Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:38:13 (3337)

1997-02-11 18:38:13# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:38]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og mig grunaði. Menn eru með fleira í huga en látið er uppi. Í máli þingmannsins er ákvæðið um samkeppnislög útskýrt þannig að einvörðungu eigi að gæta þess að gjaldskráin sé eftir einhverjum reglum ekki óeðlileg út frá stöðu fyrirtækisins. En lagatextinn, eins og hann verður ef tillagan nær fram að ganga, er miklu víðtækari og ég heyri að þingmaðurinn, og veit reyndar að svo er um fleiri, er á þeirri skoðun að það eigi að ganga til mikilla breytinga í orkugeiranum sem eiga fyrst og fremst að felast í því að koma á samkeppni á sem flestum sviðum, a.m.k. á dreifingarstigi og smásölustigi, e.t.v. líka á virkjanastigi. Mér sýnist því á öllu að með þessu lagaákvæði séu menn að setja inn ákvæði sem muni leiða til þess af því að það er hlutverk Samkeppnisstofnunar að kalla þessar breytingar fram. Hún hefur ekki endilega það hlutverk að passa upp á gjaldskrár einokunarfyrirtækja. Hún hefur fyrst og fremst það hlutverk að gæta þess að fyrir hendi sé samkeppni í þeirri atvinnustarfsemi sem um er að ræða og að samkeppnin leiði til þess að gjaldskráin sé hófleg miðað við efni og aðstæður.