Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:39:49 (3362)

1997-02-11 22:39:49# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:39]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það einungis að ég tel að það sé fullnægjandi að hæstv. iðnrh. svari spurningu minni um þessa bókun. Við vitum um hvað þessi bókun snerist. Hún kom til m.a. vegna þeirrar umræðu sem hafði átt sér stað um það hvort eðlilegt væri að víkja til hliðar arðsemiskröfunni til þess að geta stuðlað að því að Landsvirkjun gæti staðið við markmið sín um lækkun orkuverðs eftir árið 2000. Það gefur auga leið að um þetta mál hljóta þeir aðilar að vera sammála sem stóðu að þessari bókun því bókunin snerist bókstaflega um það. Markmið bókunarinnar var að skýra nákvæmlega þetta mál. Við þurfum því ekki að velkjast í vafa um að aðilar bókunarinnar hljóta að geta verið sammála um í hverju hún felst og þess vegna er langeðlilegast í þessari umræðu og er eina leiðin í þessari umræðu til þess að skýra málið að óska eftir því við hæstv. iðnrh. að hann greini frá því hver sé túlkun hans á þessari bókun.

Ég marglýsti því yfir í ræðu minni áðan að mér fyndist þetta vera mjög skýrt þegar ég las þetta. Ef maður les þetta bókstaflega eins og ég gerði hér áðan þá er þetta mjög skýrt. Það er verið að tala um að arðsemismarkmiðin séu víkjandi, verðlækkunarmarkmiðin séu ríkjandi og ég vildi eingöngu fá þetta staðfest hjá hæstv. iðnrh. þannig að við þyrftum ekkert að velkjast í vafa um þetta. Hann er sá aðili málsins sem er fullkomlega bær til þess að svara því.