Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:36:53 (3336)

1997-02-11 18:36:53# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:36]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst samkvæmt þeirri brtt. sem liggur fyrir að ákvæði samkeppnislaga gilda um Landsvirkjun. Ég var að ræða sérstaklega um gjaldskrána sem ég hafði sérstaklega í huga þegar ég lagði áherslu á að samkomulag gæti náðst um að þessi brtt. yrði flutt.

Varðandi samkeppnina sem slíka þá kom fram í nefndaráliti 1. minni hluta, sem ég stóð að, við 2. umr. málsins, hvaða áherslur 1. minni hlutinn legði varðandi framtíðarskipan orkumála. Þar kom fram að 1. minni hluti legði áherslu á að brýnt væri að mótuð verði stefna um nýtingu auðlinda sem og aðskilnað í vinnslu flutningsdreifingar og sölu á raforku sem er forsenda fyrir samkeppni. Ég tel að það þurfi að komast á samkeppni í þessum geira.

En ég var fyrst og fremst að horfa til gjaldskrárinnar þar sem mér fannst 8. gr. mjög takmarka og jafnvel koma í veg fyrir að hægt væri að hafa eftirlit með gjaldskrá Landsvirkjunar.