Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 17:35:20 (3325)

1997-02-11 17:35:20# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[17:35]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að játa að mér býður í grun að hv. þm. trúi þessu sem hann er að reyna að segja og ég virði það við hann. Hann lítur a.m.k. út eins og hann trúi þessu þó að við séum þeirrar skoðunar að þetta sé tóm vitleysa. En hv. þm. verður auðvitað að hafa sína trú fyrir sig og áðan vorum við að ræða um kirkjuna og trúfrelsið og þingmanninum er að sjálfsögðu frjálst að trúa þessu. En ég tel að málið sé ekki svona og get í sjálfu sér farið yfir það og ætla að gera í ræðu minni.

Ég ætla að víkja aðeins fyrst að þessu andsvaraefni. Ég verð að taka undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni í sambandi við þessar framsóknaraðferðir við áróður. Ég þekki þær mjög vel því ég hef unnið með Framsfl. í þremur ríkisstjórnum. Það var oft mjög erfitt vegna þess hvaða aðferðir voru notaðar við að koma höggi á menn. Ég man t.d. mjög vel frá stjórninni 1980--1983 þegar Framsfl. gaf út tilkynningar um að það væri allt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að kenna hvernig staðan væri í verðlagningu orkumála af því að hann var þá orkumálaráðherra og var alveg einkar ódrengilegur málflutningur. Ég hygg að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sé að nokkru leyti að vitna til reynslu sinnar frá þeim tíma þegar hann talar um framsóknaraðferðir við áróður. Þær voru alveg sérlega persónulegar (HG: Fyrr og síðar.) og sérlega rætnar.

Hv. þm. Stefán Guðmundsson, sá ágæti maður, kom með það upp í andsvari um daginn að þetta hafi allt saman verið ákveðið þegar Svavar Gestsson var viðskrh. og Ragnar Arnalds menntmrh. og Hjörleifur Guttormsson iðnrh. Yfirleitt nennir enginn að fletta svona löguðu upp nema einn maður hér, sem á til að fletta upp hlutum, alveg ótrúlegur maður. Það er Hjörleifur Guttormsson, hv. 4. þm. Austurl. Hann er vís með að fletta öllu mögulegu upp þannig að það er eins gott fyrir menn að muna eftir því áður en þeir fullyrða mjög mikið, a.m.k um hann og hans stjórnmálaferil. Hann er vís með að fletta alveg ótrúlegustu hlutum upp. Hann fletti þessu upp og hver er niðurstaðan? Enginn af þessum mönnum var í ráðherrastól þegar þessi niðurstaða fékkst, enginn þeirra og fyrir utan það að allir ráðherratitlarnir voru vitlausir þegar miðað var við ríkisstjórnina sem tók við 1980. Hins vegar var þetta þannig í ríkisstjórninni 1978--1979, þá gegndum við þeim ráðherraembættum sem hann nefndi, fyrir utan það að hv. þm. Ragnar Arnalds gegndi auk þess embætti samgrh.

Til upprifjunar má nefna að sá sem var skattlagningarmálaráðherra á þeim tíma heitir Tómas Árnason og sat lengi í Seðlabankanum og vafalaust hefur hann verið glaður yfir þessum arði. (Gripið fram í.) Jú, aðþrengdur að lokum. Þetta er nú veruleikinn, herra forseti, og ég tel í sjálfu sér að ástæðulaust sé að fjölyrða um það frekar.

Ég harma hvernig þetta mál hefur verið rekið af Framsfl. í þessari stofnun. Ég veit að mikil óánægja er með málið meðal allra þingmanna bæði í Framsfl., Sjálfstfl. og öðrum flokkum. Ég sagði í upphafi þessara umræðna á sínum tíma að ég teldi í raun að minni hluti þingmanna væri fylgjandi málinu eins og það er. Ég er eiginlega alveg viss um að allir þingmenn vilja skoða þetta Landsvirkjunarmál miklu betur og ég er í þeim hópi. Ég er t.d. í þeim hópi sem hefur talað um að breyta mætti Landsvirkjun í grundvallaratriðum. Til dæmis mætti skipta henni í tvennt þannig að hún væri annars vegar fyrirtæki sem framleiddi fyrir almennan markað og hins vegar fyrirtæki sem framleiddi fyrir stóriðju. Vegna þess að alltaf væri verið að grauta þessu saman og það vekti tortryggni og úlfúð og því væri ástæða til að breyta því. Ég hef líka hvatt til þess á undanförnum árum og missirum að skilið væri mjög vendilega á milli þess í bókhaldi Landsvirkjunar hvað er annars vegar framleiðsla á orku og hins vegar sala á orku. Um þetta hafa menn í raun verið sammála.

Það er spurning, hæstv. forseti, hvort hæstv. iðnrh. er í húsinu, og hvort hann vildi vera svo vinsamlegur að hlýða hér á umræður um frv. til laga um Landsvirkjun sem hann leggur talsverða áherslu á að verði að lögum á Alþingi. Ég get gert hlé á ræðu minni meðan hann er að tala í símann.

Ég tel út af fyrir sig eðlilegt að menn velti því fyrir sér af hverju þetta frv. varð upphaflega til, hvað er það sem veldur því. Hæstv. iðnrh. hefur sagt aftur og aftur að það sé fyrst og fremst sú staðreynd að Reykjavíkurborg hafi viljað fá það á hreint hvað eignarhluti borgarinnar gæti gefið af sér. Ég tel þetta ranga uppsetningu mála. Ég tel að meginatriðið á bak við málið sé sá veruleiki að hæstv. iðnrh. óttaðist að hann réði ekki að fullu við stjórn Landsvirkjunar varðandi væntanleg forstjóraskipti í Landsvirkjun. Ég tel að það sé meginmálið, það sé aðalmálið. Málið hafi upphaflega ekkert með það að gera hvað Reykjavíkurborg vildi heldur fyrst og fremst hitt að hæstv. ráðherra hvekktist á stjórn Landsvirkjunar þegar hún stöðvaði það að Orkustofnun yrði gerð að hlutafélagi. Landsvirkjun, stjórn hennar, stöðvaði það. Hæstv. ráðherra tók þá ákvörðun að það yrði að breyta stjórn Landsvirkjunar og hann flytur frv., sem er að fljúga í gegnum þingið með ótrúlegustu atkvæðum, þar sem gert er ráð fyrir að Framsfl. tilnefni þrjá menn í stjórn Landsvirkjunar. Ég get sagt alveg eins og er: Ég treysti Framsfl. ekki fyrir því að tilnefna þrjá menn í stjórn Landsvirkjunar. Ég tel að þetta sé undirstöðuþáttur í málinu.

Í annan stað óskaði Reykjavíkurborg eftir því að hlutir er vörðuðu hennar eignarhlut yrðu skýrðir. Reykjavíkurborg lagði reyndar á það mjög mikla áherslu að þannig yrði frá málum gengið að hlutur borgarinnar yrði seldur í Landsvirkjun. Hv. 19. þm. Reykv., Guðný Guðbjörnsdóttir, rakti þær áherslur Reykjavíkurborgar fyrir nokkru við 2. umr. málsins. Hins vegar fékkst ríkið ekki til þess að taka á þessu máli og er það mjög athyglisvert. Niðurstaðan verður síðan sú að Reykjavíkurborg gengur að þeirri niðurstöðu, eins og hún hér liggur fyrir, sem er að mínu mati fyrst og fremst unnin af stjórnarflokkunum. En tilgangurinn er ekki sá að hreinsa frá mál Reykjavíkurborgar. Tilgangurinn er ekki sá að bæta almennt lög Landsvirkjunar. Tilgangurinn er ekki sá. Tilgangurinn er fyrst og fremst að taka til í stjórn Landsvirkjunar þannig að hún verði þægara stjórntæki.

Aðalumræðuefnið í tengslum við þetta mál, herra forseti, er arðgreiðslurnar. Verður fyrst borgaður arður og verðið lækkað svo? Hv. þm. Stefán Guðmundsson trúir því að fyrst verði verðið lækkað og svo borgaður arður. Ég segi bara: Mikil er trú þín, kona, herra forseti, í þessu samhengi. Ég held að málið gangi ekki svona einfaldlega fyrir sig. (Gripið fram í.) Vegna þess að það stendur hvergi. Í lögunum stendur, í 2. gr. frv. herra forseti, að borga eigi arð. Síðan er gert ráð fyrir því í nefndarálitum og í yfirlýsingum ráðherra að lækka eigi verðið.

Ég ætla ég að rekja það mál aðeins fyrir hv. þingmönnum, sem eru kannski aðeins farnir að ryðga í þessu, því það eru komnir fimm klukkutímar síðan við vorum að tala um þetta. Hver er staðan í þessu máli? Þegar það kom til meðferðar í þinginu lýsti hæstv. iðnrh. því yfir að hann teldi að orkuverðið eða lækkun þess ætti að hafa forgang fram yfir arðgreiðslurnar. Það sagði hæstv. iðnrh. Og hvað gerði þá meiri hluti hv. iðnn.? Hann sendi frá sér álit þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Samkomulagið felur í sér málamiðlun milli eðlilegra sjónarmiða um hæfilegar arðgreiðslur til eigenda og þess meginmarkmiðs að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót. Það er skilningur meiri hlutans, sem einnig hefur komið fram af hálfu iðnrh., að markmið um lækkun gjaldskrár gangi framar arðgreiðslumarkmiðum.``

Þetta stendur í áliti meiri hluta iðnn. og þetta sagði líka hæstv. iðnrh.

Síðan gerist það að ég flyt tvær brtt. við 2. umr. málsins um þennan skilning, að hann verði lögfestur. Það var fellt í tveimur atkvæðagreiðslum í dag. Það var fellt að taka verðlækkunina fram yfir arðgreiðslurnar og Alþingi hefur talað. Meiri hluti Alþingis hefur talað. Hann hefur mikið vald í þessu máli. Bókun gerir litla stoð andspænis lagabreytingu og lögum. Við skulum gera okkur grein fyrir því.

[17:45]

Þegar þessi mál koma síðan til meðferðar hér þá finnur stjórnarliðið að þetta er vandræðamál. Það er annar hver þingmaður hér úr stjórnarflokkunum sem ber sig upp undan þessu máli. Þetta er vandræðamál, fjöldinn allur af kjósendum og rafmagnsnotendum allt í kringum landið hringja og hafa samband við einstaka þingmenn og segja: Hvað er hér á ferðinni? Þá endar það með því að stjórnarflokkarnir eða aðallega Framsfl., tel ég vera, fer í að búa til þessa bókun eða þetta samkomulag, þessa sameiginlegu bókun, dagsetta 10. febr. 1997. Hún er kynnt í iðnn. í gærmorgun á fundi kl. 10.15. Álitinu er dreift þar. Það var ekki haft samband við iðnaðarnefndarmenn áður en álitinu var dreift. Þeir vissu ekki að hverju þeir gengu. Það átti að þræla málinu þar í gegn án þess að við fengjum ráðrúm til að skoða málið og fjalla eðlilega um það. Við þær aðstæður óskaði ég eftir því að borgarstjórinn í Reykjavík yrði kallaður til. Ég mun fara aðeins nánar yfir það vegna þess að það var farið rangt með orð hennar áðan.

Ég ætla aðeins að víkja að því hvað stendur í þessari bókun. Það eru í fyrsta lagi nokkur atriði um Ríkisendurskoðun og Samkeppnisstofnun sem ég ætla að koma að hér á eftir. En í öðru lagi standa í þessu áliti nokkur atriði varðandi verðlagið. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Núverandi samkomulag ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar felur í sér málamiðlun um arðgreiðslur til eigenda.`` --- Núverandi. --- ,,Sammæli er um`` --- ekki samkomulag --- ,,að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað`` --- það segir ekki lækki, heldur ,,geti lækkað``. Og skyldi það vera strax? Nei, ,,eftir aldamót``. ,,Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót.`` --- Hugsa sér, herra forseti, hvílík undur! Það er sammæli um að verð á raforku geti lækkað eftir aldamót. Það eru mikil tíðindi. Það er spurning hvort ekki er hugsanlegt að stjórnarflokkarnir gætu komið sér saman um að verð á einhverju öðru ,,geti`` lækkað eftir aldamót. Þetta er ótrúlega aumingjalegt og segir ekki nokkurn skapaðan hlut. En ef hv. þm., formaður iðnn. vill trúa þessu þá er það bara hans mál. Ég get ekkert gert við því.

Þegar þetta mál var svo tekið til meðferðar í hv. iðnn. í gær óskaði ég eftir því að borgarstjórinn í Reykjavík kæmi þangað á fund og sömuleiðis fleiri aðilar, m.a. ráðuneytisstjóri úr iðnrn., sem hafði fjallað um þetta mál. Auðvitað var ríkisstjórnin búin að segja okkur að þetta væri fullkomið frv. og það mætti ekki breyta stafkrók í því. En vesalings ráðuneytisstjórinn í iðnrn., sem var búinn að segja okkur að þetta væri algjörlega fullkomið mál, hann kom í gær og sagði að það þyrfti að breyta því samt, af einhverjum ástæðum. Það þyrfti að friða þessa óþekku menn í stjórnarflokkunum sem voru heldur til vandræða í þessu máli með ýmsum hætti. Borgarstjórinn kemur svo á fund í hádeginu í gær --- og segir hvað? Segir í fyrsta lagi að efni bókunarinnar breyti ekki samkomulaginu um það að arðsgreiðslurnar séu fremstar eins og stendur í 2. gr. frv. Og hv. 19. þm. Reykv. spurði borgarstjórann í Reykjavík: En má þá ekki setja þetta í lög sem stendur í bókuninni? Hvað sagði borgarstjórinn í Reykjavík þá? Þá sagði borgarstjórinn í Reykjavík: Nei, af því að þá eru allt önnur hlutföll í þessum texta heldur en í upphafi. Það er því bersýnilegt að það er verið að blekkja hérna megin við Vonarstrætið og reyna að setja hlutina upp allt öðruvísi en reynt er hinum megin við Vonarstrætið. Það er von að þeir séu farnir að ókyrrast hér í salnum og biðja um andsvar sem létu blekkingaræfingarnar hafa áhrif á atkvæði sín fyrr í dag.

Síðan gerist það, herra forseti, að á fundi iðnn. las ég upp fyrir borgarstjórann í Reykjavík, eftirfarandi setningu úr nál. meiri hlutans:

,,Það er skilningur meiri hlutans, sem einnig hefur komið fram af hálfu iðnaðarráðherra, að markmið um lækkun gjaldskrár gangi framar arðgreiðslumarkmiðum.``

Ég spurði borgarstjórann: Er þetta það sama og stendur í bókuninni? Borgarstjórinn sagði: ,,Nei, þetta er annað og ég er ósammála því sem stendur í nál. meiri hlutans.``--- Þetta er veruleiki málsins. Þetta er veruleiki þessa máls. Þannig er í rauninni verið að reyna að smygla þessu máli hér í gegn með hártogunum án þess að hlutirnir liggi fyrir eins og menn vilja vera láta. Þetta er hinn alvarlegi veruleiki í málinu, að það er minni hluti þingsins, tel ég vera, sem er að koma málinu í gegn. Það er alveg á hreinu. Það er óánægja með málið alls staðar, ekki bara hér heldur líka í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er alls staðar bullandi óánægja með þetta mál allt í kringum landið. Hver einasti umsagnaraðili fyrir utan tvo lýsir andstöðu við málið. Hvað á þetta þá að þýða? Af hverju eru menn þá að nudda svona með þetta? Hvað á þetta að þýða? Ég hef enga skýringu fundið aðra en þá að hæstv. iðnrh. vilji losna við núverandi stjórn Landsvirkjunar.

Ég held þess vegna, herra forseti, að það sé út af fyrir sig ekkert annað að gera í þessu máli fyrir okkur en að segja við stjórnarmeirihlutann: Þið skuluð bera ábyrgðina af þessu, þetta er ykkar mál. Þið kjósið að hafa þetta svona og það er ykkar mál. Þið viljið koma þessum hlutum svona fyrir. En ég verð að segja að ég harma það bæði vegna þjóðarinnar og fyrirtækisins Landsvirkjunar vegna þess að hér er ekki verið að taka ákvörðun um að lækka raforkuverð heldur að hækka það að óþörfu um 10% á næsta ári. Hafa menn ekki tekið eftir því? Halda menn að það sé bara áróður að raforkuverð þurfi að vera 10% hærra til almennings næstu árin út af þessu samkomulagi? Það er þannig. Vegna þess að Landsvirkjun selur til almenningsveitna fyrir 5--6 milljarða kr. á ári og þessi arður er upp á 500--700 milljónir kr. á ári þannig að það er um það bil 10% af sölunni á raforku til almennings sem á að fara í annað.

Það út af fyrir sig alveg rétt sem hér hefur verði bent á að þeir aðilar sem um er að ræða, þ.e. Reykjavíkurborg og Akureyri og ríkið, eru auðvitað ekki venjuleg fyrirtæki heldur er hér um að ræða aðila sem lúta því sem kallað er lýðræðisleg stjórn. Það er út af fyrir sig alveg rétt. En ég spyr, herra forseti: Er það skynsamleg stefna í orkumálum að leggja skatt á raforku? Er það skynsamleg stefna í orkumálum og í efnahagsmálum að leggja skatt á raforku? Er það skynsamleg stefna í orkumálum, efnahagsmálum og atvinnumálum að leggja skatt á raforku í landi þar sem verðlag á raforku er úrslitaþáttur í sambandi við hagvöxt og betri eða verri lífskjör á komandi árum og áratugum? Því ef það er eitthvað sem getur bjargað Íslandi í þessari stöðu þá er það að menn tryggi að orkan sé ódýr þannig að hún geti skilað sem mestum arði út í atvinnulífið og út til einstaklinganna á hverjum tíma. Þá er ég að tala um þá orku sem almenningur fær til sinna nota, einkanota, og íslensku fyrirtækin í landinu. Ég held sem sagt að það sé vond efnahagsstefna að skattleggja orku eins og hér er ætlunin að gera.

Það er líka slæmt í þessu máli, herra forseti, hvað Framsfl. kýs að nota þetta mál til að ala á tortryggni og úlfúð á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Það er afar alvarlegur hlutur. Leiðtogi í þeirri úlfúð og í þeim málflutningi er hæstv. iðnrh. sem hefur reynt að gera lítið úr málflutningi einstakra þingmanna fyrst og fremst vegna þess að þeir ættu ekki að segja margt af því að þeir væru úr Reykjavíkurkjördæmi. Þannig hefur verið reynt að draga þetta mál niður í svað kjördæmasjónarmiða en hér er fyrst og fremst um að ræða almennt málefni, málefni sem snertir þjóðina alla hvar sem hún býr á landinu. Þess vegna harma ég að menn skuli hafa verið að reyna að efna til illinda á milli þéttbýlis og dreifbýlis eins og Framsfl. er að reyna að gera í þessu máli og að slá sér upp á því.

Um önnur atriði í þessu frv., herra forseti, og þær brtt. sem hér eru fluttar ætla ég ekki að vera margorður að sinni en vil víkja aðeins að frhnál. minni hluta iðnn. á þskj. 598. En þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Verði frumvarpið samþykkt hækkar rafmagnsverð til almennings um 500--700 millj. kr. á ári sem renna þá til eigendanna, í ríkissjóð, borgarsjóð og bæjarsjóð Akureyrar. Heildarsala á raforku til almennings nam á síðasta ári um 5,5 milljörðum kr. Hér er því um að ræða um það bil 10% aukaskatt á alla raforkunotendur í landinu. Þessi skattur leggst hlutfallslega þyngst á þá sem borga hæst orkuverð.

Verði frumvarpið samþykkt er stigið skref í þá átt að brjóta niður þá stefnu verðjöfnunar sem á að fylgja samkvæmt lögunum um Landsvirkjun. Alþýðubandalagið ítrekaði stuðning sinn við verðjöfnunarstefnu í raforkumálum á miðstjórnarfundi flokksins fyrir nokkru. Aðalgalli þessa frumvarps eins og það liggur fyrir er einmitt að gert er ráð fyrir að hækka rafmagn mest hjá þeim sem borga hæsta verðið fyrir raforkuna.

Þá er hætt við því að fyrirtækið [þ.e. Landsvirkjun] sundrist í mörg smærri virkjunarfyrirtæki fari svo að frumvarpið verði samþykkt.

Þá ber að gagnrýna harðlega að Alþingi gefst of lítill tími til að fjalla um málið í lokagerð þess. Framsóknarflokkurinn knúði á um það að frumvarpið yrði tekið til atkvæða í gær. Samt voru lagðar fyrir þingnefnd í gær breytingartillögur sem fjalla annars vegar um tæknileg málefni en hins vegar er um að ræða bókun sem engu breytir. Í bókun þessari er gengið skemmra en þegar hefur komið fram í áliti meiri hlutans og í ummælum ráðherra. Bókun er líka aðeins bókun og breytir engu um efni málsins nema hún verði gerð að lögum. Minni hlutinn mun því gera tillögu um að láta á það reyna hvaða vilji er á bak við bókunina með því að flytja hana sem breytingartillögu við frumvarpið við 3. umr. sem ákvæði til bráðabirgða.

Í bókun eignaraðila segir: ,,Núverandi samkomulag ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og bæjarstjórnar Akureyrar felur í sér málamiðlun um arðgreiðslur til eigenda. Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.``

Leturbreytingar eru minni hlutans en þær eru gerðar til að vekja athygli á mikilvægum efnisatriðum:

1. Talað er um núverandi aðila sem þýðir að þeir sem taka við geta breytt samkomulaginu. Kjörtímabil bæjarstjórnanna rennur út fyrir aldamót. Bókunin er því hrein markleysa til lengri tíma litið.

2. Talað er um sammæli en ekki um samkomulag.

3. Það er engin frétt að raforkuverð geti lækkað eftir aldamót!

Bókunin er því aumlegur kattarþvottur. Verði hún hins vegar lögfest horfir málið öðruvísi við. Þess vegna flytur minni hlutinn breytingartillögu um að svo verði gert.

Tilgangur bókunarinnar er að slá ryki í augu annarra. Formaður iðnaðarnefndar túlkaði bókunina þannig í útvarpsfréttum í gærkvöldi: ,,... við höfum ... haldið því fram að arðgreiðslurnar væru víkjandi fyrir lækkun orkuverðs og svo er enn.``

Þannig er reynt að nota bókunina til að blekkja. Þessi lýsing þingmannsins gengur þvert á lýsingu borgarstjóra á málinu eins og hann greindi frá afstöðu sinni til málsins í iðnaðarnefnd í gærmorgun. Þeir sem undirrita segja því ekki það sama um efni þess sem undirritað er. Það er greinilega skoðun borgarstjóra að bókunin breyti engu; eftir sem áður hafi arðgreiðslurnar forgang.

Í nefndaráliti meiri hlutans segir svo um málið: ,,Samkomulagið felur í sér málamiðlun milli eðlilegra sjónarmiða um hæfilegar arðgreiðslur til eigenda og þess meginmarkmiðs að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót. Það er skilningur meiri hlutans, sem einnig hefur komið fram af hálfu iðnaðarráðherra, að markmið um lækkun gjaldskrár gangi framar arðgreiðslumarkmiðum.`` Eins og lesendur geta séð og þingmenn geta heyrt er þetta allt annað en fram kemur í bókun eignaraðilanna.

Við 1. umr. málsins lýsti iðnaðarráðherra því yfir að ætlunin væri að verja því fé sem ríkissjóður fær af arðgreiðslum Landsvirkjunar til atvinnuuppbyggingar utan Reykjavíkur og Akureyrar. Engar upplýsingar hafa komið fram um hvernig þetta á að gerast.

Loks vill minni hlutinn gagnrýna sérstaklega asann á málinu nú við lok þess, en hann er Alþingi til vansa. Meðferð Alþingis hefur ekki þann tilgang að staðfesta vilja ríkisstjórnarinnar; meðferð málsins á Alþingi á líka að hafa þann tilgang að opna mál fyrir þjóðinni. Þess vegna er Alþingi haldið í heyranda hljóði.``

[18:00]

Undir þetta frhnál. minni hluta iðnn. ritar Svavar Gestsson 11. febr. 1997.

Það eru fáein atriði, herra forseti, í þessu frhnál. sem ég ætla að gera aðeins nánar að umtalsefni og fyrst það síðasta. Ég ætla að spyrja hæstv. iðnrh.: Af hverju þarf að gera málið að lögum á morgun eða hinn --- eða helst í dag? Hvaða ástæður eru fyrir því? Það geta verið einhverjar ástæður fyrir því. Ég þekki þær ekki en það væri fróðlegt að vita hverjar þær eru og ég óska eftir að því verði svarað vegna þess að ég hef grun um að ástæðurnar séu fyrst og fremst þær að stjórnarflokkarnir og sérstaklega Framsfl. vilji helst koma þessu máli frá af því það sé þeim óþægilegt. Þess vegna vilji þeir endilega ljúka málinu eins og hér er lagt til og ég skora á hæstv. ráðherra að svara því af hverju það er sem þessi ofuráhersla er lögð á að ljúka þessu máli.

Í öðru lagi hefði ég viljað fara fram á það að hæstv. iðnrh. svaraði annarri spurningu sem ekki gafst tími til að ræða við 2. umr., mjög sérkennilegu atriði sem fram kom í andsvari hans við ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og fram kom við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1997. En þar er gert ráð fyrir því að arðurinn sem greiddur verður í ríkissjóð af Landsvirkjun verði notaður til atvinnuuppbyggingar úti um landið. Ég spyr: Hvernig á þetta að gerast? Hvað er hér á ferðinni? Hver á að borga þessa fjármuni?

Það er nokkuð merkilegt að fyrir tæpum sex árum settist hér að völdum í landinu ríkisstjórn sem vildi aðallega beita sér gegn sjóðasukki og taldi að það mundi vera hið mesta þjóðþrifamál að fækka hér sjóðum --- leggja niður sjóði. Það væri aðalvandamál þjóðarinnar hvað hér hefðu verið til margir sjóðir. Það verður að viðurkenna að ekki hefur miðað hratt í þessum efnum af hálfu þeirrar ríkisstjórnar né þeirrar sem tók við af henni. En hvað er hér á ferðinni? Og hvaða sjóður er þetta sem á að úthluta þessum fjármunum? Hverjir eru það sem eiga að fara með þetta fé? Ég vil fá upplýsingar um það. Alþingi verður að fá að vita það. Er það ráðherra sem ætlar að úthluta þessum 80 milljónum eða hvað? Hverjir eru það sem eiga að koma að því? Er það Byggðastofnun? Hverjir eru það sem eiga að koma að þessu máli? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fá upplýsingar um það, herra forseti, við þessar umræður.

Í sambandi við einstakar brtt. við frv. vil ég svo sem ekki segja margt um þær nema hvað ég ætla að víkja aðeins að tillögunni um Ríkisendurskoðun en ég tel að hún sé til bóta. Ég tel að það sé sérstaklega til bóta að hún er kölluð til þarna en ég verð að segja eins og er að mér finnst hún nokkuð sérkennileg eins og hún er. Ég skil satt að segja ekki af hverju brtt. er ekki höfð beinlínis þannig að það sé tekið fram að Ríkisendurskoðun geti annast fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun, ef hún ákveður, hjá Landsvirkjun. Hér er staða Ríkisendurskoðunar takmörkuð mjög mikið. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig á því stendur að menn una við það að lenda málinu með þessum hætti þó ég viðurkenni að það sé til bóta að nefna Ríkisendurskoðun í lögunum um Landsvirkjun, ef þetta verður að lögum.

Í annan stað í sambandi við einstakar brtt. ætla ég að spyrja um tillöguna um samkeppnislög. Ég tel að nauðsynlegt sé að hæstv. ráðherra útskýri hvað hann á við í þessu sambandi og reyndar formaður nefndarinnar líka. Ég vil gjarnan fá að vita hvað hann á við í þessu máli. Hvað þýðir þetta, með leyfi forseta: ,,Ákvæði samkeppnislaga gilda um Landsvirkjun.`` Hvað þýðir þetta? Samkeppnislög fjalla um samkeppni eða fákeppni á milli stofnana. En veruleikinn er sá að í orkumálum er ekki um mikla samkeppni að ræða. Hún er nánast engin eða takmörkuð. Það má segja að í sumum tilvikum sé vottur af samkeppni í raforkugreininni en þó held ég að það sé ekki hægt að tala um það að neinu marki. Margir þeir aðilar sem voru að gagnrýna frv. um Landsvirkjun sögðu að það þyrfti að koma á samkeppni í raforkugeiranum en það hefur ekki verið gert. Ég spyr: Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Segjum að þetta væri komið í lög og stjórn Landsvirkjunar hefði tekið ákvörðun um tiltekna gjaldskrá. Hvað gerist þá? Kemur Samkeppnisstofnun til? Hvernig skilur formaður nefndarinnar þetta? Ég tel að það sé mikilvægt að hafa þetta og betra en ekki að hafa þetta þarna inni en ég hefði þó talið óhjákvæmilegt að málið væri skýrt miklu betur áður en að það verður afgreitt hér.

Virðulegi forseti. Það er svo eitt atriði sem ég vildi síðan nefna í sambandi við arðgreiðslurnar, og þá vík ég að því sem ég kom að í upphafi, að hlutfallið væri 0,7% af stofni en hefði verið 3% eða miklu hærra einhvern tímann hér fyrr á öldinni þegar sumir menn voru ráðherrar. Ég vil svo sem ekki segja margt um það en deilan í þessu máli snýst kannski m.a. um það af hvaða stofni þessi arður er reiknaður. Ég held að það sé nauðsynlegt að halda því til haga að í nál. mínu kemur fram að Reykjavík, Akureyri og ríkið hafa ekki borgað 24 milljarða og ekki 14 milljarða inn í Landsvirkjun heldur 2--2,5 milljarða í peningum. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að að öðru leyti er þarna um að ræða eignamyndun sem almenningur stendur á bak við með því að borga fyrir rafmagnið sitt. Þess vegna verð ég að segja eins og er, herra forseti, að mig rak eiginlega í rogastans þegar hv. þm. Stefán Guðmundsson notaði þessa prósentu áðan sem rök fyrir máli sínu. Ég held að hann þurfi að átta sig á því að deilan um málið stafar m.a. af því að það er ósætti um það af hvaða tölu á að reikna arðinn. Það er ósætti um það. Ég rifja það upp að við 2. umr. málsins sagði t.d. hv. 2. þm. Vesturl. að hann væri sammála uppsetningu á þessu máli að því er varðar arðsútreikninginn sem fram kemur í nál. mínu og ég kynnti þá rækilega og birtist á þskj. 560. Þannig liggur fyrir að um það er samstaða mjög víða að uppsetningin 14 milljarðar sé vitleysa og það eigi að horfa á töluna 2--2,5 milljarðar sem eru hin raunverulega greiðsla inn í fyrirtækið frá þessum aðilum, þ.e. Reykjavíkurborg, Akureyri og ríkinu.

Þetta vildi ég nefna, herra forseti, og ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra og talsmann meiri hlutans í iðnn. nokkrar spurningar og vænti þess að þeir geti svarað þeim. En ég endurtek að út af fyrir sig er sjálfsagt ekkert við því að gera ef meiri hlutinn ætlar að þrælast með þetta hér í gegn, þá gerir hann það. Það er ekki hægt að ásaka okkur fyrir það að við höfum ekki reynt að koma fyrir hann vitinu eða reynt að skýra málið. Það er ekki hægt að gagnrýna okkur fyrir það. Við erum búin að reyna það eins og við getum. Það er ekki hægt að gagnrýna okkur fyrir það þó hv. þm. Stefán Guðmundsson trúi því að verð á rafmagni lækki þó það hækki. Veruleikinn mun leiða það í ljós, því miður, að við höfum talsvert til okkar máls í þessu efni og það er leitt hans vegna vegna þess að ég veit að hann vill vanda sig og fara með hið rétta í þessu máli.

Varðandi niðurstöðuna hjá hinum eignaraðilunum í sambandi við þessa breytingu eða bókun þá liggur það fyrir að það eru skiptar skoðanir um hana. Niðurstaðan er m.a. sú í borgarráði Reykjavíkur að þessi bókun breyti engu. Eftir sem áður liggi það fyrir að arðurinn komi til eignaraðilanna eins og gert hafði verið ráð fyrir þannig að þetta með forgang verðlækkunarinnar sé ekki á dagskrá. Það er niðurstaða borgarráðs og það er nokkurt umhugsunarefni í ljósi þess sem hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa reynt að halda hér fram.