Niðurrif húsa

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:16:33 (3402)

1997-02-12 14:16:33# 121. lþ. 68.3 fundur 320. mál: #A niðurrif gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:16]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig kannski ekki miklu við þetta að bæta en það kom viðbótarfyrirspurn frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni sem ég hygg að sé kannski efni í aðra fyrirspurn og verði ekki svarað ítarlega óundirbúið á tæpum tveimur mínútum. Mér er ekki kunnugt um að það hafi farið fram nein sérstök umræða í umhvrn. um það mál sem hann vakti athygli á sérstaklega tengd snjóflóðahættusvæðum, enda er varðveisla menningarverðmæta sem hann spurði um kannski nánar tengd menntmrn. eða öðrum ráðuneytum en umhvrn. En eins og það mál sem við höfum verið að ræða, þá spilar þetta auðvitað saman og oft eru málefnin þannig tengd fleiri en einu ráðuneyti sem þurfa þá að hafa samverkandi vinnureglur hvort sem það eru lög eða reglugerðir.

Varðandi svigrúm eða möguleika sveitarstjórna til þess að taka ákvörðun um friðun, þá held ég að það hafi komið alveg skýrt fram í máli mínu áðan og kannski ekki miklu við það að bæta og eins og hv. fyrirspyrjandi áréttaði í sínu máli, þá þurfi til þess að koma lagabreyting. Ég minni á það að byggingar- og skipulagslög eru til meðferðar hér á hv. Alþingi og vonandi verða þau afgreidd frá þinginu á næstu vikum og það frv. lögfest. Þar er svigrúm til þess að skoða þetta mál eða þennan þátt sérstaklega. Ég er ekkert að mæla með því endilega því að ég hef ekki skoðað það. Sú umræða hefur ekkert verið í gangi eða menn verið að athuga hvort það sé rétt eða eðlilegt að sveitarfélög hafi þessa möguleika eða þetta svigrúm til þess að taka ákvarðanir því að eins og hv. fyrirspyrjandi gat um er eðlilegt að gæta fyllstu faglegra sjónarmiða í því efni og það höfum við lögum samkvæmt falið húsfriðunarnefnd ef um er að ræða friðunaraðgerðir, af því að við teljum að þarna sé um að ræða menningarverðmæti eða verðmæti sem þurfi að varðveita og það vald gæti sjálfsagt verið nokkuð vandmeðfarið ef einstaka sveitarstjórnir hefðu síðan einhver önnur ítök eða möguleika til þess að taka ákvarðanir í þessu efni e.t.v. án ítarlegrar athugunar. En við erum alltaf að færa vald frá ríki til sveitarfélaga. Það er í tísku um þessar mundir þannig að það má kannski skoða þetta í tengslum við þá endurskoðun laga sem hér stendur fyrir dyrum og er í gangi á hv. Alþingi.