Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:37:55 (3361)

1997-02-11 22:37:55# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:37]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég met að sjálfsögðu mikils það traust sem hv. 1. þm. Vestf. vill sýna hæstv. iðnrh. Vandinn er sá að iðnrh. talar bara fyrir einn af þessum þremur aðilum. Hinir eru ekki viðstaddir hér. Það sem ég er að fara fram á er að það verði fengið á hreint um hvað menn eru að tala vegna þess að mér sýnist að það fari býsna mikið milli mála að hæstv. iðnrh. vill láta í veðri vaka að allt annað felist í bókuninni en borgarstjórinn í Reykjavík sagði í kvöld. Það var þess vegna sem ég nefndi þann möguleika að það yrði ef til vill tekið hlé á málinu vegna þess að bókun gerir auðvitað enga stoð nema allir sem standa að henni séu sammála um skilninginn sem í henni felst. Og það finnst mér vera gallinn á bókuninni að hún er of loðin og óljós. Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Vesturl. að það er ekki gullaldartexti á þessari bókun eins og hún er. Það hefði þurft að skrifa hana miklu betur, hvað sem öllu öðru líður.

Varðandi það að ríkið yfirtaki hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun, þá er það rétt hjá hv. þm. að það er flókið mál. Það er býsna mikill munur á hvort menn eru þar að tala um 25 milljarða eða 2,5 milljarða. Ég er þeirrar skoðunar, eins og fram kemur í frhnál. mínu, að eignaraðilarnir hafi bara borgað í beinum peningum um 2--2,5 milljarða fyrir fyrirtækið. Þá yrði hlutur Reykjavíkur auðvitað sá sem hv. 1. þm. Vestf. nefndi. Ég segi alveg eins og er að það kemur mér á óvart í allri þessari umræðu að menn skuli ekki hafa lagt af stað með þessa umræðu því að hún skiptir máli. Menn hljóta að sjá hvað það er mikið jafnvægisleysi í Landsvirkjun eins og hún er núna og hvað það er erfitt fyrir Reykjavík að vara þar inni sem svona sterkur neytandi fyrst og fremst á þessum markaði. Þess vegna varpaði ég þessari spurningu fram til hv. þm. og ég þakka honum fyrir að segja nokkur orð um málið.