Staða þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 17:06:18 (3319)

1997-02-11 17:06:18# 121. lþ. 66.4 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[17:06]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Við tölum nokkurn veginn sama tungumálið. Hins vegar gætir misskilnings milli okkar. Ég sagði að þessi nefndarskipan og þessi fræga nefnd, karlanefnd, endurspeglaði það í þjóðfélaginu að þeir voru skipaðir, þeir settu sig ekki sjálfir í nefndina. Þeir eru settir í nefndina og ekki af fámennum hópi heldur eru þeir sumir hverjir kosnir og konur voru í meiri hluta þegar nefndin var skipuð upphaflega. Síðan hefur það gerst sem endurspeglar þjóðfélagið að karlar eru komnir í staðinn.

En hvað varðar það sem hv. þm. nefndi um lög um sóknarnefndir, héraðsfundi og fleira frá 1985, þá eru býsna ítarleg lög í gildi núna sem verða felld brott og kirkjan fær sjálf og kirkjuþing, og þá leikmenn í meiri hluta að ákveða hvernig þeim málum verður háttað. Því sagði ég í ræðu minni að kirkjunnar bíði núna mikið starf í því að móta sínar stjórnunaraðferðir.