Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 17:30:58 (3257)

1997-02-10 17:30:58# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[17:30]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. kom inn á samskipti mín og dómsmrh. sem samflokksþingmenn. Ég mun auðvitað ganga frekar eftir svari varðandi þetta mál.

Það sem ég átti við með því að klappa ekki unglingum sem væru ofurölvi var einfaldlega þetta, sem nokkuð hefur verið gert af og ég vona að það sé í vaxandi mæli, og það er að lögreglan bjargi þessum ungmennum í sín hús og geri meira í því að kalla til foreldrana til þess að sækja þau. Það er vonandi að það leiði til þess að fólk gái betur að sér.

Hins vegar verð ég að segja það af þessu tilefni að ég hef alltaf átt von í því að með þeirri breytingu sem hefur orðið á vínlöggjöfinni, þ.e. leyfi á sölu áfengs bjórs, mundi vínmenning hér á Íslandi taka breytingum eftir nokkur ár. Flestir þingmenn hafa séð á erlendri grund hvernig vínmenningu er háttað þar. Og ég vona það satt best að segja að sú breyting verði hér. Um það sem hér hefur komið fram um enn meiri opnun og frjálsræði í sölu áfengis að ætla ég ekki að blanda mér í að svo komnu máli.

Ég vona, herra forseti, að hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, taki þetta svar mitt gilt. Það sem ég átti við var einfaldlega að foreldrar kæmu þá meira inn í myndina ef unglingar væru ofurölvi því að það á ekki að vera sjálfsagður hlutur.