Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 23:00:00 (3370)

1997-02-11 23:00:00# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[23:00]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Ég hef lýst skoðunum mínum í þessu máli fyrr við umræðuna og mun því ekki lengja þessa umræðu mikið. Engu að síður vil ég segja það að vegna umræðunnar sem hefur farið fram í kvöld og vegna þeirra fréttaviðtala sem hafa birst í fjölmiðlum, tel ég mig knúinn til þess að taka til máls.

Um það hefur verið deilt í umræðunni, um breytingar á lögum um Landsvirkjun, hvort markmið um lækkun raforkuverð næðust og deilt hefur verið um það hvort eðlilegt væri að arðgreiðslur hefðu þvílíkan forgang sem upphaflegt samkomulag gerði ráð fyrir. Nú hefur það gerst að eigendur Landsvirkjunar hafa náð saman um sérstaka yfirlýsingu sem hefur verið kynnt hér rækilega og ég vísaði til í dag þegar ég gerði grein fyrir atkvæði mínu við 2. umr. og byggði afstöðu mína til málsins m.a. á því samkomulagi. Það urðu mér þess vegna mikil vonbrigði þegar ég hlustaði á borgarstjórann í Reykjavík í fréttum ríkissjónvarpsins í kvöld þar sem borgarstjórinn lét að því liggja og sagði beinlínis að auðvitað væri hún ekki tilbúin til að slá neitt af kröfum um arð af fyrirtækinu. Hér hefur þetta fréttaviðtal verið lesið upp þannig að hægt er að kynna sér það. Þess vegna vil ég segja að það sem hæstv. iðnrh. sagði áðan í svari við fyrirspurn hv. 1. þm. Vestf., hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, skiptir miklu máli og sú yfirlýsing og sá skilningur sem fram kom hjá hæstv. iðnrh. Ég treysti því að hæstv. iðnrh. fylgi því eftir og sjái til þess að borgarstjórinn velkist ekki í vafa eftir þessa umræðu hvaða meiningu sú yfirlýsing og þetta samkomulag hefur.

Ef einhver brestur verður á því þá er þetta mál auðvitað í uppnámi eftir þessa umræðu. Eðli málsins samkvæmt hafa borgarfulltrúar ekki beinan aðgang að umræðum hér en ég treysti því sem hæstv. iðnrh. sagði, og margoft hefur komið fram, að auðvitað hafa áformin um lækkun orkuverðs forgang og þess vegna vil ég bæta við, hæstv. forseti, undirstrika og ítreka að í margnefndu samkomulagi segir í 3. lið, með leyfi forseta:

,,Endanleg ákvörðun um arðgreiðslur verður tekin af eigendum á ársfundi Landsvirkjunar og verður þá höfð hliðsjón af raunverulegri afkomu fyrirtækisins.``

Ég lít svo á að þegar litið er á þessa bókun og yfirlýsingu fari ekki á milli mála að þegar kemur til þess að taka ákvörðun um arðgreiðslur frá fyrirtækinu, þá verði auðvitað að líta yfir sviðið allt. Það verður að horfa fram á við og reyna að gera sér grein fyrir hvort markmiðin um lækkun orkuverðsins náist með því t.d. að greiða út þann arð sem áætlanir gerðu ráð fyrir að greiddur yrði út fyrir árið 1997. Ef stjórn fyrirtækisins sýnist vegna markaðsaðstæðna, vegna samninga við stóriðjufyrirtæki o.s.frv. að engar líkur séu á því að um aldamótin náist orkuverðslækkun, þá lít ég þannig á að það verði ekki nokkur arður greiddur út. Ég vil að þetta komi fram vegna þess að afar þýðingarmikið er að menn horfi á málið alveg til enda.

Ég held, virðulegur forseti, að sú umræða sem hefur farið fram í kvöld hafi verið mjög gagnleg og mjög mikilvægt og nauðsynlegt að fá fram þau sjónarmið sem hafa komið fram. Ég treysti því að ekki fari á milli mála að þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar af hæstv. iðnrh. eru forsendan fyrir stuðningi við þetta frv. í það minnsta af minni hálfu.