta með einhverjum hætti. Það held ég að sé sá þáttur þessa máls sem er langalvarlegastur og mest umhugsunarefni --- sem sagt pólitísk langtímaáhrif af breytingum sem þarna kynnu að vera gerðar í andstöðu við eða þannig að það hefði áhrif til hins verra á almenna stjórnmálaþróun í álfunni. Það er líka ljóst að Rússar hafa af því miklar áhyggjur að þau lönd sem næst þeim liggja og mörg með landamæri að Rússlandi, sem áður voru í varnarbandalagi með þeim, mundu ekki bara færast yfir í NATO sem hlutlausir aðilar, heldur ætli þau í beinu framhaldi að byggja upp mjög öflugar varnir sem verður þá beint gegn Rússlandi, eðli málsins samkvæmt. Því ekki panta Pólverjar fyrir fram 100 orrustuþotur sem þeir ætla að kaupa um leið og þeir eru komnir inn í NATO til þess að verja sig fyrir Þýskalandi --- er það? Væntanlegri bandalagsþjóð? Nei, ætli það sé ekki þannig að þær eigi þá að vera hluti af vörnum sem eru byggðar upp og beint gegn nágrannanum í austri?

Þannig held ég, herra forseti, að umræðan öll um þessi mál sé ekki tekin niður á jörðina og niður á raunsæjar nótur af einhverjum ástæðum. Og það virðist vera erfitt að fá menn til að horfast í augu við þessa hluti eins og þeir eru og ræða þetta bæði í ljósi stjórnmálaþróunar og sögunnar og þess sem hún kennir okkur. Ættu menn þó að hafa lært að gleyma henni ekki því hún hefur tilhneigingu til að endurtaka sig.