Staða þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 17:03:36 (3318)

1997-02-11 17:03:36# 121. lþ. 66.4 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[17:03]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það síðasta sem hv. þm. nefndi var á misskilningi byggt. Ég var að reyna að átta mig á því samkvæmt frv. hvernig sóknarnefndir væru kjörnar. Ég var svo sem ekki að heimta að það yrði sett í lög ef það stendur annars staðar í lögum. Spurning mín snerist um það reyndar hvort ástæða væri til að það stæði í þessu frv. þegar að lögum verður en ef kveðið er á um það annars staðar, þá dugar það. Ég skildi hv. þm. þannig að það væri meiningin að kirkjuþing mundi ákveða hvernig að þessu yrði staðið og það er þá allt gott um það að segja. Málið er bara að það sé skýrt hvernig á að ákveða þetta.

Hv. þm. sagði að nefndin fræga endurspeglaði þjóðfélagið og það má segja það. Hún endurspeglar auðvitað það hrikalega karlveldi sem ríkir hér á Íslandi. En þjóðfélagið er nú einu sinni þannig samsett að það er næstum því helmingur karlar og helmingur konur. Karlar eru aðeins fleiri en konur hér á landi nú og því ætti nefnd sem er fulltrúi jafnviðamikillar og fjölmennrar stofnunar og íslenska þjóðkirkjan er að sjá sóma sinn í því að endurspegla þá staðreynd að innan kirkjunnar er fjöldi kvenna, bæði virkar, leikar og því miður allt of fáar lærðar, en þær eru um helmingur þeirra sem eru í þjóðkirkjunni og þeirra fulltrúar ættu að sjálfsögðu að vera í þessari nefnd. Við getum ekki annað en hvatt til þess að þarna verði breyting á, að konur fái sína fulltrúa í þessari nefnd.

Varðandi aðskilnað ríkis og kirkju, þá skil ég það þannig að það sé þá algjör aðskilnaður ríkis og kirkju, kirkjan sé sjálfstæð stofnun sem standi fullkomlega undir sér sjálf. En ég vil taka fram að ég var ekki að leggja til að svo langt yrði gengið. Ég held að það yrði ákaflega flókið. Ég held að það yrði kirkjunni fyrir bestu að hún hefði sem mest sjálfstæði. En sjálft hugtakið, að kirkjan sé skilin frá ríkinu, skil ég það þannig að menn séu að tala um fullkominn aðskilnað.