Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 17:01:24 (3227)

1997-02-06 17:01:24# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[17:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þá er bara eftir ein spurning: Af hverju eru þá ekki Rússar með? Af hverju eru þá ekki Rússar teknir inn í leiðinni? Það er það skrýtna við þetta. (Gripið fram í: Þeir vilja það ekki.) Þeir vilja það ekki? Hefur verið látið á það reyna? Ef menn virkilega trúa á að þeir séu að byggja einhverja nýja öryggislausn fyrir Evrópu á einhverjum saltstólpa sem hæstv. utanrrh. rekur alla hluti til og gefur sér að ekkert hefði getað gerst í heiminum á síðustu áratugum nema vegna þess að NATO var til. Ég læt það nú hvarfla að mér að ef ekki hefði verið NATO, þá hefði verið einhver önnur skipan mála sem hefði komið inn í staðinn og enginn getur sagt í sjálfu sér, því það þýðir ekkert að ræða um söguna í þáskildagatíð, hvort hún hefði ekki getað verið alveg jafngóð eða betri. En sleppum því og geymum þær æfingar þangað til seinna.

Að lokum kemur auðvitað þessi spurning upp: Af hverju er ekki Rússland með ef menn ætla að ná allri Evrópu undir nýjan skipan öryggismála sem heldur og er til frambúðar og er líkleg til árangurs? Það er kannski vegna þess að þá lenda menn austur að kínversku landamærunum og er það viðkvæmt mál? Nei, málin eru ekki svona einföld. Ef girðing er færð til um 100 metra þá er hún bara komin á nýjan stað, en hún er samt girðing. Það er vandinn og ég sé ekki að Evrópa sé hótinu betur sett með nýja spennulínu þó að hún liggi nokkur hundruð eða þúsund kílómetrum austar en sú gamla.