Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 17:12:13 (3229)

1997-02-06 17:12:13# 121. lþ. 64.10 fundur 103. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[17:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þann áhuga sem hann sýnir þessum málaflokki. Margt af því sem hann sagði er mjög rétt. Það liggur alveg ljóst fyrir að við Íslendingar höfum ekki lagt jafnmikið af mörkum á sviði þróunarhjálpar og við hefðum getað gert. Það má hins vegar alltaf um það deila hvernig fjármuna skuli aflað til slíkra verkefna.

Þrátt fyrir það tel ég að við höfum verið að gera margt gott á undanförnum árum í þróunarhjálp og sumt af því sem nú er að hefjast lofar góðu. Ég nefni í þá samband þá hjálp sem hefur farið af stað í Afríku, í Namibíu, í Malaví og nú síðast í Mósambík. Það verður mun meira úr þessari hjálp vegna þess að við reynum að vinna í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn og Alþjóðabankann sem við höfum leitað eftir samvinnu við í vaxandi mæli. Þó að það flokkist ekki undir þróunarhjálp þá er sú aðstoð sem við erum að veita í Bosníu veruleg, um 100 millj. kr. og vonandi verður mun meira úr henni vegna þess að það samstarf er rekið í samvinnu við Alþjóðabankann sem ég tel að við höfum ekki nýtt í nægilega miklum mæli. En nú nýlega hefur utanrrn. tekið við forsvari í þeim banka í ljósi þess að hann einbeitir kröftum sínum aðallega að þróunarmálum. Þetta leggur að vísu auknar byrðar á utanrrn. í því starfi sem þar fer fram og kallar á meiri vinnu þar innan dyra.

Ég er sammála hv. þm. um að við þurfum að auka okkar þróunarhjálp. Það er aðalatriðið. Um það hvernig það skuli gert skal ég ekki hafa neinar fullyrðingar. Við höfum verið að draga úr því að nota markaða tekjustofna. Það hefur verið stefna íslenskra ríkisstjórna á undanförnum árum að hætta því í sem mestum mæli og þessi ríkisstjórn hefur stefnt að því líka. Með því að hækka tekjuskatt fyrirtækja sérstaklega um 3% erum við að skapa nýtt rekstrarumhverfi fyrir atvinnureksturinn í landinu. Tekjuskattur hér á landi er ekki lægri en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur nema síður sé og löndin allt í kringum okkur eru yfirleitt að lækka tekjuskatt á fyrirtæki. Við tökum þá áhættu að sjálfsögðu ef við skattleggjum okkar fyrirtæki hærra en gert er í nágrannalöndum okkar að við missum atvinnureksturinn frá okkur þegar miðað er við það mikla frelsi sem menn búa nú við í sambandi við flutning fjármagns og flutning vinnuafls. Ég hef því ákveðnar efasemdir um að það eigi að fara út í markaðan tekjustofn í þessu sambandi þó að ég vilji ekkert útilokað það.

[17:15]

Ég vil minna á að ýmsar þjóðir hafa verið að leita leiða í þessum efnum til þess að auka framlag hins alþjóðlega samfélags til þessara málaflokka og þá ekki síst til starfsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Upp hafa komið hugmyndir um að leggja sérsakan skatt á allar gjaldeyrisyfirfærslur í heiminum og það hafa líka komið upp hugmyndir um að leggja sérstakan skatt á allar flugsamgöngur. Það er náttúrlega alveg ljóst að slíkur skattur eins og á flugsamgöngur leggst misjafnlega á þjóðir því að þjóðirnar eru mismunandi háðar slíkum samgöngum. Við Íslendingar erum t.d. miklu háðari flugsamgöngum en flestar aðrar þjóðir. En allt er þetta rétt að skoða.

Að því er varðar skatt á gjaldeyrisyfirfærslur þá hefur það reynst mjög flókið mál. Líka er ljóst að ef verður úr myntsamrunanum í Evrópu, sem verður áreiðanlega, þá mun það að sjálfsögðu draga úr gjaldeyrisyfirfærslum milli þeirra landa þannig að það vakna upp spurningar hvort það sé réttur mælikvarði á framlög þjóða heimsins til þessa málaflokks. En allt er þetta rétt að skoða og útiloka ekki neitt fyrir fram því að auðvitað finnst aldrei tekjuöflunarleið í þessu sambandi sem verður gallalaus.

Ég vil fagna því að þessi mál eru rædd hér á Alþingi og verða tekin fyrir í utanrmn. Það er vissulega ástæða til þess. Það liggur fyrir að utanrmn. samþykkti fyrir sitt leyti þáltill. á sínum tíma og Alþingi staðfesti þá þáltill. og samþykkti hana einróma. Það hefur ekki verið unnið í samræmi við hana. Það eru staðreyndir málsins. Þess vegna er mikilvægt að um þessi mál sé fjallað.

Að því er varðar utanrrn. sem heild, þótt af okkar hálfu standi fullur vilji til þess að auka framlög til þróunarsamvinnu, þá sjáum við engar leiðir til þess að draga úr annarri starfsemi ráðuneytisins til þess að ná því fram nema þá að loka einhverjum sendiráðum og draga stórkostlega úr alþjóðlegu samstarfi. En á sama tíma er verið að krefjast þess af bæði atvinnulífinu og öðrum að við aukum þjónustu erlendis með því að opna ný sendiráð. Sannleikurinn er sá að það er svo mikill vöxtur í hinu alþjóðlega samstarfi og svo mikið í húfi að gæta hagsmuna landsins að það getur verið stórvarasamt að standa utan við margvíslegt samstarf sem á sér stað. Og við missum af ýmsu ef við tökum ekki þátt í því. Það liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að með því að reka ekki sendiráð í ýmsum löndum, þá erum við að missa af ýmsum samskiptum. Við erum að missa af viðskiptum. Við erum að missa af því að fá til okkar ferðamenn o.s.frv. Ég held því að ekki verði dregið í efa að verðmæti hins alþjóðlega samstarfs er mikið, en við Íslendingar verðum að vera það stoltir að leggja það af mörkum sem okkur ber til að hjálpa þeim sem minna mega sín í heiminum því að þótt víða megi finna vandamál í samfélagi okkar og fátækt finnist víða, þá eru það smámunir á við það sem við sjáum víða í hinu alþjóðlega samfélagi.