Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 17:29:00 (3256)

1997-02-10 17:29:00# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[17:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mig eins og marga aðra þingmenn hlýtur að reka í rogastans að hlusta á lýsingu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar á samskiptum sínum og dómsmrn. Ég skil vel það viðhorf sem hann lætur uppi þegar hann segir að hann hafi ekki geð í sér til þess að fara og tuða í hæstv. dómsmrh. en ég tel að honum beri skylda til þess. Þegar þingmenn fá svör eins og þetta, sem stappar nærri því að vera hreint hneyksli og móðgun við þá af hálfu framkvæmdarvaldsins, þá á það ekki að liggja kyrrt. Nú vill svo til að hv. þm. á sæti í þingflokki með hæstv. dómsmrh. og það eru þess vegna hæg heimatökin fyrir hann að taka þetta mál upp á vettvangi síns eigin þingflokks.

Þetta mál er þeim mun verra sem það er alveg ljóst að í hinu nýja áfengis- og vímuvarnaráði sem við höfum hér til umræðu er lagt til að dómsmrh. hafi fulltrúa. Ráðuneytið virðist ekki sinna þessum málum af verulega miklum áhuga hér eins og kom fram í máli hv. þm. og kannski ætti að fara þá leið að fækka fulltrúum ráðuneytanna eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir lagði til hérna áðan, kannski kippa burt fulltrúa dómsmrn. og setja frekar fleiri fulltrúa annarra, t.d. sveitarfélaga eða frjálsra félagasamtaka.

Að lokum, herra forseti, ég tók eftir því að hv. þm. orðaði það svo að það ætti ekki lengur að klappa unglingum sem væru tekin eða fyndust drukkin. Mér þætti gaman að vita hvað hv. þm. á við. Á hann við að það ætti e.t.v. að taka upp einhvers konar harkalegri viðbrögð eins og vistun eða jafnvel þegnskylduvinnu? Ég er ekki sammála því en mér þætti fróðlegt að heyra viðhorf hv. þm. um þessi efni.