Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 16:43:43 (3246)

1997-02-10 16:43:43# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:43]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að fá að segja nokkur orð í tilefni af ágætri og jákvæðri ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem ég hef átt sérstaklega góða samvinnu við. Ég veit að hún og liðsmenn hennar verða öflugir stuðningsmenn og starfsmenn í því að vinna þetta frv. þannig að sem flestir verði sáttir við það. Ég vonast til að sú samvinna verði góð. Ég vonast ekki bara til þess, ég veit hún verður góð.

Það er ein spurning sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lagði fram sem stakk mig svolítið vegna þess að ég hef átt þátt í því að ræða um forvarnir frá ýmsum hliðum en hún er um fræðslugögnin sem við ætlum að fara að gefa út. Ég minntist á það áðan að við værum að fara af stað með eina stofnun til viðbótar. Ég er alveg sammála því að ef þessi stofnun bjargar lífi einhvers eins Íslendings, þá getum við verið ánægð. En eins og ég sagði tel ég að hægt væri að nýta þetta á sem hagkvæmastan hátt því áfengi og vímuefni tengjast nánast hverju sem er, þau tengjast vörnum, slysavörnum og fræðslumálum. Þessi fræðslugögn væri því hægt að sameina, með frjóu hugarfari að sjálfsögðu, þannig að aðilar gætu nýtt gögnin saman og búið til eitt stórt safn, ef svo má segja, sem yrði lesið af áhuga af því fólki, sérstaklega því unga fólki sem við erum að reyna að höfða til. En þetta þarf að gera með mikilli nákvæmni.

Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Ég er sammála því að gæta þurfi verðlagningar á áfengi. En eins og ég hef sagt í ræðum mínum áður er ég hlynnt því að gefa smásöluverslun á áfengi frjálsari en (Forseti hringir.) hún er nú. En ég geri mér grein fyrir því að standa þarf ákaflega vel að þessu máli til þess að allir þeir sem hafa unnið í þessum málaflokki muni geta komið þar að og að við getum nýtt þekkingu þeirra og hæfileika.