Niðurrif húsa

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:00:17 (3396)

1997-02-12 14:00:17# 121. lþ. 68.3 fundur 320. mál: #A niðurrif gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram til hæstv. umhvrh. svofellda fyrirspurn:

,,Hvaða skilyrði þarf að uppfylla að mati ráðherra svo að byggingarnefnd byggðarlags geti synjað umsókn um niðurrif á húsum, sbr. úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 1. október 1996?``

Þannig háttar til að 1. okt. 1996 felldi umhvrn. þennan úrskurð. Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur um að synja um byggingarleyfi til niðurrifs steinbæjarins Brennu, Bergstaðastræti 12, Reykjavík, er úr gildi felld. Sams konar úrskurður var felldur mig minnir sama dag um steinbæinn á Vesturgötu 50 í Reykjavík.

Steinbæir eru mjög merkileg fyrirbæri eins og hv. þm. þekkja og eiga í raun uppruna sinn hér í þessu húsi því að eftir að landsmenn sáu að Alþingishúsið var byggt úr steini, hlaðið úr steini, þá voru byggðir í Reykjavík hvorki meira né minna en 20--30 steinbæir á tiltölulega mjög stuttum tíma. Það hefur verið skoðun borgaryfirvalda og þjóðminjayfirvalda, húsfriðunaryfirvalda í landinu að það væri ástæða til að reyna að halda utan um þessa bæi, koma í veg fyrir að þeir verði rifnir og eyðilagðir af því að þetta séu merkilegar menningarminjar.

Nú vil ég taka það fram, herra forseti, að þó að ég beri fram þessa fyrirspurn til hæstv. umhvrh., þá er ég ekki þar með að mótmæla rökum umhvrn. en þannig háttar til að byggingarnefnd Reykjavíkur synjaði um leyfi til niðurrifs þessara tveggja steinbæja á þeim forsendum að ekki væru borin fram nægilega gild rök og m.a. lægi ekki fyrir nægilega skýrt hver væri afstaða húsfriðunarnefndar sem byggir starf sitt á 50. gr. þjóðminjalaga.

Niðurstaða umhvrn. varð síðan sú að fella úr gildi úrskurð byggingarnefndar Reykjavíkur á þeim forsendum að það væri ekki hægt að leggja þær kvaðir á eigendur steinbæjanna að gera við þá eins og óhjákvæmilegt er ef þeir eiga á annað borð að vera til landi og þjóð til sóma þar sem þeir eru. Umhvrn. byggir úrskurð sinn á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og ég segi fyrir mig, ég hef ekkert að athuga við niðurstöður umhvrn. eins og þær eru í þessu efni, en fyrirspurnin er borin fram vegna þess að ég hef áhyggjur af málinu. Mér sýnist að með þessum úrskurði sé komið í veg fyrir það að byggingarnefndir og sveitarstjórnaryfirvöld geti friðað slíkar menningarminjar jafnvel þó að það sé tiltekið í aðalskipulagi viðkomandi byggðarlags, eins og um er að ræða að því er varðar Brennu sérstaklega, að þessir staðir skuli friðaðir. Þess vegna nefni ég þetta að ég hef áhyggjur af málinu og tel að hér séu mikilvæg menningarverðmæti að fara forgörðum. Þó að ég sé ekki að mæla fyrir því að menn varðveiti endilega hvern einasta steinbæ þá þarf að vera til stefna í þessum efnum.