Bann við framleiðslu á jarðsprengjum

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 17:40:31 (3232)

1997-02-06 17:40:31# 121. lþ. 64.12 fundur 267. mál: #A bann við framleiðslu á jarðsprengjum# þál., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[17:40]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktun þess efnis að Alþingi skori á ríkisstjórnina að beita sér fyrir alþjóðlegri samþykkt um bann við hönnun, framleiðslu, notkun og sölu á jarðsprengjum og öðrum þeim sprengjum sem framleiddar eru til þess eins að limlesta eða granda fólki.

Fyrir frumkvæði alþjóðaráðs Rauða krossins og fleiri alþjóðlegra samtaka ótengdum ríkisstjórnum hefur athygli heimsins verið vakin á þeim óhugnaði sem felst í framleiðslu og dreifingu á jarðsprengjum sem hafa þann eina tilgang að limlesta eða drepa fólk eins og ég nefndi áðan. Fyrir frumkvæði þessara aðila hefur málið verið tekið upp á vettvangi fjölmargra fjölþjóðlegra stofnana og mörg þjóðþing hafa fjallað um málið og sum hver hvatt til alþjóðlegs banns við útflutningi á slíkum tólum, en meðal þeirra eru þjóðþing Svíþjóðar, Írlands, Eistlands, Kambódíu, Kolumbíu og Mexíkó. Þessi lönd hafa hins vegar ekki sett einhliða bann við framleiðslu eða útflutning á jarðsprengjum. Bretland og Frakkland hafa samþykkt útflutningsbann á slík vopn og Clinton-stjórnin í Bandaríkjunum hefur beitt sér fyrir samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem skorað er á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að samþykkja útflutningbann á jarðsprengjur auk þess sem Clinton Bandaríkjaforseti hefur nú nýverið gert slíkt bann að sérstöku baráttumáli sínu. Mér vitanlega er Belgía hins vegar eina landið sem hefur lögleitt bann við framleiðslu, notkun og útflutningi á jarðsprengjum en önnur ríki hafa hins vegar farið vægar í sakirnar.

Það er trú mín að einungis algjört alþjóðlegt bann við framleiðslu og sölu á slíkum varningi geti stemmt stigu við frekari útbreiðslu á notkun jarðsprengna og þær tillögur sem samþykktar hafa verið á alþjóðavettvangi og studdar af íslenskum stjórnvöldum gangi of skammt til að vænta megi árangurs. Því er þessi þáltill. er flutt.

Mál þetta stendur okkur því miður mikið nær en margur kynni að halda því jarðsprengjur eru bæði framleiddar og notaðar á Norðurlöndum. Samkvæmt upplýsingum sem dreift var á þingi Norður-Atlantshafsráðsins í október 1995 og stuðst er við í þessari greinargerð eru Svíar meðal þeirra þjóða sem framleiða hvað flestar tegundir af jarðsprengjum. Svíar skipa sér hvað þetta varðar í hóp með Ítölum, Bandaríkjamönnum, Rússum og Kínverjum. Samkvæmt sömu heimildum framleiða þrjú fyrirtæki í Svíþjóð slík vopn: Celsius AB, Bofors og Lindesbergs Industrier AB. Sá tvískinningur frændþjóðar okkar í Svíþjóð sem felst annars vegar í samþykkt þjóðþings Svía þar sem hvatt er til alþjóðlegs útflutningsbanns á jarðsprengjur og svo því að fyrirtæki í Svíþjóð eru stórir framleiðendur slíkra hernaðartóla vekur furðu svo ekki sé meira sagt.

Í þeirri heimild sem ég vitnaði til áðan kemur einnig fram að fyrirtæki í Noregi og Danmörku hafa framleitt jarðsprengjur en þeirri framleiðslu er nú hætt. Jafnframt kemur fram að jarðsprengjur eru enn framleiddar í Finnlandi og þó ekki sé vitað til að Finnar stundi útflutning á jarðsprengjum er vitað að þeir hafa komið fyrir miklu magni af slíkum sprengjum á landamærum Finnlands og fyrrum Sovétríkjanna. Þessi óhugnaður er með öðrum orðum í okkar eigin bakgarði.

Samþykki Alþingi þáltill. þá sem hér er flutt gætu Íslendingar byrjað á að beita sér fyrir því hjá Norðurlandaráði að ráðið skori á ríkisstjórnir Norðurlanda að banna framleiðslu og notkun á jarðsprengjum sem hafa þann eina tilgang að limlesta fólk. Þó menn þurfi vonandi ekki að velkjast í vafa um að framleiðendur jarðsprengna hugsi sér þá framleiðslu eingöngu sem vopn til nota í hernaði er það engu að síður staðeynd að jarðsprengjur eru eyðileggjandi afl löngu eftir að stríði eða átökum lýkur. Í greinargerð sem utanrrn. Bandaríkjanna flutti þinginu þar í landi árið 1994 segir um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Mikill meiri hluti af þeim jarðsprengjum sem eru í geymslu eða notkun núna eru ekki með aftengibúnaði eða sjálfseyðingu. Þessar sprengjur eru virkar og banvænar löngu eftir að átökum lýkur og drepa og limlesta allt að 26.000 einstaklinga á hverju ári, flest óbreytta borgara.``

Með slíkan vitnisburð er í raun ótrúlegt að nú þremur árum eftir að Sameinuðu þjóðirnar að frumkvæði Bandaríkjanna beindu því til aðildarþjóða sinna að hver þjóð um sig beitti sér fyrir útflutningbanni á jarðsprengjur, þá skuli enn settar í jörðu fleiri jarðsprengjur en teknar eru úr umferð. Áætlað er að 100 milljónir jarðsprengna séu í jörðu í 65 löndum víðs vegar um heiminn. Sameinuðu þjóðarinar hafa upplýst að árið 1993 hafi samtals 80--100 þúsund jarðsprengjur verði hreinsaðar úr jarðvegi í heiminum. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna var hins vegar 2,5 milljón nýrra jarðsprengna komið fyrir í jörðu vítt og breitt um heiminn á sama tíma. Með sama áframhaldi sýnist mér að heimsbyggðin verði enn að hreinsa upp jarðsprengjur eftir þúsund ár.

[17:45]

Menn skulu ekki ímynda sér að það sé einfalt verk að hreinsa upp þennan ósóma. Tækni sú sem notuð er til að finna jarðsprengjur er að uppistöðu sú sama og notuð var í seinni heimstyrjöldinni og vinna við að finna og eyðileggja slíkar sprengjur í jörðu er bæði seinleg, dýr og afar hættuleg. Sú mannfórn sem heimsbyggðin geldur sé jarðsprengjum ekki eytt er þó margföld á við þann kostnað sem fylgir upprætingu á sprengjunum. Fimm hundruð manns verða fyrir limlestingu eða dauða í hverri viku af völdum jarðsprengna, að langstærstum hluta óbreyttir borgarar, einkum konur, börn og bændur. Jarðsprengja sem unnt er að kaupa fyrir um þrjá dollara eða sem svarar til 200 ísl. kr. á alþjóðlegum markaði kostar um 1.000 dollara að hreinsa upp eftir að henni hefur verið komið fyrir í jörðu. En þó dýrt sé að hreinsa upp þessar sprengjur er sú umönnun sem til þarf að koma til hjálpar fórnarlömbum þessara hernaðartóla margfalt dýrari og er þó ekki reynt að leggja mat á mannlegar þjáningar. Umönnunarkostnaður og læknisaðgerð í fátækustu ríkjunum vegna slysa af völdum jarðsprengna er áætlaður að meðaltali vera 3.000 dollarar á slys miðað við það að læknisaðgerð sé framkvæmd í heimalandi. Þó að læknisaðgerð upp á 3.000 dollara sé ekki há fjárhæð miðað við það sem gerist í þróuðum ríkjum má samt áætla að sá kostnaður sem þróunarríki þurfa að bera vegna þeirra sem þegar hafa limlest af þessum sökum sé um 750 millj. dollara eða sem svarar til 50 milljarða ísl. kr.

Afganistan er það land sem verst er talið leikið af völdum jarðsprengna en þar er áætlað að um 10 milljónir jarðsprengna séu í jörðu, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Þau lönd sem næst koma eru Angóla og Kambódía með samtals um 28 milljónir sprengna í jörðu en samtals eru 28 milljónir í þessum þremur löndum, þ.e. Afganistan, Angóla og Kambódíu. Í Afganistan stafar vandamálið að stærstum hluta frá þeim tíma er herir fyrrum Sovétríkjanna dreifðu sprengjum úr flugvélum á svæði þar sem óbreyttir borgarar höfðust við. Meðal sprengna sem þannig var dreift eru sprengjur sem kallaðar hafa verið eða nefndar ,,fiðrildi`` vegna lögunar sinnar og þess að sprengjurnar líkjast meira leikfangi en sprengju. Sameinuðu þjóðirnar telja að ,,fiðrildi`` þessi hafi orðið þess valdandi að börn eru í yfirgnæfandi meiri hluta þeirra 800.000 Afgana sem hafa orðið fórnarlömb jarðsprengja.

Í Angóla hafa um 70.000 manns misst limi eftir að hafa stigið á jarðsprengjur og bætast 25 manns að meðaltali í þann hóp á hverjum einasta degi. Í Kambódíu verða að meðaltali yfir 200 manns á dag fyrir því að stíga á jarðsprengjur, mest af því óbreyttir borgarar að sinna daglegum störfum. Alþjóðanefnd Rauða krossins hefur áætlað að af átta milljónum íbúa Kambódíu séu um 34.000 manns sem misst hafa lim af völdum jarðsprengna eða einn af hverjum 236 íbúum landsins. Til samanburðar má nefna að í Bandaríkjunum eru það færri en 1 á móti 22.000 íbúum sem þurfa að sæta aflimun af völdum slysa.

Það landsvæði þar sem flestum jarðsprengjum hefur verið komið fyrir á undangengnum tveimur til þremur árum er fyrrum Júgóslavía en þar er talið að settar hafi verið niður um 50.000 sprengjur á viku mánuðum saman. Um þremur milljónum jarðsprengna hefur verið komið fyrir í Króatíu og Bosníu án þess að staðsetning þeirra væri færð inn á kort eða getið um staðsetningu í skráðum heimildum. Og þess má geta að jarðsprengjur eru næstalgengasta dánarorsök gæsluliða Sameinuðu þjóðanna í fyrrum Júgóslavíu.

Jarðsprengjum mun í hernaði almennt skipt upp í tvo hópa, þ.e. sprengjum sem granda skriðdrekum og flutningatækjum, á enskri tungu eru þær nefndar anti-tank eða anti-vehicle sprengjur, og svo sprengjur sem eingöngu eru ætlaðar til þess að granda fólki eða limlesta, svonefndar anti-personnel. Sprengjur ætlaðar til að limlesta fólk eru minni og erfiðara er að finna þær í jörðu og gera óvirkar en stærri sprengjur. Vitað er um tvö hundruð tegundir af jarðsprengjum sem framleiddar eru í 36 löndum. Sprengjum þessum er ýmist komið fyrir með handafli, dreift úr flugvélum eða með þar til gerðum sprengjuvörpum sem dreift geta sprengjum í allt að 36 metra fjarlægð. Jarðsprengjur sem ætlaðar eru til að skaða fólk byggjast ýmist á því að valda skaða með höggi eða með því að dreifa aðskotahlutum í líkama fórnarlambsins.

Þingmannanefnd Norður-Atlantshafsráðsins hefur gert heilmikið til að vekja athygli á þessu vandamáli eins og ég vitnaði til í upphafi míns máls. Í skýrslu sem ráðið sendi frá sér um málið á árinu 1995 segir hvernig þeir þingmenn sem málið skoðuðu á vegum Norður-Atlantshafsráðsins sáu fyrir sér hernaðarlega þýðingu jarðsprengna og með leyfi forseta, ætla ég að lesa það í lauslegri þýðingu minni. Þar segir svo:

,,Herfræðin er tiltölulega einföld: hermaður sem misst hefur fætur er mun meiri byrði sjálfum sér og félögum sínum en lík. Það þarf tvo til að grafa fallinn félaga en fjóra menn til að flytja mann af vígvelli til læknismeðferðar. Því að drepa þegar unnt er að limlesta og gera með því meiri óleik?``

Sá óhugnaður sem felst í slíkri hugsun hlýtur að vekja viðbjóð meðal siðmenntaðra manna og það er næsta erfitt að skilja að þeir sem þannig hugsa lifi og hrærist undir sömu sól og almennir borgarar. Um samvisku þeirra spyr enginn enda misjafnt hve það fyrirbæri, samviskan, leggst þungt á fólk.

En hvað sem allri herfræði viðkemur er engu að síður ljóst að það heyrir til undantekninga að herir hreinsi upp eftir sig jarðsprengjur þegar átökum lýkur og því eru það almennir borgarar sem oftast verða fyrir þeirri ógæfu að stíga á sprengjur sem komið hefur verið fyrir í hernaðarlegum tilgangi.

Í greinargerð sem fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Boutros Boutros Ghali, flutti á 49. þingi samtakanna varðandi aðstoð við að hreinsa upp jarðsprengjur kemur fram að lágmarkskostnaður við slíka hreinsun sé áætlaður 33 milljarðar dollara í heiminum öllum eða um 2.211 milljarðar ísl. kr. Á árinu 1993, sem eru síðustu tölur sem ég hef getað aflað um þetta efni, var einungis varið 70 milljónum dollara í heiminum í heild til að hreinsa upp 100.000 jarðsprengjur. Þetta svarar til þess að meðaltalskostnaður við að hreinsa upp hverja einstaka sprengju sé um 47.000--50.000 ísl. kr. Talið er að sá mannafli sem tiltækur er í heiminum með þekkingu á að hreinsa upp jarðsprengjur ráði við að tvöfalda það magn af sprengjum sem árlega er gert óvirkt ef fjármagn væri á annað borð fyrir hendi. Það virðist þó langt í að því marki verði náð þar sem mjög takmörkuðum fjármunum er varið til slíkra starfa á vegum alþjóðasamtaka og ríkisstjórna. Er ljóst að gera verður verulegt átak í að afla fjármuna til þessara verka ef merkjanlegur árangur á að nást.

Frú Emma Bonino, sem fer með mannúðarmál ásamt sjávarútvegsmálum hjá Evrópusambandinu, hefur sett fram þá hugmynd að útflytjendum og framleiðendum jarðsprengna verði gert að greiða skatt til að standa undir hreinsun á svæðum þar sem sprengjum hefur verið dreift. Hugmynd frú Bonino er í sjálfu sér allrar athygli verð og yrði án efa til að fækka þeim framleiðendum sem gefa sig að framleiðslu jarðsprengna í ágóðaskyni, hvort heldur er á Norðurlöndum eða annars staðar í hinum vestræna heimi. En mér hugnast sú hugmynd engu að síður ekki því að í tillögunni felst, að mínu mati, viss friðþæging. Með öðrum orðum þá sýnist mér að litið verði fram hjá því að verið sé að framleiða þessi tól svo fremi að viðkomandi borgi fyrir. Að taka tillit til þeirra andlegu og líkamlegu angistar og kvalar sem jarðsprengjur valda vítt um heiminn sýnist mér ekki rúmast í slíkri tillögu. Í henni felst því engin lausn að mínu mati. Hin leiðin og sú sem hér er lagt til að farin verði er einfaldari í framkvæmd því hún byggir á alþjóðlegu banni við notkun og framleiðslu slíks varnings.

Rétt er í þessu sambandi að vekja athygli á því að jarðsprengjur eru ekki bannaðar í dag samkvæmt alþjóðalögum þó slík lög banni notkun á tilteknum vopnum og baráttuaðferðum sem talin eru valda ómældum þjáningum. Í ljósi þess óhugnaðar sem þessar sprengjur valda og ég hef rakið hér í framsögu minni, þá er mér óskiljanlegt að jarðsprengjur séu ekki í alþjóðalögum flokkaðar sem ómannúðleg vopn.

Herra forseti. Mér er ljóst að hér er um að ræða afar ógeðfellt mál sem margir telja vafalítið að ekki snerti Íslendinga beint. Mun svo vera um fleiri mál sem við höfum þó beitt okkur í af nokkurri eftirfylgni. Sem íbúi á þessari jarðarkringlu sem hýsir okkur um sinn þá lít ég hins vegar svo á að tilvist þessa ósóma varði okkur öll, Íslendinga sem aðra og að okkur beri siðferðileg skylda til að gera það sem í okkar valdi stendur til að ósóminn verði upprættur. Mér er vel ljóst að íslenskt lóð verður seint þungt í alþjóðlegri umræðu um þetta mál. Með samþykkt þeirrar þáltill. sem ég hef hér talað fyrir mundi Alþingi hins vegar leggja sín lóð á vogarskálarnar til að knýja á um að vandamálið verði tekið fyrir og rætt á vettvangi alþjóðlegrar samvinnu.