Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:53:51 (3223)

1997-02-06 16:53:51# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég treysti mér ekki til að taka til orða eins og hv. þm. gerði að sumir hafi réttar og aðrir rangar skoðanir í þessu máli. Ég held að það sé dálítið hættulegt orðalag og hafi lengst af verið, svona rétttrúnaðarmálflutningur af því tagi. Það gerðist nú að hv. þm. fjarstöddum, hygg ég, að þessi umræða spannst upp í tiltölulega almenna umræðu um öryggismál í Evrópu með vísan til stækkunar NATO. Það er í sjálfu sér eðlilegt að svo fari því auðvitað er ekkert eitt mál stærra í sjálfu sér en það. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að menn ræði það mál í samræmi við stærð þess hvort sem menn eru samþykkir eða mótfallnir hernaðarbandalaginu sem slíku sem þarna á í hlut. En það væri þá líka fróðlegt að hv. þm. svaraði því í ljósi þeirrar áherslu sem hann leggur á að Eystrasaltsríkin verði með í fyrstu umferð. Er sú sannfæring hv. þm. svo sterk að hann leggi til að það verði gert jafnvel þótt það sé í mjög harðri andstöðu við Rússa þannig að um það verði bullandi átök í Evrópu? Telur hv. þm., burt séð frá öðru, að það sé skynsamleg eða heppileg aðgerð með tilliti til öryggishagsmuna Evrópu í heild?