Afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 14:28:46 (3303)

1997-02-11 14:28:46# 121. lþ. 66.96 fundur 183#B afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun# (um fundarstjórn), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:28]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að ég geri engar athugasemdir við framgang málsins og tímasetningu 3. umr. Ég tel hins vegar ástæðu til að fara nokkrum orðum um það sem hér hefur verið rætt um þ.e. framlagningu þingskjala, með öðrum orðum, starfsemi þessa þings.

Mér brá óneitanlega dálítið í brún þegar langt var liðið á atkvæðagreiðslu við 2. umr. þegar þær upplýsingar bárust af hálfu formanns iðnn., hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, að vissulega lægi þetta frhnál. fyrir og þessu leyndarskjali, sem ekki má tala um fyrr en kannski einhvern tímann á eftir, yrði dreift strax að aflokinni þeirri atkvæðagreiðslu. Sennilega er það komið fram í hliðarsal núna. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvað var það sem kom raunar í veg fyrir að frhnál. gæti legið fyrir 2. umr.? Var það á þvers við þingsköp? Nei. Hvað lá þá eiginlega að baki?

Vegna orða hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur áðan um að þessi mál hafi verið til umfjöllunar í þingflokki jafnaðarmanna. Jú, vissulega, í trúnaði. En þar var þessu plaggi ekki dreift og auðvitað er enginn bragur á því að hér séu menn að greiða atkvæði og jafnvel að skipta um skoðun á grundvelli yfirlýsinga sem má ekki tala um.

Virðulegi forseti. Þetta hlýtur forsn. og æðsta stjórn þingsins að fjalla eilítið um. Er þetta fordæmi sem við ætlum að ganga eftir í framtíðinni? Er þetta svona sem við viljum hafa það? Nei, segi ég. Ég held að við hljótum að draga ákveðinn lærdóm af því að svona göngum við ekki um dyr og ganga. Svona eigum við auðvitað ekki að standa að verki. Flóknara er það nú ekki, virðulegi forseti.