Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 14:07:06 (3290)

1997-02-11 14:07:06# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., KHG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:07]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er greinilegt að núverandi lagaákvæði um arðgreiðslur eru ekki nógu góð fyrir hv. ríkisstjórn til að tryggja að það að peningar renni til þeirra sem í þá vilja ná. Þess vegna er þetta mál lagt fram til að breyta núgildandi lögum þannig að mönnum takist að ná í peninga sem annars væru ekki á lausu, sem annars mundu fara til þess að lækka raforkuverðið. Þetta vildi ég segja vegna orða hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. En í þessari grein frv. er verið að fjalla um eigendaframlög og það er upplýst að þau eru byggð á afar hæpnum forsendum. Það er verið að reikna eigendunum höfuðstól til eignar sem þeir hafa aldrei lagt fram nema að litlum hluta til. Meginstofninn að þessum höfuðstól er myndaður af orkuverði raforkukaupenda hér innan lands annars vegar og hins vegar af skatti bandarískra borgara í gegnum Marshall-aðstoðina. Og það er alveg fráleitt að Reykjavíkurborg, ríkið og Akureyrarbær fari að hafa vexti af peningum sem þau hafa aldrei lagt fram. Þetta er alveg fráleitt og engin leið að samþykkja þessa tillögu.