Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 19:00:05 (3264)

1997-02-10 19:00:05# 121. lþ. 65.6 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[19:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði nú ekki að svara öllum spurningum hv. þm. á þeim þrem mínútum sem mér voru skammtaðar. En varðandi þau málefni sem hún bar upp í síðari ræðu sinni um réttargeðdeild, þá mun sá hópur sem fjallar um geðverndarmál taka þau sérstaklega fyrir. Við erum að tala um stefnumótun fyrir geðsjúka almennt og þá erum við líka að tala um þá sem þurfa að vera í meðferð á réttargeðdeild. Þessi nefnd er rétt að hefja störf og mér þætti afar slæmt ef menn ætluðu ekki að gefa henni þann tíma sem hún þarf til að ljúka störfum og bíða með réttindi sjúklinga eftir því að hún lyki þeim. Þetta er rammalöggjöf sem er mjög mikilvæg einmitt vegna þess síðasta sem hv. þm. sagði, um mikilvægi þess að sjúklingurinn sé meðvitaður um hver réttur hans er. Og það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að sjúklingurinn verði upplýstur um hver er réttur hans og þá um leið aðstandendur hans.

Varðandi sjúk börn og skóla. Á meðan sjúkt barn dvelur á sjúkrastofnun tekur ríkið að sjálfsögðu allan þann kostnað sem af því hlýst að nemandi fái menntun en sveitarfélögin eru í ríkari mæli að taka yfir skólahald og munu koma enn sterkar inn í það en áður hefur verið vegna þeirra lagabreytinga sem þegar hafa orðið á hinu háa Alþingi.