Bann við framleiðslu á jarðsprengjum

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 18:05:34 (3235)

1997-02-06 18:05:34# 121. lþ. 64.12 fundur 267. mál: #A bann við framleiðslu á jarðsprengjum# þál., Flm. GMS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[18:05]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. Steingrímu J. Sigfússyni og hæstv. utanrrh., Halldóri Ásgrímssyni, fyrir jákvæð orð sem þeir létu falla um þessa þáltill.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon setti fram athyglisverða hugmynd um að komið væri á skýrri alþjóðlegri löggjöf um vopnaviðskipti og upplýsingastreymi í kringum það. Ég held að það væri mjög til bóta, þó ég sé nú kannski ekki trúaður á að upplýsingastreymið yrði mjög skýrt, en alla vega er til bóta að löggjöf væri til staðar um þessi viðskipti þannig að þau komi uppi á yfirborðið.

Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir það sem hann sagði um aðstoð íslenskra stjórnvalda við fórnarlömb stríðsins í Bosníu og þær 100 millj. kr. sem íslensk stjórnvöld ætla að verja þar til heilbrigðismála. Ég held að það sé töluvert hægt að gera fyrir það fé fyrir þá sem hafa orðið fórnarlömb jarðsprengna ekki síst í ljósi þess að íslenskt fyrirtæki, Össur hf., hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu fyrir að eiga frumkvæði að því að búa til stoðtæki, hjálpartæki sem mjög geta hjálpað því ólánsama fólki sem hefur orðið fyrir því að stíga á jarðsprengjur.