Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 17:20:40 (3255)

1997-02-10 17:20:40# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[17:20]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta mál er af hinu góða. Hins vegar vakna margar spurningar þegar þetta mál kemur til umræðu og líka leiðir umræðan sjálf kannski af sér fleiri spurningar heldur en þeim sem svarað er. Það er dálítið merkilegt að ekki fyrir löngu lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hversu margir vínveitingastaðir hefðu fengið áminningu fyrir það að veita unglingum undir lögaldri aðgang. Og það er merkilegt, þegar skoðað er það svar sem kemur frá sýslumannsembættum frá öllu landinu, hve þessi tilfelli eru fá. Það er ótrúlegt að sjá þann lista sem hefur borist sem svar frá dómsmrh. við fyrirspurn minni. En þó vekur það athygli að í kjördæmi heilbrrh. eru áminningarnar flestar og, með leyfi forseti, vildi ég aðeins vitna til þess lista sem birtist varðandi áminningar til veitingastaða sem hafa hleypt unglingum undir lögaldri inn í þessi öldurhús.

Það kemur fram t.d. að á Akranesi hefur ein leyfissvipting farið fram og ein sekt, en þar eru leyfishafar tveir. Í Borgarnesi hafa áminningar verið frá 15--20, kemur fram í svari frá embættinu. 15--20 áminningar, engin leyfissvipting, engin sekt en þar eru leyfishafar fjórir. Síðan segir ekki af þessu fyrr en kemur á Ísafjörð. Þar hafa verið þrjár áminningar, engin leyfissvipting, engin sekt og þar eru þrír leyfishafar. Á Húsavík hafa verið sex áminningar en það kemur ekki fram í skýrslunni að þar sé nokkur sem hafi vínveitingaleyfi. Á Eskifirði eru áminningar fimm en þar eru fjórir leyfishafar. Og ekki er í frásögur færandi þegar farið er á fleiri staði fyrr en kemur til Hafnarfjarðar. Þar er talað um að áminningar séu fimm, leyfissvipting ein, engin sekt en það kemur ekki fram hversu margir leyfishafar eru í Hafnarfirði. Í Reykjavík hafa áminningar verið 46, leyfissviptingar tvær, engin sekt en leyfishafar eru 28.

Virðulegi forseti. Þegar þingmenn leggja fyrirspurnir fram til ráðherra og embættis eins og dómsmrn. varðandi þessi mál, þá verð ég að segja að mér finnst svör ráðuneytisins, eins og dómsmrn. í þessu tilfelli, vera mjög léttvæg. Til dæmis að gefa ekki glöggar upplýsingar um það hvernig á málum er haldið þegar svo kemur fram sem hér hefur verið upp talið að í Hafnarfirði, eins og ég tók sem dæmi, hafa verið fimm áminningar, ein leyfissvipting, engin sekt og þar er enginn leyfishafi. Virðulegi forseti. Ég hef ekki lagt í það að skila þessu svari aftur inn til forsætisnefndar og óska frekari skýringa, ég hef bara ekki haft geð í mér til þess. En ég þykist vita að það eru fleiri þingmenn en ég sem hafa fengið svör sem eru á mörkum þess að geta kallast svör. Mér finnst þetta vera mjög alvarlegt mál og full ástæða til að spyrja forsætisnefndina að því hvort ekki sé vel farið yfir þessi gögn til þess að þau séu ekki mjög haldlítil gögn eða allt að því að þau séu vanvirða við hið háa Alþingi hvernig svörum er háttað.

Ef svo er sem hér hefur komið fram að þetta er ekkert vandamál gagnvart ungu fólki, það sækir ekki í öldurhúsin og svo stífir eru þeir leyfishafar sem reka vínveitingastaði, bjórsölustaði eða hvað skal kalla þetta, ef vandinn er ekki meiri en þetta, þá vefst manni tunga um tönn. Hvað er þá verið að gera svona stórt úr þessu máli? Auðvitað vitum við betur. Við vitum að þetta er vandamál. Og til gamans get ég sagt að það er ekki langt síðan ég var á því ágæta þingi Sameinuðu þjóðanna og fór þá á vínveitingastað og bað um ölglas en ég fékk ekki afgreiðslu af því að ég hafði því miður ekki vegabréfið á mér, ég gat ekki sannað aldur minn, enda unglegur mjög svo sem sjá má. En alla vega í henni Ameríku a.m.k. tóku þeir mjög stíft á því að menn skyldu leggja fram sönnun um það hverjir þeir væru og hversu ungir að árum eða gamlir áður en þeir fengju afgreiðslu. Hér hefur þetta því miður verið nokkuð léttvægt og við höfum séð það á veitingahúsunum. Þess vegna er það afar sérkennilegt að fá plagg frá dómsmrn. eins og það sem ég nefndi.

En ef þetta er satt, ef það er tilfellið að það sé ekkert vandamál með veitingahúsin --- ja, ég hef ekki orðið var við það að þeir sem kæmu inn á þessa staði væru beðnir um skilríki. Það er kannski gert og vonandi er það. En málið er alla vega nokkuð víðfeðmt og ég veit að þetta er stórmál og mikið vandamál. Ég vona að þessu áfengis- og vímuvarnaráði verði þannig stakkur sniðinn að það geti sinnt sínum störfum því að ég er sannfærður um að enda þótt þetta svar frá dómsmrn. við fyrirspurn minni sé hjóm eitt, hvorki fugl né fiskur, þá veit ég að vímuvarnaráð, áfengisvarnaráð þarf að taka á þessu máli föstum tökum og það þarf að vera mórölsk breyting á þessu vandamáli, það þarf að vera mórölsk breyting í þá átt að það sé hætt að klappa unglingum, langt innan lögaldurs, ef þau eru ofurölvi á almannafæri. Það þarf að verða mikil breyting hér á, mórölsk breyting og ég vona það að þetta frv. geti leitt til þess. Málinu verður væntanlega vísað til hv. heilbr.- og trn. og þar munum við fá að fjalla um málið, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem þar gegnir formennsku, enda höfum við oft rætt þessi mál áður og vitum um vandann og er vonandi að vel takist til.