Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 23:09:07 (3373)

1997-02-11 23:09:07# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[23:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. er ósammála og hræddur við það sem borgarfulltrúi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segir, þá hljótum við að geta glaðst sameiginlega yfir því að sá borgarfulltrúi er sem betur fer í minni hluta Reykjavíkurborgar og ekkert bendir til þess að nein breyting verði á þeim högum hans.

Yfirlýsing borgarstjórans breytir ekki þessu samkomulagi. Hún breytir ekki því sem hv. þm. hefur eðlilega bent á að það verður að vera samkomulag um arðgreiðslur í stjórn Landsvirkjunar og samkvæmt samkomulaginu ber stjórn Landsvirkjunar líka að taka mjög sterklegt mið af afkomu fyrirtækisins. Borgarstjórinn í Reykjavík hefur með engu móti lagst gegn þessu. Borgarstjórinn hefur einungis sagt að hún sé ekki reiðubúin til þess að víkja arðgjafarmarkmiðunum til hliðar. Það felur ekki í sér neina aðför að samkomulaginu nema síður væri, enda er samkomulag samkomulag og þar sem menn setja stafi sína og nöfn undir, það ætla þeir sér ekki að brjóta.

Að öðru leyti held ég að það eina sem gerst hefur í þessari umræðu sé að hv. þm. Svavari Gestssyni hefur tekist óvanalega vel upp, miklu betur en um langt skeið og hann á hrós skilið fyrir það. Honum hefur tekist að taka nokkra þingmenn Sjálfstfl. á tauginni. Mér tekst það stundum en því miður allt of sjaldan og aldrei jafn vel og hv. þm. Svavari Gestssyni hefur tekist í kvöld.