Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 16:48:33 (3248)

1997-02-10 16:48:33# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:48]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað fagna því að þetta frv. um stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs er komið fram þó svo að mér sýnist á öllu að töluvert vanti á að sú grunnvinna sem þyrfti að vinna áður en við færum að fjalla af alvöru um verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs hafi verið unnin. Ég vænti þess að hv. heilbr.- trn. muni taka frv. og skoða það og bæta inn í ýmsum ábendingum sem þegar hafa komið fram. Það sem stakk mig hins vegar í máli hæstv. ráðherra var að þegar fjallað var um 3. gr. þar sem segir hvernig skipan áfengis- og vímuvarnaráðs skuli vera, þar sem líklega einir sjö hæstv. ráðherrar eiga fulltrúa í ráðinu. Þá sagði hæstv. ráðherra það nauðsynlegt að hafa þetta svona til þess að efla ríkisstjórnina sjálfa, að fá hana til að koma fram sem eina heild, ,,að efla ríkisstjórnina sem heild í forvarnamálum``, sagði hæstv. ráðherra. Það er vissulega þörf á og þó fyrr hefði verið að efla hæstv. ríkisstjórn sem eina heild í forvarnamálum og ýmsum þeim málum sem lúta að meðferðarmálum, refsivist og fleiru sem upp er talið í þessu ágæta frv. Hins vegar hefði ég talið að þörfin væri meiri, miðað við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið, að fá inn þá þekkingu sem er á þessum málum nú þegar hjá ýmsum samtökum, félagasamtökum, sem hafa starfað að forvörnum árum saman. Og með því að setja fulltrúa þessara ágætu félagasamtaka og aðila sem hafa starfað að forvarnamálum þá hefði það hugsanlega auðveldað þá vinnu að samræma aðgerðir í forvarnamálum umfram það sem er í dag.

Mér leikur líka forvitni á að vita, vegna þess að lögin eiga að taka gildi eigi síðar en 1. janúar 1997, sem nú er liðinn ---- en stefnt er að því að þau taki sem allra fyrst gildi og að þá falli niður starfsemi áfengisvarnaráðs --- hvaða peningar eru til ráðstöfunar það sem eftir er þessa árs. Ef áfengisvarnaráð, sem hefur 9,1 millj. kr. til umráða á þessu ári, hættir störfum 1. júlí má gera ráð fyrir að um það bil helmingnum af þeirri upphæð sem áfengisvarnaráð hafði til ráðstöfunar hafi verið eytt, rúmum 4,5 millj. kr. Mér er líka kunnugt eins og öllum sem skoða fárlög ríkisins og fylgjast með úthlutun úr Forvarnasjóði að þar er búið að úthluta nú þegar stærstum hluta þeirra peninga sem ætlaðir voru til þessarar starfsemi á árinu 1997. Verkefni þessa ráðs hefði ég viljað að væru ekki eingöngu áfengis- og vímuvarnir heldur kæmu tóbaksvarnir þarna undir, enda sýnist mér í greinargerðinni og á fskj. að ekki sé síður ástæða til að taka tóbaksvarnirnar nú þegar inn í þetta starf og samræma aðgerðirnar að öllu leyti hvað varðar forvarnastarfsemi.

Ég vildi fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig eigi að tryggja starfsemi ráðsins út árið og að þær tillögur sem ráðið á að fylgja gangi eftir. Þó þarna sé um að ræða ráð sem fyrst og fremst er til að efla ríkisstjórnina og samkennd hennar í ákveðnum málaflokki þá segir á bls. 11 í í grg. frv. hver framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er í þessu máli og þar segir hvert skuli verða verkefni þessa ráðs sem hér á að stofna til. Þau eru talin upp í 2. gr. en það vantar reyndar útfærslu á þessum verkefnum. En á bls. 11 segir hver markmið ríkisstjórnarinnar eru í þessum málum. Það er talið upp í sex liðum og sagt að verkefni ráðsins sé að fylgja fram þessari stefnu ríkisstjórnarinnar sem á að hrinda í framkvæmd fram til ársins 2000. Þar sýnist mér að um verulegan kostnaðarauka sé að ræða umfram það sem er á fjárlögum ársins 1997. Og þá ekki eingöngu í starfsemi þessa ágæta ráðs --- kannski verður eitthvað eftir í Forvarnasjóði til að ráða starfsfólk og koma verkefnunum í framkvæmd --- heldur sýnist mér að þarna sé um aukin verkefni ýmissa stofnana að ræða sem eru taldar upp í 1. gr. frv.

Síðan kemur áætlun fjmrn. þar sem fjmrn. leggur mat á hvað þessi starfsemi muni kosta í allt. Fjmrn. gerir ráð fyrir að viðbótarkostnaður árlega sé 14--15 millj. kr., þar til viðbótar 2--3 millj. kr. vegna kostnaðar við kaup á tækjum og búnaði og 3,3 millj. kr. vegna biðlauna til starfsmanna áfengisvarnaráðs.

Þarna er eingöngu verið að ræða um starfsemi þessa ráðs og 55 millj. kr. fjárveitingu á árinu. Ef við miðum við að ráðið starfi hálft ár þá er það helmingur þeirrar upphæðar. En Alþingi og þar til gerð stjórn hefur nú þegar úthlutað peningum úr Forvarnasjóði til hinna ýmsu samtaka án nokkurrar samhæfingar starfseminnar þannig að ég býst ekki við, miðað við það sem ég þekki til kostnaðar við rekstur ríkisins, að nokkrir peningar séu eftir í Forvarnasjóði til þess að standa við starfsemina út árið, þó miðað sé við að frv. verði samþykkt óbreytt og þau verkefni sem ríkisstjórnin hefur þegar sett á þetta ágæta ráð eða ætlar sér að setja á það.

Ég hefði líka viljað sjá aukið vægi sveitarfélaga í frv. Það er nú þannig að lög um vernd barna og ungmenna og félagsþjónustu sveitarfélaga leggja miklar skyldur á herðar sveitarfélögum. En öll sveitarfélög, og það vita allir að þau eru mörg, eiga aðeins einn fulltrúa í ráðinu. Að mati hæstv. ráðherra er líklega meiri ástæða til að reyna að koma ríkisstjórninni saman sem einni heild í þessum málum en öllum sveitarfélögum landsins. Þau eiga aðeins að eiga einn fulltrúa í ráðinu.

Ef verkefni ráðsins er tvíþætt, annars vegar að vinna að þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur samþykkt og hins vegar að vera ráðgefandi, langar mig líka til að bæta við einni spurningu til hæstv. ráðherra. Í öllu þessu tali um góðan vilja, sem ég efast ekki um að er til staðar hjá hæstv. ráðherra --- hvort hann finnst hjá þeim öllum sem þarna eiga fulltrúa, það efast ég um miðað við samþykktir og framlög 1997 --- þá vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún hyggst taka sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf inn í heilbrigðiskerfið, því það vita allir sem það vilja vita að stórt vandamál allra þeirra barna og unglinga sem neyta fíkniefna og aðstandenda þeirra er að sárlega vantar ráðgjöf sálfræðinga og félagsráðgjafa, ekki vegna þess að þessar starfsstéttir séu ekki nógu fjölmennar til að taka starfið að sér heldur vegna þess að heilbrigðiskerfið hefur ekki viðurkennt þessa starfsemi sem fullkominn hluta af heilbrigðiskerfinu og tekur þar af leiðandi ekki þátt í greiðslum vegna þessarar þjónustu og tíminn kostar á fjórða þúsund krónur. Ég vildi gjarnan heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hún hefur hugsað sér að efla þessa starfsemi með þátttöku ríkisins, trygginga, í kostnaði við þjónustuna.

Mér finnst líka skrýtið að sjá ekki Barnaverndarstofu með fulltrúa í ráðinu. Vafalaust gæti félmrn. skipað fulltrúa Barnaverndarstofu en eðlilegt þætti mér að það væri sett í frv. Ekki síst finnst mér ástæða til þess að félagasamtök og þeir aðilar sem hafa unnið að þessum þáttum komi að verki og að ekki séu svona margir fulltrúar hæstv. ráðherra. Vegna þess að það vill brenna við að við ráðherraskipti og ríkisstjórnarskipti, sem verða örugglega í næstu kosningum, skipi ráðherrar nýja fulltrúa og að sú reynsla og þekking sem komin er hjá þeim sem skipuðu ráðið fari fyrir lítið við ríkisstjórnarskipti. Ég treysti hins vegar ýmsum félagasamtökum og reyndar undirstofnunum ráðuneyta betur til að halda sínum fulltrúum inni þó ríkisstjórnarskipti yrðu.

[17:00]

Svo ég haldi nú áfram með kostnaðarþáttinn þá verð ég að segja að ég er mjög hissa á þeim tölum sem þarna eru því ef greinargerðin er lesin til enda sést að það á að fara í gífurleg verkefni á sviði heilbrigðismála, dómsmála, félagsmála og menntamála. Þar að auki eru mjög margar stofnanir sem heyra undir þessi ráðuneyti í dag og fara nú þegar með mikilvæg verkefni á sviði forvarnastarfsemi sem hafa ekki fengið peninga til að sinna þeim, samanber heilsugæslustöðvarnar, samanber fangelsismálayfirvöld og samanber þær stofnanir sem nú sinna meðferðarstarfsemi. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er vissulega mjög ánægjulegt að könnun Gallups skuli sýna að unglingar byrji seinna að drekka á síðasta ári en áður, en á sama tíma birtast líka niðurstöður úr skýrslum SÁÁ og þær eru ekki eins bjartar. Þær sýna ekki eins jákvæða þróun. Ég hef átt samtöl við þá sem eru að vinna að meðferðarstarfsemi, og þá fyrst og fremst á vegum sveitarfélaganna og Útideildarinnar í Reykjavík, þar sem starfandi er stofnun eins og Mótorsmiðjan, sem er til fyrirmyndar í allri meðferðar- og forvarnastarfsemi. Útideildin í Reykjavík hefur ekki, eftir því sem ég best veit, fengið úthlutað úr Forvarnasjóði þrátt fyrir umsóknir sínar þangað eftir fjármagni til að styrkja þau verkefni sem þar eru í gangi. En þar er þróunin því miður allt, allt önnur og neytendur fíkniefna hvers konar eru stöðugt yngri eftir því sem þeir segja okkur.

Markmiðin með stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs eru góð og við getum öll tekið undir þau. Ég er sannfærð um að hv. heilbr.- og trn. muni taka þetta til vinsamlegrar skoðunar en jafnframt að skoða þær ábendingar sem hér hafa komið fram og reyna að bæta frv. frá því sem nú er og útvíkka það. Ég vildi gjarnan heyra skýringar hæstv. ráðherra á því hvers vegna tóbaksvarnirnar voru ekki teknar þarna inn nú þegar og ég ítreka að þó vissulega sé þörf á því að efla samstöðu ríkisstjórnarinnar þá hlýtur markmiðið fyrst og fremst að vera það að ná sameiginlega utan um alla þessa starfsemi í landinu. Til þess eru margir betur fallnir en fulltrúar ráðuneyta þótt góðir séu.