Afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 14:21:11 (3298)

1997-02-11 14:21:11# 121. lþ. 66.96 fundur 183#B afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:21]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að við erum engir aðilar að samkomulagi um það að þessi mál verði tekin fyrir með þeim hætti sem hæstv. forseti lýsti. Okkur er hins vegar ljóst að hæstv. forseti ræður fundahöldunum og þannig standa þau mál. Okkur er ljóst að 3. umr. um Landsvirkjun á að hefjast kl. 5 í dag. Það er bersýnilegt að þá umræðu verður að hefja með því að leitað verði afbrigða og við munum ekki styðja þau afbrigði. Stjórnarflokkarnir hafa hér meiri hluta væntanlega og munu þá tryggja það að málið geti komið til 3. umr. Þetta vil ég taka fram til að koma í veg fyrir misskilning.

Í öðru lagi vil ég taka fram að mér er það nokkurt umhugsunarefni að hér var að ljúka 2. umr. og atkvæðagreiðslu um mikilvægt frv. sem hefur verið til meðferðar um skeið og afstaða þingheims byggðist á máli sem er leyniplagg og hefur aldrei sést. Er það ekki í raun og veru mjög sérkennilegt, hæstv. forseti? Vegna þess að í rauninni er það þannig að Alþingi á að fara fram í heyranda hljóði til að þjóðin geti fylgst með því sem gerist, en hér taka menn afstöðu út frá plöggum sem ekki hafa sést á borðum þingmanna. Ég vil beina því til hæstv. forseta og forsn. hvort ekki er nauðsynlegt að þessi vinnubrögð verði skoðuð almennt burt séð frá þessu máli því ég tel að vinnubrögðin áðan brjóti í bága við það grundvallaratriði þingræðisins að kjósendur fái að fylgjast með því á hvaða forsendum þingmenn taka afstöðu til mála.