Staða þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 16:02:14 (3315)

1997-02-11 16:02:14# 121. lþ. 66.4 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[16:02]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að frv. til laga á þskj. 557 er lagt fram á Alþingi. Mikil breyting er lögð til á stöðu, stjórn og starfsháttum þjóðkirkjunnar og frv. felur í sér --- ég veit ekki hvort menn hafa gert sér það ljóst --- meiri breytingar á íslenskri kirkju og kirkjuskipan en verið hefur síðan um siðbót, mesta breyting í 450 ár í einu lagi verði þessi heildarlöggjöf um þjóðkirkjuna að lögum sem ég vissulega vona.

Ég lýsi einnig ánægju með margt það sem fram hefur komið í umræðunni til þessa um kirkjuna, sem við tilheyrum öll sem hér höfum talað, og viljum að vinni gott starf með þjóðinni. Mér þætti reyndar vænt um ef hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, gæti verið í salnum eða ég mætti vera þess fullviss að hann horfi á sjónvarpsskjá og heyri mitt mál, herra forseti.

Það kom fram í máli hv. þingmanna að kristnihátíðarnefnd er eingöngu skipuð karlmönnum. Það er ekki þeim að kenna sem sitja í embættunum heldur þeim sem kusu þá í embættin. Þar voru konur fyrir í mörgum þeirra og konur voru í meiri hluta og mér finnst það satt að segja nokkuð gild rök. Hins vegar tek ég undir að óhæfa er að ekki sé nokkuð jafnt skipt í nefndina og deili þeirri skoðun með þeim sem hér hafa áður talað.

Það kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að ríkisstjórnin væri vond við konur og stjórnarandstöðuna. Mér finnst ríkisstjórnin ekki vond við konur, það sem ég hef séð til hennar og ekki verri við stjórnarandstöðuna en efni standa til. Það er annað mál. Hitt vil ég árétta að konur hafa skipað stóran sess og verðugan innan kirkjunnar. Trúarlíf í landinu hefur löngum oltið á þátttöku þeirra og trú þannig að það er afar slæmt að hlutur þeirra skuli ekki gerður meiri í skipan nefndarinnar, kristnihátíðarnefndar. Hitt er annað mál að þær munu vafalaust bera mikla ábyrgð á því hvernig hátíðin fer fram á því ári eða þeim árum sem hún mun standa yfir. En mig langar til þess af því að svona var talað um jafnréttið í kirkjunni að vitna hér í Galatabréfið, með leyfi forseta, þar sem Páll postuli segir svo:

,,Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona.`` Þetta endurtek ég, ,,karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.``

Þetta er sá skilningur sem ég vil gjarnan halda á lofti, að allir eru eitt í kristinni kirkju og allir jafnir. Skírnin kveður á um það og er sem sagt þegnrétturinn í kirkjunni og allir eru þar jafnir.

Varðandi trúfrelsisákvæði sem voru gerð að umtalsefni og yfirheyrslur yfir forsetaframbjóðendum fyrir síðustu kosningar til forseta Íslands, þá vil ég geta þess að kirkjan bað ekki um neinar slíkar yfirheyrslur og mér er ekki kunnugt um að nokkur prestur eða nokkur, sem telur að hann hafi talað þar í umboði kirkjunnar, hafi verið að biðja menn að svara því hverrar trúar þeir væru.

Sá sem hv. þm. Svavar Gestsson átti við er forseti Íslands og forsetinn lýsti því yfir að hann væri kristinnar trúar. Óneitanlega er það nú betra því að hann er æðsti yfirmaður þjóðkirkjunnar á Íslandi. En kirkjan hefur ekki uppi neinar rannsóknir umfram þetta. Menn játa kristna trú og kirkjan er öllum opin, konum og körlum sem vilja tilheyra henni.

Ég vík þá aðeins að því hvers vegna frv., þessi nýi lagabálkur, er svona mikilvægt. Það hefur mikil umbreyting átt sér stað í kirkjulegu starfi á undanförnum tveimur til þremur áratugum. Kirkjan fetar sig áfram til meira sjálfstæðis og lýðræðis. Hún hefur fylgst með og fylgt örum þjóðfélagsbreytingum og til þess þarf hún sveigjanleika og frelsi að bregðast við breyttum aðstæðum og gerbreyttu þjóðfélagi. Hún þarf líka að hafa styrk og festu til að vera sú kjölfesta sem vænst er af henni. Ég tel að allir geti verið sammála um að ramminn sem lögin setja henni sé farinn að þrengja að sums staðar en að hinu leytinu vanti skýrari ákvæði annars staðar.

Vandamál hafa komið upp innan kirkjunnar sem annars staðar í þjóðfélaginu. Þau hafa orðið erfið úrlausnar, öðrum þræði vegna þess að menn hafa ekki talið að lögin kveði skýrt á um hvar ábyrgð liggi og hver skuli taka á hverju máli. Kirkjan hafði sem sagt ekki haft stjórnunarlegu úrræðin til að bregðast við vandanum. Henni eru fengin þau tæki sem duga í því frv. sem nú liggur fyrir og ég tel að þau dugi til þess að ytri umgjörð starfs hennar geti gengið eðlilega fyrir sig.

En nú bíður hins vegar kirkjunnar það mikla verkefni að móta úrræðin og stjórnunaraðferðirnar í samræmi við gildandi stjórnsýslulög því að að sjálfsögðu er kirkjan sett undir almenn lög í landinu.

Spurt var um það fyrr í umræðunni hvort ekki hefði verið hægt að ganga lengra, veita ákveðna fjárupphæð til kirkjunnar, ekkert minni en núna, til að tryggja hennar hag og þau ummæli og viðhorf hv. 8. þm. Reykv., Svavars Gestssonar virði ég, og tel víst að hann hafi komið því á framfæri í samstarfsnefnd ríkis og þjóðkirkju. Ég hygg líka að kirkjuþingi hafi verið kunnugt um þessi sjónarmið, en önnur leið var samt sem áður valin og það væri viðurhlutamikið að fara að gera þá breytingu núna sem hann um getur. Það er líka annað sem ég vildi nefna í þessu sambandi, þ.e. að ríkið hefur umsjón með kirkjueignum frá 1907 en hefur ekki tekið við þeim fyrr en það mundi þá gera það núna, en ég mun víkja að þessu betur síðar.

Ég gat þess hins vegar að stórstígar breytingar hefðu orðið á starfi kirkjunnar á fáum áratugum. Mig langar að nefna dæmi. Það eru ekki nema rúm 30 ár síðan frú Unnur Halldórsdóttir var ráðin starfsmaður við Hallgrímskirkju. Hún var fyrsta manneskja sem var ráðin til að gegna öðru en prestsstarfi, ef ég man rétt, þ.e. til að sinna barnastarfi og líknarstarfi innan safnaðar. Ég vil líka geta þess að sá góði maður, Páll Ísólfsson, sem var organisti við Dómkirkjuna, var aldrei í fullu starfi.

Nú er mikil breyting á orðin. Mikill fjöldi starfsmanna, aðrir en prestar, gegnir fullum störfum innan kirkjunnar, launuðum störfum og þar er fagfólk á hinum ýmsu sviðum og bæði prestar og aðrir starfsmenn kirkjunnar sérhæfa sig í ýmsum greinum starfa hennar. Þannig er barna- og unglingastarf, fjölskylduþjónusta kirkjunnar og ráðgjafarstarfið á hverju sviði sem vera skal og einnig er um ræða starf með öldruðum, sjúkum og aðstandendum þeirra. Þá er líka ástæða til að geta um sálgæslustarf presta og djákna. Í því sambandi vil ég minnast á, í allri hógværð, það kyrrláta starf kirkjunnar sem ekki er í fjölmiðlum og hvergi er haft hátt um, heldur er unnið í kyrrþey í sálusorgunarhlutverki, í sálgæsluhlutverki svonefndu, þar sem ekki er ástæða til að vera að hafa hátt um en skilar sér beint og óbeint í lífi einstaklinga og í lífi þjóðar.

Þá vil ég geta þess að sjálfboðastarfið er öflugt í kirkjunni. Ég tel næsta víst að hvergi sé það jafnmikið að vöxtum í íþróttunum, ekki meira en þar. Þó hef ég ekki tölur um þetta en fróðlegt væri að sjá þær. Ég hef hins vegar tekið lauslega saman að í sóknarnefndum og varasóknarnefndum eru nær 3.000 manns í landinu og í kirkjukórum starfa 3.000--3.500 söngmenn. Þetta er ekki svo lítil þátttaka í kirkjulegu starfi fyrir svo utan alla þá sem beint og óbeint koma að því.

Herra forseti. Þjóðkirkjunni er nú fengið sjálfstæði um sín mál og starfsemi sína og henni jafnframt fengið í hendur aukið og bætt stjórnvald þar sem kirkjuþingið er með miklu meiri ábyrgð og umboði en var. Kirkjuþing kemur til með að setja reglur um fjölmarga þætti hins kirkjulega starfs. Stundum er það haft á orði að íslenska þjóðkirkjan sé prestakirkja en staðreyndin er samt sú að á öllum stigum valds og stjórnunar á málefnum kirkjunnar eru leikmenn í meiri hluta. Þetta bið ég hv. þingheim að athuga vel.

Sóknarnefndir eru skipaðar leikmönnum. Presturinn hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Á héraðsfundum, sem eru eins konar aðalfundir prófastsdæmanna, eru prestar í miklum minni hluta og á kirkjuþingi er nú lögð sú breyting til að leikmenn verði tólf en prestsvígðir níu.

Herra forseti. Sem betur fer hefur fólk skoðanir á prestum sínum og hefur væntingar til þeirra og væntir þess að þeir leiði safnaðarstarfið og það er svo í langflestum tilfellum að hópur fólks er tilbúinn að sinna þessu starfi, leggja lið, hafa forustu á hendi ásamt prestinum þannig að sem flestir finni sig í því og geti tekið þátt í.

Við í nefndinni sem undirbjó frv. ræddum allnokkuð um ráðningartímann og svo sem hæstv. kirkjumrh. nefndi er ráðningartíminn sem þar er lagður til settur til málamiðlunar. En mér virðist þó margt benda til að tímabundin ráðning presta komist á innan ekki mjög langs tíma. Ég hygg að þróunin muni verða sú. Ég get minnst á það líka að í Þýskalandi er verið að ræða þetta mál, það er þar á dagskrá. Það er víðar og í löndum nær okkur er verið að ræða um breytingu í tímabundna ráðningu og sums staðar er hún þegar komin eins og í Noregi þar sem er gagnkvæmur uppsagnarfrestur. Verði frv. hins vegar að lögum er breytingin svo mikil að lærðir og leikir kirkjunnar menn geta haft gott af umþóttunartíma til að átta sig á breytingunni og að stjórnkerfi kirkjunar nái eðlilegu rennsli.

[16:15]

Kirkjuþing þarf að setja starfsreglur, móta sín margvíslegu stjórnarstörf með nýjum hætti. Allt slíkt er auðveldara ef beðið er með breytinguna á ráðningarfyrirkomulagi presta, en ekki svo að skilja að það sé ekki hægt. Það er vissulega hægt. Ég hygg hins vegar að það mundi ekki, eins og ég áður sagði, auðvelda þjóðkirkjunni að laga sig að breyttu stjórnunarskipulagi. Þá á ég ekkert frekar við það sem tekur til presta en leikmanna. Báðir aðilar horfa mót miklum breytingum og þurfa svigrúm til þess. Þetta eru einnig rökin gagnvart því að kirkjan fengi aðeins eina upphæð og réði svo sjálf öllu um starfsmenn sína, hvar þeir væru og hversu vel eða illa launaðir. Ég hygg að betra sé að geyma það skref þangað til kirkjan hefur náð tökum á þessu nýja eða breytta fyrirkomulagi.

Herra forseti. Í umfjöllun Alþingis um þetta mál tel ég mikilvægt að hafa hugfast að það er verið að setja löggjöf um stofnun sem varðar afar miklu fyrir marga og það skiptir flesta Íslendinga máli að kirkjunni takist að standa undir væntingum sem til hennar eru gerðar. Ég tel rangt að starf kirkjunnar sé ekki í takt við fólkið í landinu og ég tel einnig rangt að stilla prestum og söfnuðum andspænis hvorum öðrum. Slíkt gerist í örfáum tilvikum. Í flestum söfnuðum landsins er góð samvinna presta og safnaða og safnaðarstarf með blóma og ég hygg að það hafi aldrei í sögunni verið meira og fjölbreyttara en það er einmitt á þessum árum. Enda er það einnig ástæða þess að þetta lagafrv. lítur nú dagsins ljós.

Kirkjan og boðskapur hennar, starf hennar og tilvera er nærri hverjum manni og ég býst við því að í myndaalbúmum flestra fjölskyldna á Íslandi séu myndir úr kirkjum þar sem fjölskyldan hefur sameinast við skírn, við fermingu, hjónavígslu og síðan jafnvel einnig þegar fólk er kvatt hinstu kveðjunni úr þessum heimi. Með þessum hætti, með nálægð kirkjunnar við hvern mann og hverja kynslóð, hefur þjóðin þegið blessun í lífi sínu og kirkjan hefur alltaf verið nærri með þjónustu sína, reiðubúin í Krists stað eins og það væri hann sjálfur sem væri þar að verki. En þessar myndir, þar sem móðir eða faðir fara með kvöldbænir með barni sínu, allir eða flestir þekkja það, eða þar sem unglingurinn lærir kverið og staðfestist í trú sinni, en fermingardagurinn er vissulega mikil fjölskylduhátíð og fyrr í dag heyrðum við óm kirkjuklukknanna frá Dómkirkjunni þar sem útför fór fram, þannig að samfylgd kirkju og þjóðar er vissulega sterk og eindregin og hefur varað í þúsund ár. Hvað sem öllu öðru líður, þá skiptir það verulegu máli og hefur alltaf skipt máli.

Ég get þess líka að þjóðkirkjan er næstelsta stofnun landsins, næst á eftir Alþingi. Því vil ég segja að kirkjan er allt annað og langtum meira en agnúarnir, ágallarnir sem vissulega geta orðið stórir, sérstaklega í umræðunni, svo stórir að þeir byrgi sýn til alls þess góða sem kirkjan gerir og leggur af mörkum í íslensku samfélagi. En það sýnir samt sem áður líka hversu sterk kirkjan er og hversu nærri fólkinu að jafnvel þau stórvöxnu mál sem urðu svo stór í fjölmiðlum á síðasta ári hafa ekki komið henni á kné, fjarri því. Hins vegar mun kirkjan að sjálfsögðu læra af öllu þeim mistökum sem hún gerir og það er sárt að viðurkenna þau hverjum sem ann kirkju sinni eins og það er samt sem áður sjálfsagt mál að viðurkenna hver þau mistök sem verða og leitast við að gera bragarbót.

Herra forseti. Ég vil nú fara að ljúka þessum almennu orðum mínum um þjóðkirkjuna og mikilvægi þessa frv. Ég vil nefna að yfirgnæfandi meiri hluti barna fermist á hverju ári, en hver árgangur er um 4.000 börn. Og ég minnist líka á það að langflest börn á Íslandi eru skírð og þar með eru þau vígð í gildismati sem þjóðin vill standa vörð um, kristið gildismat. Samkvæmt könnunum sækja um 10% þjóðarinnar 18--75 ára guðsþjónustur sunnudagsins reglulega, þ.e. einu sinni í mánuði eða oftar. Þó vil ég geta þess einnig að verulega miklu fleiri yngri en 18 ára og jafnvel fleiri eldri en 75 ára sækja kirkju en nemur 10%.

Safnaðarheimili kirkjunnar eru menningar- og mannræktarstofnanir. Þar fara fram tónleikar, félagsstarf og ýmsir ótaldir fundir. Þá vil ég minnast á að mikilvægi þess er ótvírætt að í landinu sé einn siður og ein lög. Við þekkjum allt of mörg og sorgleg dæmi um ófrið meðal annarra þjóða sem stafar af ólíku gildismati og því er það vissulega í fullu gildi sem Ljósvetningagoðinn sagði á Þingvöllum árið 1000: Vér skulum allir ein lög hafa og einn sið í landi voru.

Kristnitakan kenndi Íslendingum líka, og það er gott að minnast þess fyrir hátíðarárið 2000, að kristnin setur manngildið í öndvegi. Það kom m.a. fram í því að þá í fyrsta skipti öðlaðist barnið sinn sjálfstæða rétt til lífsins en fram að því var það alfarið í höndum föður og hann gat ákveðið hvort barnið yrði borið út eða ekki.

Herra forseti. Ég vænti þess að þjóðkirkjunni lánist að hafa góð áhrif í samfélaginu hér eftir sem hingað til og að þessi lög færi hana nær því marki að sinna því fyrir alla þannig að allir megi vel við una.