Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 23:33:02 (3381)

1997-02-11 23:33:02# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[23:33]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var athyglisverð túlkun á þingsköpunum að andsvörin eigi við flokk viðkomandi þingmanns í heild.

(Forseti (ÓE): Það er ekki fallist á þá túlkun.)

Forseti hann neitar þessari túlkun þannig að það er mál sem þarf að ræða við annað tækifæri.

Á fundi iðnn. í gærmorgun bar ég það undir borgarstjórann í Reykjavík hvort hún væri sammála eftirfarandi setningu í nál. meiri hluta iðnn.: ,,Það er skilningur meiri hlutans, sem einnig hefur komið fram af hálfu iðnaðarráðherra, að markmið um lækkun gjaldskrár gangi framar arðgreiðslumarkmiðum.`` Þessari spurningu svaraði borgarstjórinn í Reykjavík neitandi.

Nú kýs hv. þm. Stefán Guðmundsson að skilja þessa hluti allt öðruvísi og vitnar til annarra hluta. Það er hans vandamál og ég ætla ekkert að þræta frekar við hann um það. En ég tel að hann geti ekki neitað því að það sem ég er hér að segja er rétt, að borgarstjórinn hafnaði því sjónarmiði sem þarna er vitnað til úr áliti meiri hluta iðnn. Þess vegna er staðan núna þannig að í rauninni er fullur ágreiningur um málið, því miður, og bókunin frá í gær breytir engu.