Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 16:46:51 (3247)

1997-02-10 16:46:51# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:46]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum góð orð og er alveg sannfærð um að ég get lofað góðum stuðningi bæði mín og Össurar Skarphéðinssonar sem mun fá þetta mál til meðhöndlunar í nefndinni. Hann tekur eflaust til máls á eftir.

Ég ætla að nefna vegna orða þingmannsins að ég er alveg sammála því að mörg samtök hafa oft verið að sækja í þá sjóði sem hafa verið með framlög til forvarna og það er ekki alltaf þannig að þrír bæklingar um sama efni séu betri en einn góður. Kannski er verið að veita fjármagn í þrjá sem hefði betur farið í annað. Ég er sammála því að gott sé að vera með gott fræðsluefni til forvarna til að afhenda á ýmsum stöðum, en það sem verður að koma og skortir hér er að kennsluefni komi inn í skólana á vegum menntmrn., að fræðsla verði veitt af fullri alvöru um þessi efni og að kenna í Kennaraháskólanum hvernig með námsefnið skuli fara þannig að kennarar verði meðvitaðir um hvernig þeir eiga að halda á málum, að þeir kunni að kenna efnið, --- einstaklingar hafa þurft að taka upp hjá sjálfum sér að fara á námskeið vegna Lions Quest-efnisins --- að þeir þekki einkennin þegar nemandi er í vanda og geti brugðist við. Þetta eru grundvallaratriði. Þau er ekki að finna í þessu frv. enda ekki að furða vegna þess að þetta er frv. sem snýr eingöngu að heilbrrh. Hitt verður að koma til.