Synjun atvinnuleyfa

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:16:56 (3403)

1997-02-12 14:16:56# 121. lþ. 68.4 fundur 295. mál: #A synjun atvinnuleyfa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Í yfirliti um atvinnuástandið í desember sl. frá vinnumálaskrifstofu félmrn. komu fram margvíslegar athyglisverðar upplýsingar um atvinnumál og m.a. er þar greint frá úthlutun atvinnuleyfa til útlendinga og þau greind eftir kyni og löndum. Fram kemur að á árinu 1996 var 39 útlendingum synjað um atvinnuleyfi en það eru engar skýringar gefnar í þessu annars ágæta yfirliti. Því fýsir mig að fræðast um það frá hæstv. félmrh. hvað lá að baki því að þessum einstaklingum var synjað um atvinnuleyfi. Það kemur fram að hér var fjölgun synjana að ræða milli ára en árið 1995 var 29 útlendingum synjað um atvinnuleyfi og því spyr ég hæstv. félmrh.:

,,Af hvaða ástæðum var 39 útlendingum synjað um atvinnuleyfi árið 1996? Hvaðan var þetta fólk?``