Afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 14:32:38 (3306)

1997-02-11 14:32:38# 121. lþ. 66.96 fundur 183#B afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:32]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil segja alveg eins og er (Gripið fram í.) við hv. 3. þm. Norðurl. v. að ég held að hann þurfi að skoða þessa hluti aðeins betur í sínum huga og rólegar en mér virðist hann vera fær um að gera á þessari stundu. Það sem menn eru að gagnrýna hér er það að verið er að taka ákvörðun um mikilvægt mál á grundvelli upplýsinga sem þjóðin má ekki sjá, sem er leyniskjal. Og það sem ég er að beina til hæstv. forseta er það að spyrja hvort ekki sé nauðsynlegt að forsetinn og forsn., eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi áðan, skoði sérstaklega hvort þessi vinnubrögð eru eðlileg. Ég er alveg sannfærður um að jafnsanngjarn maður og hv. formaður iðnn. viðurkennir það í huga sínum að óeðlilegt er að halda svona á málum.

Ég vil í öðru lagi, herra forseti, ekki gera neina athugasemd við það samkomulag sem hæstv. forseti kynnti hér áðan. Þó mér þyki það slæmt þá er það niðurstaða. Og af hverju varð sú niðurstaða? Það var vegna þess að Framsfl. og formaður þingflokks Framsfl. knúði á það af mjög miklu afli að þetta mál yrði gert að lögum í dag. Ég hef engin rök fyrir því og ég tek undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e.: Hvaða pólitísku rök eru fyrir því, hvaða efnislegu rök eru fyrir því að þetta mál verði að verða að lögum í dag eða á morgun? Þegar þessi mál voru rædd milli stjórnar og stjórnarandstöðu fyrir áramót var um það rætt að þessu máli yrði lokið í febrúarmánuði. Það var aldrei kveðið skarpar að orði um það, það er alveg ljóst. Þessir hlutir liggja því þannig að því hefur ekki enn þá verið svarað hver séu hin pólitísku rök fyrir því. Ég hlýt, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e., að beina því til forseta að hann segi þingheimi hvað liggur á.