Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 16:24:54 (3245)

1997-02-10 16:24:54# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ég mun styðja heilbrrh. í allri viðleitni til þess að uppræta fíkniefnaneyslu ungmenna og að draga úr áfengisneyslu ungmenna og mun leggja áherslu á það svo sem ég get við mína félaga og samstarfsaðila í þingflokknum. Að mínu mati er þetta eitthvert mikilvægasta málið í þjóðfélaginu nú. Þetta er eitt stærsta fjölskyldumál sem um getur og þegar ungt fólk verður vímuefnum eða alvarlegri áfengisneyslu að bráð þá er það eitthvert mesta heimilisböl sem yfir eina fjölskyldu getur dunið. Ég geri mér grein fyrir því að um þetta erum við öll sammála. Við höfum oft rætt þessi mál en við áttum hér sérstaka umræðu fyrir ári þegar við leituðumst við að ræða mál þvert á stjórn og stjórnarandstöðu til þess að sýna vilja okkar til þess saman að takast á við vandamál sem er of stórt til þess að skipta því í stjórnarmál og stjórnarandstöðugagnrýni. Þá kom það fram að stjórnarandstaðan hefði vilja til þess að vinna með stjórnarflokkunum að þessum málum, hefði vilja til að eiga fundi með því fólki sem stjórnarflokkarnir voru þá að skipa til verka til að taka á þessum málum. Og eiginlega það eina sem ég gæti sett út á þetta ágæta mál sem hér kemur fram er að ráðherra skuli ekki hafa freistað þess að nýta sér þann góða vilja sem hefur komið fram hjá stjórnarandstöðu til þess að eiga þverpólitískt samstarf um vímuefnavarnirnar og til hvaða ráða skuli grípa til þess að afstýra þeirri vá sem okkur öllum finnst svo óhugnanleg.

Að þessum orðum sögðum, virðulegi forseti, er alveg ljóst að ég styð þetta frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð. Mig langar hins vegar að fara um það nokkrum orðum og mig langar til þess að benda á í hverju mér finnst það ábótavant. Því ef það er hægt að gagnrýna þetta mál að einhverju leyti þá er það fyrir þær sakir að hér er ekki að koma fram frá ríkisstjórn samræmt átak, þ.e. ekki eitt frv. sem tekur á forvörnum hjá fleiri en einu ráðuneyti og þess vegna vitum við ekki hvernig tekið verður á ýmsum málum sem heyra undir önnur ráðuneyti.

Ef ég leyfi mér, virðulegi forseti, að víkja hér örlítið að fskj. II þar sem okkur birtist og við fáum í raun og veru í fyrsta sinn til kynningar stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum. Ég vek reyndar athygli á því að sú stefna hefur fengið umfjöllun í fjölmiðlum og við höfum verið að grípa umfjöllun fjölmiðlanna um þetta mál. En að mörgu leyti hefði mér fundist vera bragur að því fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana í framhaldi af því sem áður hefur verið rætt hér, að ríkisstjórnin hefði gefið sér tækifæri til svona hálftíma utandagskrárumræðu að eigin frumkvæði til þess að kynna okkur sem hér störfum þá stefnu sem hún er að setja fram og kalla eftir stuðningi okkar við. En gott og vel, sú stefna kemur fram hér í fskj. II og þar er sagt að ríkisstjórnin telji neyslu barna og ungmenna á fíkniefnum, áfengi og tóbaki vera alvarlegt vandamál sem bregðast þurfi við. Að sjálfsögðu erum við sammála því. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að beita sér fyrir því að ráðuneyti og stofnanir, löggæsla og tollgæsla í samvinnu við sveitarfélög, foreldrafélög, félagasamtök og aðra taki höndum saman og samhæfi viðbrögð, aðgerðir og samstarf með það fyrir augum að uppræta fíkniefnaneyslu barna og ungmenna og draga stórlega úr áfengis- og tóbaksnotkun þeirra. Þetta er markmið og viljayfirlýsing sem er vel orðuð og sem ég get tekið undir heils hugar.

[16:30]

Fram til ársins 2000 verður lögð áhersla á að efla forvarnir, að hefta aðgengi barna og ungmenna að fíkniefnum, að auka öryggi almennings varðandi fíkniefnatengd brot, að efla andstöðu í þjóðfélaginu gegn notkun barna og ungmenna á fíkniefnum, áfengi og tóbaki og að efla meðferðarúrræði fyrir ungmenni. Síðan á hvert ráðuneyti að gera framkvæmdaáætlun til að útfæra stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað það sem við höfum áhuga á að fylgjast með. Það sem skiptir máli er hvernig ríkisstjórninni mun ganga og hversu alvarlega hún tekur þessa stefnumörkun og hvernig framkvæmdaáætlunin mun birtast okkur við fjárlagagerðina á komandi hausti vegna þess að þar fáum við að sjá hvort hugur fylgir máli.

Ef við lítum nú á þá fimm punkta sem hér birtast; að efla forvarnir, að hefta aðgengi, að auka öryggi, að efla andstöðu og efla meðferðarúrræði, þá hefur eins og í öðrum aldurshópum best verið gert í meðferðarúrræðum. Forvarnaúrræðum hefur verið mjög ábótavant og fíkniefnalögreglu hefur allt að því verið haldið í skefjum í verkum sínum vegna þess að það hefur ekki mátt veita henni forgang í yfirvinnugreiðslum og í fjármagni til þess að hún gæti afstýrt því að efni færu á götuna. Því nefni ég þetta að ég hef oft setið á fundum með þessum aðilum og hlustað á þá lýsa því hvernig þeir hafa vitað af því að efni hafa verið að koma að utan, þeir hafa haft grunsemdir um hvert efnið færi og hverjir mundu koma því á götuna, þeir hafa e.t.v. verið búnir að sitja yfir þessu máli í heila viku, og þá koma skilaboðin: Það eru ekki til meiri peningar, stoppa hér. Tveim dögum síðar er efnið komið á götuna út á meðal unglinga og þeir atburðir gerast sem vekja skelfingu okkar og kalla á utandagskrárumræður hér. Þess vegna mun þetta skipta mjög miklu máli.

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess, af því að mér finnst þessu frv. að sumu leyti vera ábótavant, að þingflokkur Alþfl. hefur allt frá 1989 og 1990 flutt þingsályktunartillögur um varnir gegn vímuefnum, og margar þeirra eru nú að komast endanlega fram í tillögum. Ein þeirra var reyndar um staðfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og skynvilluefni. Þá, árið 1990, fór fram vinna við að breyta þeim lögum sem þurfti. Það var tvíþætt. Það voru ýmsir lagabálkar en jafnframt peningaþvætti og annað sem þurfti að breyast, og að uppræta mætti ávinning eða ágóða af fíkniefnasölu. Lagaákvæði um þetta hafa ekki verið til hjá okkur. Þess vegna hefur dómsvaldi og lögreglu verið skorður settar í vinnu sinni hvað varðar þessi mál.

Umræðan um þessi mál hefur verið afar góð hverju sinni. Þegar Alþfl. var í ríkisstjórn og Sighvatur Björgvinsson var heilbrrh. unnu stjórnarflokkarnir mjög gott og ítarlegt frv. sem tók til margra ráðuneyta. Það er kannski þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Og ég hlýt að koma að því hver vandinn er við lagasetningu og að ná víðtækri samstöðu um að taka á málum. Þá var unnið þannig að stórar nefndir komu að vinnslu frv. og að lokum var haldin um 100 manna ráðstefna í Borgartúni þar sem sérfræðingar á mörgum sviðum komu að og gáfu ábendingar. Þetta frv. komst inn á borð þingmanna. Það komst því miður aldrei lengra. Vegna hvers? Ekki vegna þess að stjórnarflokkar vildu ekki taka á málinu, ekki vegna þess að það væri víðtækur ágreiningur um einstök atriði frv., nei, vegna þess að frv. tók til þátta á heilbrigðissviði, það tók til þátta á dóms- og löggæslusviði, það tók til þátta á menntamálasviði og það tók til þátta á félagsmálasviði. Svo mikið höfum við þingmenn sem hér sitjum lært að það þarf ekki að koma okkur á óvart að slíkt frv. gat alls ekki svo mikið sem komist til nefndar vegna þess að hver og einn verður að eiga sitt forræði yfir málaflokknum.

Fyrir mér er þetta stórmál og þess vegna hvet ég heilbrrh. til þess að fylgja því mjög eftir að félagar hennar í ríkisstjórn stígi sín skref og gangi til verka á sama hátt. Dómsmrh. sem hér birtist í dyrum hefur verið að taka á málum á þessum árum frá 1990. Á borðum þingmanna liggur nál., sem reyndar hefur ekki verið afgreitt, en kemur væntanlega fyrir þingið á morgun. Það er nál. um það sem ég var að nefna, frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum vegna samnings Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og samnings um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum. Að sjálfsögðu standa allir nefndarmenn að þessu nál. Hér hefur farið fram margra ára vinna við lög og það má vera að eitthvað sé eftir til að hægt sé að staðfesta þennan samning sem kallað hefur verið eftir að minnsta kosti á hverju þingi síðan 1990.

Virðulegi forseti. Það eru aðrir hlutir sem skortir enn þá og ekki er tekið á en mjög mikilvægt er að skoða og ég beini til heilbrrh. Ráðherrann leggur til í frv. sínu að skipa vímuvarnaráð og tilgreinir verkefni þess. Fyrsta spurning mín til ráðherrans er þessi: Í 5. lið er talað um að stuðla að útgáfu fræðslugagna um áfengis- og vímuvarnir og að annast gagnasöfnun. Hvar á að nota þetta fræðsluefni? Spurningin er réttmæt vegna þess að inn á borð okkar hefur ekkert komið um að menntmrh. sé á sama tíma að taka ákvörðun um að auka skuli mjög fræðslu í grunnskólum landsins og að í þeim skuli vera til fræðsluefni, því að það fræðsluefni sem er notað er Lions Quest, unnið af áhugamönnum Lions-hreyfingarinnar, stutt af menntmrn., en mjög er undir hælinn lagt hversu grunnskólar nýta það efni og hve mikla fræðslu þeir veita. Í því frv. sem ég vísaði til hér áður var lagt til að fræðsla í grunnskólum mundi hefjast í öðrum bekk samkvæmt námskrá um vímuefnavarnir í grunnskólum. Þar er líka lagt til að nemendur skóla sem veita kennaramenntun, Fósturskólans, Lögregluskólans, Fangavarðaskólans og slíkra skóla skuli fá ítarlega og skipulagða undirstöðumenntun í áfengis- og vímuefnafræðum. Einnig er lagt til að félagsmálanefndir sveitarfélaganna sinni áfengis- og vímuvörnum skipulega og lagt til að þær ásamt heilsugæslustöðvum reyni að leita uppi þau börn og ungmenni sem eiga við vandamál að stríða.

Virðulegi forseti. Ég bið heilbrrh. einmitt að leggja eyrun við þessu atriði vegna þess að við fjárlagagerðina fyrir jól lagði þingflokkur jafnaðarmanna til að veitt yrði ákveðið fjármagn til samvinnu við heilsugæslustöðvarnar einmitt til slíks leitarstarfs. Ég hlýt að koma hér á framfæri niðurstöðum sérfræðinga sem ég hlustaði á þegar ég var stödd á þingi Sameinuðu þjóðanna í haust. Þá var málþing í höfuðstöðvunum um fíkniefnavarnir og þar voru mættir erlendir gestir sem hafa árum saman verið að vinna með vímuefnavarnir í mörgum löndum. Þeir voru með einn meginboðskap; það þarf að tryggja þessa hluti alla. Fræðsluna, menntakerfið, félagslega þáttinn, heilbrigðisþáttinn, en það næst ekki árangur nema ríkisvaldið taki höndum saman við sveitarfélögin og hjálpi þeim að beita sér í nærverkefnum heima í nágrenni fjölskyldnanna. Fyrir mér var þetta merkilegur boðskapur vegna þess að hann var afdráttarlaus og þetta var fólk sem var búið að taka á málum mjög víða. Það var mjög fróðlegt að hlusta á þau mál.

Virðulegi forseti. Ég bið hæstv. heilbrrh. að beita sér fyrir því í ríkisstjórn við félaga sína, menntmrh. og félmrh., að tekið verði á þessum þáttum og að markvisst verði gengið til verks undir þeim glæsilegu markmiðum sem birtast í fylgiskjalinu og sem ég tek undir.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig að nefna eitt varðandi verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs. Í frv. góða sem ég hef verið að vísa til í umfjöllun minni hér fékk áfengis- og vímuvarnaráðið enn eitt verkefni sem hins vegar er ekki talið upp í frv. heilbrrh. Það er að vera ráðgefandi fyrir ríkisstjórnina varðandi verðlagningu á áfengi. Þegar litið er til þess hvaða umræða hefur átt sér stað að undanförnu út af tillögum stjórnar ÁTVR, m.a. hér í þingsal, þá hlýtur að vera mjög mikilvægt hvernig heilbrrh. og hugsanlega áfengis- og vímuvarnaráðið eiga að koma að ákvörðunum í ráðuneyti fjmrh., vegna þess að þar er í raun og veru hægt að breyta þeim forvarnamarkmiðum sem heilbrrh. hugsanlega hefur á hverjum tíma eins og hendi sé veifað með stjórnvaldsákvörðunum. Því hlýtur heilbrrh. að vilja vera með trygga stöðu til að geta haft áhrif á þau mál, m.a. útsölustaði áfengis. Reyndar var lagt til í frv. góða sem ég hef verið að vísa til að ÁTVR hefði ein heimild til innflutnings, dreifingar og verðlagningar. Ein spurning enn þá til ráðherrans varðandi áfengis- og vímuvarnaráðið: Hvað verður úti í héruðunum? Þar hafa áfengisvarnanefndir starfað. Þær hafa ekki haft sama hlutverk og skilgreint er hér fyrir áfengis- og vímuvarnaráðið. Hvernig ætlar ráðherrann að stuðla að breytingum og hinni dreifðu umfjöllun um vandamálið sem hlýtur að koma til úti í sveitarfélögunum eða úti í héruðunum? Hyggst hún í framhaldi byggja upp áfengis- og vímuefnanefndir í læknishéruðum eða í bæjunum? Hvernig ætlar hún að taka á því að þessu góða markmiði sé fylgt eftir alls staðar úti um land og að tryggt sé að unnt verði að fá yfirsýn yfir þetta stóra mál sem vímuefnavandinn er og auknar vímuefnavarnir?

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu hér og ég fagna þessu frv. En ég legg áherslu á að ráðherrann taki til skoðunar þau atriði sem ég hef bent á og að þetta sé bara fyrsta skref af mörgum sem ríkisstjórnin ætlar að kynna okkur.