Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 17:14:56 (3252)

1997-02-10 17:14:56# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[17:14]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn þurfa ekki að bíða fram í nóvember til að fá úthlutun úr Forvarnasjóði en þessu ráði er ekki ætlað að fá allar þessar 32 millj. til sín síðustu mánuði ársins þannig að menn geta verið rólegir þess vegna. Menn munu fá úthlutun úr sjóðnum.

Annað sem hv. þm. kom inn á varðandi fjármálin, þá vil ég minna á að mikil áhersla hefur verið lögð á það að leggja meira fjármagn til forvarnamála og á þessu ári fær tollgæslan og löggæslan um 65 millj. kr. meira til sinnar starfsemi heldur en áður hefur verið. Forvarnasjóðurinn eins og hefur verið rætt hér hefur verið stórefldur og tóbaksvarnaþátturinn hefur verið margfaldaður þannig að við erum að tala um miklu meiri fjármuni en við höfum nokkurn tímann haft til ráðstöfunar og það er mikilvægt að þetta fjármagn sé vel nýtt.

Hvort nægjanlegt sé að tveir ríkisstjórnarfundir séu í viku hverri og þess vegna þurfi ekki svo margir fulltrúar ráðuneytanna að koma inn í þetta nýja ráð, þá er það þannig að þessi ráðuneyti eru að meira og minna leyti að fjalla um þessi mál daglega. Þetta eru mjög mikilvæg mál og til að leggja áherslu á mikilvægi þeirra og mikilvægi þess að öll þessi ráðuneyti vinni saman og nýti fjármagnið sem best, að það sé um engan tvíverknað að ræða, heldur sé þetta samhæft átak, þá er það rétt að ráðuneytin hafi sína fulltrúa þarna inni og ég er alveg viss um að það á eftir að koma í ljós að við munum nýta fjármagnið miklu betur en við höfum nokkru sinni gert með þessu móti en ég legg mikla áherslu á samvinnu við frjáls félagasamtök.