Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 23:17:32 (3378)

1997-02-11 23:17:32# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[23:17]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Storminn er nú farið að lægja og það er af hinu góða. Umræðan er komin með talsvert annan blæ heldur en áður hefur verið hér. (Gripið fram í.) Meginhluti þessara umræðna hefur fyrst og fremst snúist um arðgreiðslumarkmið og lækkun orkuverðs og kannski undrar engan þótt svo hafi verið. En að gefnu tilefni, vegna þess sem hefur komið fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, þar sem hann vék að því sem ég sagði um aðild Alþb. að ríkisstjórn þegar mál um arðgreiðslur voru í upphafi tekin upp, þá vil ég bæta því við að það er nú svo, og þess vegna er dálítið merkilegt að hlusta á þessa umræðu í allan dag eða a.m.k. frá kl. fimm, að staðreyndin í málinu er sú að það hefur hver einasti stjórnmálaflokkur setið í ríkisstjórn meira og minna þegar arðgreiðslur hafa verið greiddar út úr Landsvirkjun (SvG: Og hvað með það?) En það er hér ákveðinn flokkur sem hefur viljað sýnast vera heilagri en allir aðrir í þessum efnum. (Gripið fram í: Hvaða flokkur er það?) Hv. þm. Svavar Gestsson var ráðherra á árunum 1989--1991. Öll þau ár, hv. þm. Svavar Gestsson, voru arðgreiðslur greiddar út úr Landsvirkjun. (Gripið fram í.) Já, það er nefnilega málið. Þetta vil ég draga alveg skýrt fram, Alþb. er ekkert frítt í þessum málum, síður en svo.

Ég vil svo draga saman, vegna þessara umræðna, að hér er ekki verið að tala um að hækka orkuverð um 10% eins og haldið hefur verið fram. Hér er ekki verið að tala um það. Hér er kveðið skýrt á um að orkuverð verði óbreytt að raungildi til ársins 2000 en lækki þá um 2--3% á ári til ársins 2010. Það hefur einnig komið skýrt fram í þessari umræðu, hvað eftir annað, þannig að ekki er hægt að mótmæla því að það er skýrt tekið fram, að arðgreiðslur til eigenda eru víkjandi fyrir lækkun orkuverðs. Og því vil ég í því sambandi minnast á orð borgarstjórans í Reykjavík í sjónvarpinu nú í kvöld sem hér hafa verið til umræðu. Það vildi svo til að þegar þingfundi var frestað vegna þess að ég var sagður ekki finnast í húsinu, þá sat ég hér uppi og var einmitt að hlusta á þetta viðtal. Það var spilað fyrir mig og ég var að hlusta á hvað borgarstjórinn í Reykjavík hafði akkúrat sagt. Hún sagðist ekki tilbúin að víkja arðgjöf til hliðar. Það er ekki verið að víkja arðgjöf til hliðar, ekki er minnst á orkuverð í þessu sambandi. Það er málið. Og hvað meinar borgarstjórinn þegar hún segir að yfirlýsingin sem er undirrituð breyti engu? Borgarstjóri meinar auðvitað nákvæmlega það sama og við höfum verið að reyna að halda fram í þessu máli, að frá upphafi hafi þetta verið skýrt. Það hafi alla tíð verið skýrt að arðgreiðslan væri víkjandi fyrir lækkun orkuverðs. En vegna þeirra efasemdaradda sem heyrðust í umræðunni þótti okkur rétt að fastar yrði kveðið á og þess vegna var þessi yfirlýsing gefin út. Og ég verð að segja að við sem höfum starfað á Alþingi með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, núverandi borgarstjóra, þegar hún sat á þingi, hljótum nú að þekkja hana að því að hún muni standa við orð sín. Ég er sannfærður um það og efast ekki um það eina stund, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stendur við undirskrift sína. En í bókuninni segir m.a., með leyfi forseta: ,,Núverandi samkomulag ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar felur í sér málamiðlun um arðgreiðslur til eigenda. Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.`` Samkomulagið gerir einmitt ráð fyrir að orkuverðið lækki, breytist ekki að raungildi til ársins 2000 en lækki síðan um 2--3% frá árinu 2000 til 2010. Og ég vil bæta því við líka hvað borgarfulltrúinn Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í sjónvarpinu í kvöld. Vilhjálmur sagði nokkurn veginn orðrétt: Eigendur hafa sammælst um lækkun á orkuverði um 2--3% á ári, þetta er í fyrsta sinn sem svo er gert. Þetta voru hans orð. Þannig að ég held að við séum búin að tala okkur inn á það að þetta mál hljóti nú að vera orðið nokkuð skýrt og öllum ljóst sem á annað borð vilja og geta fallist á að svo sé.

Ég vil einnig undirstrika það sem fer heldur í taugarnar á mér í þessari umræðu --- það er umræðan um arðgreiðslurnar. Mér finnst nefnilega varðandi þá umræðu, eins og ég sagði í dag, að það sé eins og sé verið að gefa einhverjum tiltölulega fámennum hópi manna þennan arð. Hvert fellur þessi arður? Hann fellur til Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúarnir eru þá líklega frjálsir að hvernig þeir fara með hann. Hann fellur einnig til Akureyrarbæjar og svo til ríkisins þar sem ríkið er helmingshluthafi. Og ríkisstjórn hefur orðið sammála um að verja meginhluta þess arðs sem fellur til ríkisins til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni, á þeim svæðum sem eru utan Reykjavíkur og Akureyrar. Þannig að það er ekki svo að þessum arðgreiðslum sé bara fleygt út um gluggann. Auðvitað fer þessi arður til þjóðarinnar allrar. Hann fer til þjóðarinnar allrar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meir. Ég vil þakka hana. Hún hefur á margan hátt verið upplýsandi og skemmtileg. Og ég vil ekki láta hjá líða að þakka iðnn. fyrir ágætt starf. Ég held að við getum sæmilega sátt við unað.