Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 16:07:22 (3238)

1997-02-10 16:07:22# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:07]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð sem lagt er fyrir Alþingi á þskj. 337. Frv. er samið af nefnd ráðuneyta sem skipuð var samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar til að vinna að samræmingu aðgerða vegna áfengis- og fíkniefnavarna.

Nefndin undirbjó stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki sem samþykkt var í ríkisstjórn hinn 3. desember sl. Hún skilaði samhliða frv. því sem hér er lagt fram. Hvort tveggja, stefnumörkun í fíkni-, áfengis- og tóbaksvörnum og frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð ber merki aukinnar áherslu stjórnvalda á áfengis- og vímuefnavarnir auk þess sem fjármagn til þessa málaflokks hefur aukist verulega á síðustu tveim áurum.

Neysla áfengis og annarra vímuefna, sérstaklega meðal unglinga, og þau víðtæku vandamál sem tengjast slíkri neyslu hafa verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Dæmi eru sögð af hræðilegum atburðum og mannlegri niðurlægingu sem hin ógæfusömu ungmenni lenda í. Spurt er hvar okkur hafi mistekist og hvar megi bera betur.

Svarið við því er sjálfsagt margþætt en megináherslan sem ríkisstjórnin hefur markað, m.a. með auknu fjármagni, er að styrkja og efla áfengis-, tóbaks- og vímuefnavarnir sérstaklega meðal barna og ungmenna og birtist það skýrt í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki sem er prentuð sem fskj. með frv. Slíkar forvarnir geta ekki verið sérstakt verkefni stjórnvalda einna. Það þarf meira til. Sérstaklega vil ég benda á hlutverk foreldra, áhugamanna og félagasamtaka sem stöðugt vinna mikið starf í beinum vímuefnavörnum og hafa náð verulegum árangri í að breyta hugarfari og gera börnum og ungmennum grein fyrir hættunni sem fylgir neyslu áfengis og annarra vímuefna og gera almenning ábyrgari en áður.

Mjög ánægjulegar niðurstöður bárust fyrir skömmu úr könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir áfengisvarnaráð og fagna ég því sérstaklega að árið 1996 virðast unglingar byrja mun seinna að neyta áfengis en 1994. Mun fleiri neyta alls ekki áfengis. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þeirrar staðreyndar að þeir sem hefja áfengisneyslu ungir neyta í flestum tilvikum meira áfengis en aðrir og ekki síður að rannsóknir hafa sýnt fram á að unglingar sem byrja áfengisneyslu ungir eru í mun meiri hættu á að verða fyrir misnotkun heldur en sá er byrjar seint að neyta áfengis. Því er mjög mikilvægt að vinna að því með öllum mögulegum aðferðum að koma í veg fyrir neyslu unglinga á áfengi og a.m.k. að seinka upphafi neyslu eins og mögulegt er.

Í frv. því sem hér er mælt fyrir er kveðið á um stofnun sérstaks áfengis- og vímuvarnaráðs í þeim tilgangi að efla og styrkja varnirnar með sérstakri áherslu á börn og ungmenni og sporna við afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna. Ég tel mjög mikilvægt að tengja þannig baráttuna gegn neyslu ungmenna á áfengi og baráttu gegn neyslu annarra vímuefna, enda eru markhóparnir svipaðir að því er varðar forvarnir og sýnt hefur verið fram á að sterk tengsl eru milli neyslu áfengis og byrjunar á neyslu annarra vímuefna.

Með frv. þessu er gert ráð fyrir að starfsemi áfengisvarnaráðs verði lögð niður og hinu nýja ráði falin þau verkefni sem það hefur hingað til annast ásamt fíkniefnavörnum. Markmið er að setja á stofn sérstaka forvarnamiðstöð til að samhæfa ýmsa þætti forvarnastarfs sem unnið er að innan ráðuneytis, svo sem varnir gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna, tóbaksvarnir, heilsueflingu, manneldismál og sértækari verkefni, svo sem tannvernd, kynsjúkdóma og jafnvel fleiri þætti.

Þegar forvarnamiðstöð hefur tekið til starfa mun áfengisvarnaráð í núverandi mynd hætta störfum en þó eigi síðar en við næstu alþingiskosningar. Með þessu tel ég tryggt að reynsla sú sem er innan áfengisvarnaráðs nýtist áfram inn í hið nýja áfengis- og vímuvarnaráð og nauðsynleg samfella sé tryggð í starfseminni. Gert er ráð fyrir að starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs verði sjálfstæð en geti síðan fallið inn í væntanlega forvarnamiðstöð eins og áður segir, en áfengis- og vímuefnaráð verði þá til faglegrar ráðgjafar um verkefni þau sem undir ráðið falla samkvæmt frv.

Makmiðið með stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs er að uppræta fíkniefnaneyslu og draga stórlega úr áfengisneyslu með öllum mögulegum aðferðum og samstilltu átaki allra sem vinna að áfengis- og vímuefnavörnum. Þá er ráðinu sérstalega ætlað að beita sér fyrir samræmingu og samvinnu þeirra sem vinna að forvörnum.

Um verkefni ráðsins er fjallað í 2. gr. frv. en það mótast af því að ráðinu er ekki ætlað að yfirtaka verkefni annarra aðila sem í dag eru að vinna að forvörnum heldur beita sér fyrir aukinni samvinnu og samhæfingu þeirra aðila sem vinna að þeim, jafnframt því að hafa frumkvæði og tryggja virkt og öflugt forvarnastarf gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Samkvæmt 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að í ráðinu sitji fulltrúar sjö ráðherra auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga undir forustu fulltrúa heilbrrh. Þannig er reynt að tryggja að öll ráðuneyti sem áfengis- og vímuefnavarnir falla að einhverju leyti undir tilnefni fulltrúa til setu í ráðinu auk fulltrúa sveitarfélaganna sem hafa veigamiklu hlutverki að gegna í vímuefnavörnum.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir að ráðið reki skrifstofu þar sem starfi sérhæft starfslið sem sjái um framkvæmd ákvarðana sem áfengis- og vímuvarnaráð tekur um þau víðtæku verkefni sem því eru falin. Þá er gert ráð fyrir að dagleg starfsemi ráðsins verði hluti af sérstakri forvarnamiðstöð þegar hún kemst á laggirnar eins og áður er vikið að.

Árlegt ráðstöfunarfé ráðsins til að sinna verkefnum verður af þrennum toga. Það er Forvarnasjóður, samkvæmt lögum um gjald af áfengi, viðbótarfjárveitingar sem Alþingi kann að ákveða með fjárlögum hverju sinni og framlög annarra aðila, svo sem fyrirtækja sem vilja leggja vímuvörnum lið.

Í 8. gr. frv. er gildistökuákvæði og ég vil leyfa mér að beina því til hv. heilbr.- og trmn. sem væntanlega fær frv. til meðferðar að gildistaka frv. verði miðuð við 1. júlí nk.

Í lokin vil ég, virðulegi forseti, benda á ákvæði til bráðabirgða, þar sem fjallað er um hvernig staðið verði að breytingum á núverandi áfengisvarnaráði þannig að það verði lagt niður eigi síðar en við næstu áramót eins og ég vék að í inngangi ræðu minnar.

Virðulegi forseti. Ég tel að með frv. þessu sé lagður fram góður rammi að starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs sem reynsla á eftir að fylla út í og því ekki ástæða til að hafa lagatextann mjög ítarlegan. Þetta frv. er liður í framkvæmd ríkisstjórnarinnar á stefnu sinni í vímuefnamálum og mikilvægt tæki til samræmingar og samhæfingar á þessu mikilvæga sviði. Ég vænti þess að um málið muni ríkja sátt á Alþingi og samþykkt frv. í fyllingu tímans verði heillaspor í baráttunni gegn þeim mikla vágesti sem neysla vímuefna og ofnotkun áfengis er í okkar þjóðfélagi.

Að lokinni þessari umræðu geri ég það að tillögu minni, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til meðferðar í heilbr.- og trmn.