Landsvirkjun

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 15:13:41 (3433)

1997-02-12 15:13:41# 121. lþ. 69.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., GÁS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Meginmarkmið þessa frv. orka tvímælis sem og aðferðafræðin við að nálgast þau. Bæði er og vel í lagt meinta inneign eignaraðila og fastákveðin úttekt í formi arðgreiðslna í hærri kantinum. Það gefur auga leið að þetta fyrirtæki eins og önnur mun eiga erfiðara en ella með að lækka verð á sinni þjónustu þegar fyrir liggur að eigendurnir hafa ákveðið að taka til sín stærri fjárhæð árlega út úr fyrirtækinu en áður var. Markmiðin um hækkaðar arðgreiðslur og síðan lækkun raforkuverðs ganga einfaldlega í eðli sínu hvort gegn öðru.

Hins vegar eru fyrirliggjandi loforð á alla kanta þess efnis að lækka eigi verð á rafmagni þegar ný öld gengur í garð. Guð láti gott á vita. Það er hins vegar vonarpeningur fyrir landsmenn. Arðgreiðslurnar eru aftur á móti í hendi fyrir eigendur.

Eins og ég hef áður lýst í umræðu um þessi mál, þá þykir mér að ýmislegt hefði betur mátt fara í samningum eignaraðila og við afgreiðslu málsins á hinu háa Alþingi. Einstök atriði hafa þó skýrst og færst til betri vegar við meðhöndlun þingsins. Ég tel að sönnu mikilvægt að allgóður friður megi ríkja um þetta mikilvæga fyrirtæki allra landsmanna sem Landsvirkjun er og sátt um það, þó dýrkeypt sé, millum eignaraðila. Ábyrgð á afgreiðslu þessa máls skal hins vegar vera á hendi ríkisstjórnar í núinu og framtíðinni og því greiði ég ekki atkvæði.