Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:45:11 (3218)

1997-02-06 16:45:11# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að gera því skóna að fram undan væri styrjaldarástand í Evrópu þar sem menn mundu aftur standa gráir fyrir járnum eins og á dögum kalda stríðsins. En það sem ég óttast er að innan Rússlands nái þeir yfirtökum sem vilji sýna styrk sinn og jafnframt styrkja sjálfa sig inn á við með því að fara í landvinninga af því tagi sem felast í því að hrammsa til sín aftur smáríki á landamærunum. Sagan hefur sýnt að það hefur tekist næsta auðveldlega.

Mér finnst að Íslendingum, sérstaklega sem smáþjóð, beri siðferðileg skylda til að styðja þessa viðleitni. Það kann vel að vera að styrkur okkar dugi ekki til þess. En einhver verður að standa upp og segja: Við styðjum þessar þjóðir. Einhver verður að gera það. Ég óttast það sannarlega að ef þær sitja hjá núna muni röðin ekki koma að þeim aftur. Ég vona að sú skoðun mín sé röng.