Landsvirkjun

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 15:00:42 (3422)

1997-02-12 15:00:42# 121. lþ. 69.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., LB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur

[15:00]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til afgreiðslu snýst um peninga og útdeilingu eigna. Það gengur út á að löggjafarvaldið staðfesti og leggi blessun sína yfir samkomulag eigenda um skiptingu herfangsins, Landsvirkjunar, og þá aðferðafræði að nú verða meint eigendaframlög án tillits til raunverulegrar eignarstöðu fyrirtækisins. Það sjá allir hvílík firra þetta er.

Frv. gerir ráð fyrir auknum kostnaði fyrirtækisins vegna útgreiðslu arðs til eigenda án þess að gert sé ráð fyrir auknum tekjum. Vitaskuld verða þær tekjur aðeins sóttar í vasa landsmanna. Það er ekki annað að leita. Í þessu máli eru menn meira að segja svo óskammfeilnir að eftir að herfanginu hefur verið skipt og ákvörðun tekin um útgreiðslu arðs lýsa eigendur því yfir að markmið fyrirtækisins sé að stuðla að lækkun á raunvirði raforku eftir aldamót. Þrátt fyrir þetta er augljóst hvað hér er á ferðinni. Það er verið að tryggja að eigendur Landvirkjunar gangi ekki út úr fyrirtækinu og hefji samkeppni á orkumarkaði. Arðgreiðslurnar eru það verð, sá fórnarkostnaður sem þarf að greiða. Þann kostnað er landsbyggðinni ætlað að greiða í formi hærra orkuverðs. Bókanir um aðra forgangsröðun á markmiðum fyrirtækisins eru því hjóm eitt. Slíka afgreiðslu get ég ekki sætt mig við og greiði ekki atkvæði.