Landsvirkjun

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:50:34 (3415)

1997-02-12 14:50:34# 121. lþ. 69.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur

[14:50]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á þskj. 599 flyt ég brtt. sem er þriðja tilraun til að lögfesta það að verðlækkanir skuli einnig teknar með í lögunum en ekki bara útgreiðsla arðs. Það er búið að fella svipaðar tillögur tvisvar. Það var gert við 2. umr. Nú er gerð þriðja og líklega síðasta tilraun í þá veru. Hér er tekið upp orðalag hinnar umdeildu bókunar borgarstjóra, iðnrh. og bæjarstjórans á Akureyri. Það er á þessa leið: ,,Það er forgangsverkefni að raunverð á raforku lækki samkvæmt samningnum frá 28. október 1996, áður en arður verður greiddur út samkvæmt sama samkomulagi.``

Þetta er nákvæmlega það sem allir stuðningsmenn málsins í gær héldu fram að væri í málinu. Ég er hér með tillögu, herra forseti, um að orð þeirra verði gerð að lögum og ég vona að þeir styðji það sjálfir.