Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 19:01:57 (3265)

1997-02-10 19:01:57# 121. lþ. 65.6 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[19:01]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. um skólagöngu veikra barna sem dvelja á sjúkrastofnunum segir, með leyfi forseta: ,,Samkvæmt grunnskólalögum er börnum á skólaskyldualdri tryggð menntun og í drögum að reglugerð í tengslum við flutning grunnskólans til sveitarfélaga er gert ráð fyrir að grunnskólinn standi áfram undir slíkri þjónustu fyrir sjúk börn.`` Grunnskólinn er kominn alveg yfir til sveitarfélaga. Það er ekkert hér um bil eða kannski, hann er þar og áfram segir: ,,Ekki virðist að með frumvarpinu sé ætlunin að breyta núverandi fyrirkomulagi.``

Spurning mín er ósköp einfaldlega þessi: Var gert ráð fyrir þessu þegar sveitarfélögin yfirtóku rekstur grunnskólans, er það grunnskólinn sem viðkomandi barn á skólasókn í sem á að standa undir kostnaði með hverju því barni sem fer úr skólaumdæminu á sjúkrahús og var sveitarfélögunum gerð grein fyrir því að þessi kostnaður mundi lenda á þeim?