Niðurrif húsa

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:09:31 (3399)

1997-02-12 14:09:31# 121. lþ. 68.3 fundur 320. mál: #A niðurrif gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:09]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Niðurrif gamalla húsa hefur verið landlægt vandamál og er enn.

Ég vil taka eitt lítið dæmi frá Hnífsdal vestur við Ísafjarðardjúp þar sem gömul hús lenda inni á hættusvæði vegna snjóflóðavandamála en í dag eru þau miskunnarlaust rifin niður, gömul hús sem hafa mikið sögulegt og menningarlegt gildi á viðkomandi svæði. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er engin skoðun á því innan ráðuneytisins hvernig megi varðveita gömul menningarverðmæti sem lenda inni á snjóflóðahættusvæðum? Hefur ráðuneytið ekki hugsað sér að hafa einhverja viðræðu um það við sveitarfélögin hvernig mætti varðveita þetta og hvernig ráðuneytið mundi koma að því máli sérstaklega?