Niðurrif húsa

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:03:53 (3397)

1997-02-12 14:03:53# 121. lþ. 68.3 fundur 320. mál: #A niðurrif gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:03]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir í máli sínu má rekja fyrirspurn þessa til úrskurðar sem umhvrh. kvað upp í októberbyrjun sl. um niðurrif steinhúsa hér í höfuðborginni þó að það sé svo sem ekki spurt um það sérstaklega, enda eins og hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir eru athugasemdirnar kannski ekki beinlínis við það miðaðar, heldur hvað þurfi að koma til eins og fyrirspurnin ber með sér, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla að mati ráðherra svo að byggingarnefnd byggðarlags geti synjað umsókn um niðurrif á húsum samanber úrskurði ráðuneytisins frá 1. okt. 1996.

Samkvæmt lögum er heimilt að synja beiðni um niðurrif á húsum í tveimur tilvikum. Annars vegar þegar ákvæði 3. mgr. 9. gr. byggingarlaganna, nr. 54/1978, og þjóðminjalaga, nr. 88/1989, eiga við. Og hins vegar ef sýnt þykir að ekki verði fyllsta öryggis gætt við framkvæmdina því mat á því hvort synja megi umsókn um niðurrif húsa verður að sjálfsögðu einnig að hafa hliðsjón af 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.

Í 1. mgr. 9. gr. byggingarlaganna segir m.a. að óheimilt sé að rífa hús nema að fengnu leyfi byggingarnefndar. Í 3. mgr. 9. gr. laganna er kveðið svo á að í sambandi við niðurrif á húsum skuli gætt ákvæða V. kafla þjóðminjalaga um friðun húsa og annarra mannvirkja. Ákvæði V. kafla þjóðminjalaganna fela sérstöku stjórnvaldi, húsfriðunarnefnd ríkisins, það hlutverk að stuðla að varðveislu byggingararfs þjóðarinnar og meta hvaða hús sé ráðgert að friða hverju sinni, sbr. 35. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga er eigendum húsa sem reist eru fyrir árið 1900 skylt að tilkynna nefndinni ef þeir hyggjast rífa þau. Því næst skal húsfriðunarnefnd innan þriggja vikna tilkynna viðkomandi hvort hún telur ástæðu til friðunar, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna. Ef fasteignareigandi verður fyrir fjártjóni vegna aðgerða húsfriðunarnefndar á hann rétt á skaðabótum úr ríkissjóði, sbr. 50. gr. þjóðminjalaga.

Samkvæmt framansögðu er byggingarnefnd rétt og skylt að synja um niðurrif húss sem húsfriðunarnefnd hefur talið rétt að friða.

Í 1. mgr. 3.4.7. í byggingarreglugerð segir orðrétt svo:

,,Áður en veitt er leyfi til að rífa eða fjarlægja hús eða annað mannvirki, skulu liggja fyrir upplýsingar um hver eigi að standa fyrir verkinu.

Byggingarfulltrúi getur sett nánari skilyrði um hvernig að slíku verki skuli staðið þannig að gætt sé fyllsta öryggis.``

Samkvæmt framangreindu ákvæði í byggingarreglugerð er heimilt að synja um niðurrif húsa með vísun til öryggissjónarmiða, þ.e. ef sýnt þykir að fyllsta öryggis verði ekki gætt við niðurrif hússins.

Niðurstaðan er þá þessi samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um friðhelgi eignarréttarins: Í eignarrétti yfir fasteignum felst heimild til hvers konar umráða og ráðstöfunar verðmætis innan þeirra takmarka sem réttarreglur og réttindi þriðja manns setja. Telja verður að niðurrif fasteigna sé hluti af hinum almenna umráða- og ráðstöfunarrétti sem fellur undir hugtakið ,,eignarréttur`` í skilningi stjórnarskrárinnar. Allar ákvarðanir stjórnvalda sem fela í sér takmarkanir á ráðstöfunarrétti fasteigna verða að hafa skýra lagastoð. Eins og áður er rakið er lagastoð til synjunar niðurrifs á húsum einungis fyrir hendi í tveimur tilvikum, annars vegar þegar hús hefur verið friðað samkvæmt þjóðminjalögum og hins vegar þegar hætta er á að ekki verði gætt fyllsta öryggis við niðurrif hússins.

Fleiri atriði er ekki að finna í lögum að yfirsýn umhvrn. og í ljósi þess voru þessir úrskurðir felldir eins og hv. fyrirspyrjandi gat um og vitnaði aðeins til þó að út að fyrir sig sé fyrirspurnin ekki að öðru leyti tengd þeim og ef ættu að koma til fleiri tilvik, þ.e. einhver sérstakur réttur byggingarnefnda í þessu sambandi til viðbótar við húsfriðunina og öryggissjónarmiðin, þá þyrfti að breyta til þess lögum.