Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:15:20 (3329)

1997-02-11 18:15:20# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:15]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Ætlar hv. þm. þá að skipta um afstöðu? Eru örlög hans í hendi R-listans? Ég óska honum til hamingju með það. Það er það sem hann er í raun og veru að vitna hér í.

Ég ætla bara að segja eitt í þessu sambandi. Ég tel að þingmaðurinn hafi verið blekktur vegna þess að það liggur ekkert fyrir um það að verðlækkun eigi að hafa forgang. Og ég ætla að vitna máli mínu til stuðnings í bókun frá borgarráði Reykjavíkur í dag. Ég ætla hins vegar fyrst að rifja það upp út á hvað málið gengur. Það gengur út á það að hérna liggur fyrir frv. um að eignaraðilar Landsvirkjunar eigi að fá arð eftir tilteknum reglum samkvæmt samkomulagi frá 28. okt. 1996. Þetta stendur í 2. gr. frv. sem þingmaðurinn og fleiri hér voru að samþykkja í dag. Þar stendur ekkert um verðlag. Eftir að þetta frv. var lagt fram var gerð bókun á milli eignaraðilanna. Breytir hún einhverju? Breytir hún öllu í málinu? Það er það sem þingmaðurinn er að gefa í skyn. Bókun úr borgarráði Reykjavíkur í dag um þessi mál segir m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Í sameiginlegri bókun eignaraðila Landsvirkjunar, dags. 10. febrúar 1997, kemur ekkert fram sem ekki hefur áður verið samþykkt af hálfu borgarinnar.``

Það er með öðrum orðum ekkert í bókuninni. (StB: Hver bókaði þetta?) Pétur Jónsson heitir hann, borgarráðsmaður Alþfl. Ég held því að það sé óhjákvæmilegt að menn geri sér grein fyrir því að þar er litið þannig á, a.m.k. af Pétri Jónssyni að ekkert hafi gerst í málinu. Það verður kannski til þess að hv. þm. skipti um skoðun frá því sem hann hafði í atkvæðagreiðslunni í dag.