Viðræðuáætlanir

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:33:35 (3409)

1997-02-12 14:33:35# 121. lþ. 68.5 fundur 307. mál: #A viðræðuáætlanir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég leitaði til ríkissáttasemjara til að kanna þetta mál og hann upplýsti að stéttarfélög og atvinnurekendur gerðu á síðasta ári sín á milli 240 viðræðuáætlanir innan tilskilins frests. Ríkissáttasemjari gaf síðan út 77 viðræðu\-áætlanir milli viðsemjenda eftir að fresturinn var útrunninn, 77 gaf ríkissáttasemjari út, 240 gerðu menn innan tilskilins frests.

Þess ber að geta að flestar þessar viðræðuáætlanir eru mjög svipaðar, þ.e. það má skipta þeim í hópa og þær eru tilbrigði við sama stef. Það eru sérkröfur frá ýmsum hópum eða sérstakar aðstæður ákveðinna hópa sem valda því að þeir vilja hafa eitthvað inni í sinni viðræðuáætlun sem kannski passar ekki hjá öðrum. En ég tel að af þessum viðræðuáætlunum sé bara góð reynsla og þrátt fyrir að þessir samningar hafi náttúrlega tekið langan tíma og hugsanlega óþarflega langan, þá höfum við nú upplifað það fyrr. Það er kominn nokkur skriður á samningamálin og hér um bil á hverjum degi næst einhver árangur. Það er búið að semja í loðnubræðslum fyrir austan. Það er verið að ræða samninga á milli fiskvinnslufólks og SR. Samningar um sérkjör eru búnir eða sem næst búnir eftir mínum upplýsingum, þ.e. um sérkröfurnar milli fiskverkafólks og fiskvinnslustöðvanna. VR er búið að leggja fram sínar kröfur og þó að ég geri ekki ráð fyrir því að það verði endanleg niðurstaða í samningum, þá kann það að gefa tóninn til frekari viðræðna. Ég er því tiltölulega vongóður um að einhver árangur náist innan ekki mjög langs tíma og ég legg áherslu á það að auðvitað þurfa menn að nota tímann vel. Það hefur því miður kannski ekki verið gert í öllum tilfellum á undanförnum vikum.