Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:48:08 (3220)

1997-02-06 16:48:08# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:48]

Geir H. Haarde (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði því miður ekki alla ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar en þó heyrði ég að hann spurði hvort menn hefðu ekki fylgst með umræðunum í Bandaríkjunum að því er varðar stækkun NATO. Ég svara fyrir mitt leyti. Jú, ég hef fylgst með þeim. Ég heyrði m.a. Clinton Bandaríkjaforseta lýsa því yfir nú í vikunni í sjónvarpi að á dagskrá ríkisstjórnar hans væri að beita sér fyrir stækkun bandalagsins á þessu ári, þannig að það er það nýjasta sem fram hefur komið vestan hafs í þessum málum. Við minnumst þess hvernig andstæðingar hans í forsetakosningunum í nóvember, úr repúblikanaflokknum lögðu mikla áherslu á stækkun NATO og að hann hefði brugðist í þeim málum gagnvart Pólverjum, Tékkum og Ungverjum. Það var nú eitt atriðið.

Hér hefur farið fram töluverð umræða um stækkun bandalagsins og hversu mikið tillit menn eigi að taka til Rússa. Það er auðvitað umræða sem er gott að eigi sér stað. Menn eiga að vega og meta það mál. Auðvitað er það mikilvægt og innlegg í málið hver afstaða Rússa í þessu verður. En það er út af fyrir sig fróðlegt að heyra hvernig menn skiptast á skoðunum og fróðlegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skuli taka af svona mikilli alvöru þátt í umræðum um stækkun bandalags sem hann hefur alla tíð verið á móti. Og nú vil ég spyrja hann einnar spurningar í ljósi þessara umræðna og í ljósi nýafstaðins aðalfundar miðstjórnar Alþb. Er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon enn þeirrar skoðunar, eins og hann hefur alltaf verið, að Ísland eigi að segja sig úr þessu bandalagi? Að Íslendingar eigi að ganga út NATO? Ég spyr.